Afmælisráðstefna SAF

Afmælisráðstefna SAF - Samtaka í 25 ár

Afmælisráðstefna SAF

Á ráðstefnunni verður boðið upp á fjölda viðburða með lotufyrirkomulagi (e. breakout sessions) í fjórum þemum, um framtíð ferðaþjónustunnar, vöruþróun í greininni, þekkingu á ferðaþjónustu og áhrif hennar á samfélagið. Þá verða Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar afhent með viðhöfn.

Ráðstefnan á meðal annars erindi við rekstraraðila í ferðaþjónustu, stjórnendur og starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækja, eigendur og stjórnendur fyrirtækja í samstarfi við og með hagsmuni af ferðaþjónustu, fjárfesta í greininni, rannsóknaraðila í akademíunni og alla þá sem hafa áhuga á og vilja afla sér aukinnar þekkingar á þróun ferðaþjónustu á Íslandi næstu ár. Þá eru háskólanemar í greinum sem tengjast ferðaþjónustu og viðskiptalífi sérstaklega hvattir til að taka þátt. 

Hvaða spurningar brenna á þér?

Eru betur borgandi eða betur hugsandi ferðamenn framtíðarinnar? Hvernig býrð þú til og markaðssetur söguna þína? Hvernig má nýta gervigreind og aðstæðuvitund að bæta sölu, rekstur og þjónustu? Hver er framtíðarsýn stjórnmálanna um gjaldtöku af ferðaþjónustu? Hvernig auka fyrirtæki tekjurnar með því að tengja við ferðaþjónustusegla á sínu svæði? Segja símagögn aðra sögu um ferðamenn á Íslandi en opinberar talningar? Er álagsstýring á ferðamannastöðum framtíðin, og þá hvernig og með hvaða markmiðum? Munu tæknifyrirtæki taka yfir ferðaþjónustubransann? Eru skemmtiferðaskip bara vesen eða vanmetin verðmæti?

Svör og sjónarmið um þessi mál og fleiri verða í brennidepli á ráðstefnunni, sem lýkur svo með hressilegum afmælisfögnuði og netagerð.

Stútfull dagskrá með spennandi fyrirlesurum

Hér má sjá nokkra af þeim fyrirlesurum sem fram koma á afmælisráðstefnu SAF, en alls koma um 50 manns fram í fyrirlestrum og umræðupanelum. Ítarlega dagskrá ráðstefnunnar er að finna hér: Dagskrá afmælisráðstefnu SAF 2023 

Tryggðu þér miða í dag

Miðasala og verð

Almennt verð er 14.900 kr.
Afsláttarverð fyrir félagsmenn SAF er 9.900 kr.
Sérstakt verð fyrir nema er 4.900 kr.

Ráðstefnugestum er bent á að mögulegt er að sækja styrki eða endurgreiðslu til stéttarfélaga og starfsmenntasjóða. 

Einnig er bent á að hægt er að fá sendan reikning á fyrirtæki eða stofnun ef 4 eða fleiri eru skráðir frá sama aðila. Nánari upplýsingar er að finna í skráningarforminu.

Staðsetning

Hilton Reykjavík Nordica er staðsett við Suðurlandsbraut 2 í Reykjavík og er fyrir löngu orðið vel þekkt fyrir fjölbreyttar ráðstefnur og fundi. Afmælisráðstefna SAF hefst í aðalráðstefnusal hótelsins en lotuviðburðir fara svo fram í fundasölum á 2. hæð. Við ráðstefnulok og í afmælisfögnuði SAF safnast ráðstefnugestir og fyrirlesarar saman í aðalrástefnusalnum á ný.

Staðsetningin býður upp á næg bílastæði og gott aðgengi, auk þess sem möguleiki er á gistingu á sama stað ef þörf er á fyrir gesti sem koma frá svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. 

Ertu með spurningar?

Upplýsingar um ráðstefnuna veitir Skapti Örn Ólafsson upplýsingafulltrúi SAF í síma 8992200 eða með pósti á netfangið skapti@saf.is.

