Ályktun aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar 2017

Landinn kallar – skipulag í sátt við samfélag

Ferðaþjónustan er drifkraftur íslensks efnahagslífs. Sá öri vöxtur sem verið hefur í greininni er krefjandi verkefni fyrir íslenskt samfélag. SAF kalla eftir öflugu samtali um framtíð ferðaþjónustu á Íslandi. Þar verði meðal annars horft til langtímahagsmuna þjóðarinnar, náttúruauðlinda, byggðasjónarmiða, orðspors og upplifunar ferðamanna af heimsókn sinni.

Við eigum mikilla hagsmuna að gæta og megum ekki láta skammtímahagsmuni stýra för.

Hagkerfi Íslands hefur á skömmum tíma breyst úr því að vera frumvinnsluhagkerfi í að vera öflugt þjónustuhagkerfi. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands mældist hagvöxtur 7,2% á síðasta ári og hefur hann ekki mælst meiri frá árinu 2007. Það er nýlunda á Íslandi að samfara svo miklum hagvexti nemur á sama tíma viðskiptaafgangur 8% af landsframleiðslu. Hér skiptir mestu myndarlegur afgangur af þjónustujöfnuði en þjónustuútflutningur var í fyrra, í fyrsta sinn í hagsögu þjóðarinnar, meiri en allur vöruútflutningur landsins.

Það er vissulega ástæða til að fagna þessari þróun en á Íslandi hefur lengi verið stefnt að því að auka fjölbreytni í öflun gjaldeyris til að standa undir þeim innflutningi sem bætt lífskjör kalla óumflýjanlega á.

Ferðaþjónustan er eitt helsta hreyfiafl samfélagsbreytinga sem eru að eiga sér stað. Þess vegna er kallað eftir nýjum áherslum s.s. hvað varðar peningastefnu, uppbyggingu innviða, verðmæti ósnortinna víðerna, skipulag svæða í sátt við samfélag, skilvirkt eftirlit og eflingu menntunar.

 

Samkeppnishæfni útflutningsgreina er grundvöllur verðmætasköpunar

Styrking íslensku krónunnar mikið áhyggjuefni

Aðalfundur SAF skorar á stjórnvöld að ganga hratt og örugglega til verks hvað varðar endurskoðun peningastefnu landsins með hagsmuni almennings og útflutningsgreinanna að leiðarljósi. Tryggja verður nauðsynlegar mótvægisaðgerðir gegn enn frekari styrkingu krónunnar, enda liggur samkeppnishæfni undirstöðuatvinnugreinanna þar undir.

Skýlaus krafa að allir sitji við sama borð

Það er skýlaus krafa SAF að allir sem hafa tekjur af gistingu greiði skatta og skyldur eins og lög gera ráð fyrir og hafi tilskilin leyfi til slíks rekstrar. Stjórnvöld verða undantekningarlaust að tryggja skilvirkt eftirlit með þessari starfsemi m.a. með því að krefjast rekstrarupplýsinga frá erlendum miðlum en nýjustu tölur sýna að íslenska ríkið verður af milljörðum króna árlega vegna óskilvirks eftirlits með gistingu. Í þessu samhengi má heldur ekki gleyma mikilvægi öryggis gesta okkar en án nokkurs eftirlits eða krafna má ætla að öryggismálum sé verulega ábótavant.

SAF gera einnig þá kröfu að stjórnvöld bregðist við af fullri hörku gagnvart þeim erlendu og innlendu fyrirtækjum og einstaklingum sem starfa í hvers kyns ferðaþjónustu, eru óskráð og leyfislaus á Íslandi, skila ekki VSK eða öðrum sköttum og gjöldum og fara ekki eftir íslenskum kjarasamningum eða að lögum. Ef tryggja á gæði og fagmennsku í ferðaþjónustu verða stjórnvöld að standa vaktina og framfylgja þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda.