Ef spurningar vakna um aðgengi, hótelherbergi, veitingastaði, mataróþol eða annað er varðar  ráðstefnustaðinn er hægt að hafa samband við Hilton Reykjavík Nordica í síma 4445000 eða með pósti á netfangið hilton.reception@icehotels.is

Um ráðstefnuna

Afmælisráðstefna SAF er haldin á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 15. nóvember 2023, kl. 13-17, undir yfirskriftinni “Samtaka í 25 ár.”

Ráðstefnan hefst í ráðstefnusal Hilton Nordica kl. 13:00, en húsið opnar fyrir kynningartorg fyrirtækja, kaffisopa og afhendingu ráðstefnugagna kl. 12:00.

Ráðstefnunni lýkur svo með skemmtilegum afmælisfögnuði og netagerð undir tónlist og léttum veitingum.

Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar, þemu, lotufyrirkomulagið, umfjöllunarefni, fyrirlesara, umræðupanela og tímasetningar er að finna hér: Dagskrá afmælisráðstefnu SAF 2023

Ráðstefnan er með lotufyrirkomulagi (e. breakout sessions) þar sem fjórir viðburðir eru í gangi á hverjum tíma og ráðstefnugestir velja hvaða viðburð þau vilja helst sækja. Fjórar slíkar lotur með fjórum viðburðum í hverjum verða í boði milli kl. 13 og 17 og því telur ráðstefnan alls 16 lotuviðburði sem gestir geta valið á milli á ráðstefnudeginum sjálfum.

Allir viðburðirnir verða hins vegar teknir upp og myndbönd af þeim verða gerð aðgengileg skráðum ráðstefnugestum að ráðstefnunni lokinni, svo að enginn þarf að missa af neinu sem fram fer. 

Samtaka í 25 ár!

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) voru stofnuð 11. nóvember 1998 og eru hagsmunasamtök allra fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu. Samtökin voru byggð á grunni Sambands veitinga- og gistihúsa (SVG), sem stofnuð voru árið 1945 og lögðu önnur hagsmunasamtök sem störfuðu innan ferðaþjónustunnar niður starfsemi sína á sama tíma. Á þessum tímamótum voru hátt í 200 aðilar að SVG sem gengu til liðs við SAF sem í dag telur um 400 fyrirtæki í ferðaþjónustu í öllum geirum greinarinnar um allt land. 

Meginhlutverk SAF er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna gagnvart stjórnvöldum, vinna að vexti og viðgangi greinarinnar og því að fyrirtækin búi við starfsskilyrði sem gera þau samkeppnishæf á alþjóðamarkaði, og stuðla að því að ferðaþjónusta á Íslandi grundvallist á virðingu fyrir landi og þjóð. 

Í dag er fjöldi ólíkra fyrirtækja í SAF. Þar eru flugfélög, ferðaskrifstofur, gististaðir, veitingahús, bílaleigur, hópbifreiðafyrirtæki, afþreyingarfyrirtæki, tæknifyrirtæki, viðburðafyrirtæki og fleiri fyrirtæki sem með margvíslegum hætti telja sig til ferðaþjónustufyrirtækja. SAF starfa með öðrum hagsmunasamtökum og eru þau ein af 6 aðildarsamtökum Samtaka atvinnulífsins sem stofnuð voru 15. september 1999 með samruna Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins. 

Stefna SAF í hinum ýmsum málum unnin á vegum stjórnar og nefnda. Innan samtakanna starfa átta fagnefndir sem hver um sig sinnir málefnum sinnar greinar innan ferðaþjónustunnar. 

Með stofnun og starfi SAF hefur íslensk ferðaþjónusta talað einni röddu gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum svo og öðrum sem ferðaþjónustufyrirtæki skipta við í 25 ár. Styrkur þess að atvinnugreinin komi sameinuð fram út á við um hagsmunamál sín er óumdeildur eins og fjölmörg dæmi um árangur í hagsmunamálum greinarinnar á liðnum aldarfjórðungi sýna.