Vörugjöld á bílaleigur án mótvægisaðgerða

SAF leggja ríka áherslu á að gildistöku afnáms niðurfellingar vörugjalda á bílaleigubíla verði frestað þar til niðurstaða fæst í framtíðarfyrirkomulag skattlagningar á ökutæki og skattbyrði bílaleiga. Þetta er í samræmi við samþykktir Alþingis og því óásættanlegt að leggja auknar álögur á atvinnulífið án mótvægisaðgerða. Að auki er mikilvægt að stjórnvöld geri bílaleigum kleift að losa bíla úr landi án kvaða.

Skipulag þarf að tryggja í sátt við samfélag

Landsáætlun til uppbyggingar innviða ferðaþjónustunnar fagnað

Aðalfundur SAF fagnar gerð landsáætlunar til uppbyggingar innviða ferðaþjónustunnar. Að mati SAF er það rétt leið til að tryggja samræmda uppbyggingu með frumkvæði og heildarhagsmuni í sátt við samfélag að leiðarljósi. Afar mikilvægt er að stjórnvöld samræmi skipulag á svæðum í sínum umráðum í eitt skipti fyrir öll. Samtökin gera þó þá afdráttarlausu kröfu að slík áætlun verði full fjármögnuð ár hvert, svo hægt verði að tryggja nauðsynlega uppbyggingu. Þá er mikilvægt að áætlunin haldist í hendur við DMP (Destination Management Plan) Stjórnstöðvar ferðamála. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að ríkissjóður hefur verulegar tekjur í formi skatt- og þjónustutekna af ferðaþjónustunni og áætla samtökin að þær hafi numið um 70 milljörðum króna á síðasta ári og aukist um 20 milljarða á þessu ári og verði 90 milljarðar.

Samgöngur í ógöngum

Til að tryggja heilsárs ferðaþjónustu á Íslandi um allt land verður að stórbæta samgöngur hvort sem er á lofti, láði eða legi enda eru þær lífæð ferðaþjónustunnar og samfélagsins alls. Öruggar og tryggar samgöngur eru undirstaða hagsældar okkar allra, jafnt heimamanna, innlendra og erlendra ferðamanna. Vinna verður að samþættingu samgöngukerfa þar sem unnið er að greiningu á ástandi samgöngukerfisins þar sem þróun flugvalla, vegakerfis og hafna er metin samhliða. Aðalfundur SAF krefst þess að fjármagn til málaflokksins verði stóraukið þannig að kerfið grotni ekki enn frekar niður. Það er einnig brýnt að samgöngumannvirki verði byggð upp svo sómi sé af. Þá krefjast SAF þess að samgönguáætlun sé fullfjármögnuð hverju sinni – þ.e. að fé fylgi ávallt áætlun. Án fjármögnunar er slík áætlun ómerkt plagg eins og dæmin nú þegar sanna. Rétt er að geta þess að áætlað fjármagn til málaflokksins hefur ekki verið lægra sem hlutfall af vergri landsframleiðslu síðan árið 1953, það ár komu alls 6.380 ferðamenn til Íslands.

Umræða um gjaldtöku og skattheimtu á villigötum

Mikil umræða hefur verið um gjaldtöku og skattheimtu tengdri ferðaþjónustu síðustu misserin. Minna hefur hins vegar farið fyrir áformum um skipulag og uppbyggingu í takt við þann grunn sem svo nauðsynlegur er til að tryggja þau tækifæri sem í ferðaþjónustunni felast til framtíðar. Ferðaþjónustan hefur verið drifkraftur uppbyggingar íslensks efnahagslífs undanfarin ár og atvinnugreinin skilar nú þegar miklum tekjum til ríkissjóðs. Afkoma fyrirtækja í greininni hefur á sama tíma átt verulega undir högg að sækja, ekki síst í kjölfar mikilla launahækkana, gengisstyrkingar krónunnar og breytinga á lögum um virðisaukaskatt. Aðalfundur SAF gerir þá kröfu að stjórnvöld meti tekjur ríkisins af greininni og horfi til þeirra áður en umræða um frekari álögur fer fram.

Það er með öllu óásættanlegt að hækka sértækan skatt á ferðamenn eins og gert er með fyrirhugaðri þreföldun á gistináttaskatti og mótmæla samtökin þeim áformum harðlega.
Hins vegar telja samtökin að gjaldtaka fyrir vel skilgreinda virðisaukandi þjónustu geti stutt við álagsstýringu og dreifingu ferðamanna, gæði og þjónustu á hverjum ferðamannastað. Þá telur SAF mikilvægt að fjármögnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða verði tryggður til lengri tíma í ríkisfjármálaáætlun.

Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar mikilvægt innlegg í vinnslu rammaáætlunar

SAF fagna þeirri aðferðafræði sem lögð er til grundvallar vinnslu rammaáætlunarinnar sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Þar er í fyrsta sinn horft til efnahagslegra áhrifa ferðaþjónustunnar. Á sama tíma og setja þarf 4. áfanga áætlunarinnar í gang telja SAF afar mikilvægt að þekking á ferðaþjónustunni verði áfram tryggð innan verkefnastjórnarinnar.

Menntakerfið verður að taka mið af þörfum atvinnulífsins

Efla þarf menntun og fræðslu í ferðaþjónustu til að tryggja enn frekari gæði. Fyrirkomulag náms verður að taka mið af þörfum fyrirtækja, m.a. með því að stórefla viðurkennt þrepaskipt starfsnám á öllum landssvæðum. SAF fagna stofnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar. Þar verður rík áhersla lögð á samvinnu við atvinnugreinina, aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvöld. Afar mikilvægt er að starfsgrundvöllur hæfniseturs verði tryggður næstu árin þannig að hægt verði að efla enn frekar það starfsnám sem helst hefur verið kallað eftir og setrinu er ætlað að bregðast við.

Kallað er eftir stefnu stjórnvalda hvað varðar skipulag og rekstrargrundvöll innanlandsflugs

Víðfeðmt land eins og Ísland er háð öflugu innanlandsflugi fyrir íbúa landsins og ferðamenn. Fyrirkomulag innanlandsflugs hefur engu að síður lengi verið bitbein stjórnvalda, notenda og flugrekstraraðila. SAF kalla eftir að stjórnvöld leggi í vinnu við að skipuleggja og tryggja rekstrargrundvöll innanlandsflugs til framtíðar. Brýnt er að rekstrargrundvöllur Reykjavíkurflugvallar verði tryggður. Núverandi ástand er með öllu óviðundandi og nauðsynlegt að bregðast við með öflugum hætti m.a. hvað varðar áherslur Vegvísis um dreifingu ferðamanna.

Sjálfbær nýting auðlinda til lengri tíma

Aðalfundur SAF leggur til að ákveðin skref verði stigin hvað varðar stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands

Með því að gera miðhálendið að einum þjóðgarði er skapað tæki til heildstæðs skipulags og verndunar viðkvæmra svæða. Með stofnun þjóðgarðs yrði myndaður skýr rammi utan um hin gríðarlegu verðmæti sem felast í ósnortinni náttúru á miðhálendi Íslands ásamt því að þar felast tækifæri til atvinnusköpunar þar sem vernd og nýting fara saman.

Tryggja þarf skipulag, gæði og samræmdar aðgerðir innan þjóðgarða

SAF brýna fyrir stjórnvöldum mikilvægi skipulags, gæða og samræmingar varðandi aðgengi að þjóðgörðum og þjóðlendum. Vinna við þennan málaflokk verður að fara fram í góðu samstarfi við atvinnulífið og skapa þannig forsendur fyrir sjálfbærni auðlindarinnar og faglegri starfsemi sem byggir á öryggi og gæðum í ferðaþjónustu.

Aðalfundur SAF væntir mikils af samstarfi stjórnvalda, sveitafélaganna og atvinnugreinarinnar í gegnum Stjórnstöð ferðamála. Ríkisfjármálaáætlun þarf í auknum mæli að taka mið af þeim tillögum og verkefnum sem bíða framkvæmda enda miðar samstarfið að því að nálgast viðfangsefnin heildstætt með góðri samvinnu og samstilltu átaki sem er grundvöllur úrlausna flókinna viðfangsefna.

Samþykkt á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar þann 16. mars 2017