Bein áhrif ferðaþjónustunnar á tekjur ríkis og sveitarfélaga jákvæð um 39 milljarða króna árið 2015

– ætla má að óbeinu áhrifin séu umfangsmikil

Ný greining Deloitte sem gerð var fyrir Stjórnstöð ferðamála og kynnt var í dag staðfestir þær miklu tekjur sem ríki og sveitarfélög hafa beint af komum erlendra ferðamanna til Íslands. Greiningin tekur til ársins 2015 en það ár komu 1,3 milljónir ferðamanna til Íslands. Á árinu 2017 er áætlaður fjöldi ferðamanna 2,3 milljónir talsins.

Bein áhrif ferðamanna árið 2015:

  • Bein áhrif ferðamanna á tekjur og gjöld ríkissjóðs eru jákvæð um 28 milljarða króna
  • Að auki eru bein áhrif ferðamanna á tekjur og gjöld sveitarfélaga jákvæð um 11 milljarða króna.
  • Áætlað er að ferðamenn hafi greitt 25 milljarða króna í virðisaukaskatt á árinu 2015.
  • Öll óbein og afleidd hagræn áhrif koma öll til viðbótar.

Enn auknar tekjur á árunum 2016 og 2017

Rétt er að benda á að umrædd greining á við um árið 2015. Ferðamönnum fjölgaði um 40% milli áranna 2015 og 2016 og þeim fjölgar áfram á þessu ári. Þá er mikilvægt að hafa í huga að stór hluti ferðaþjónustunnar fór ekki inn í lægra þrep virðisaukaskattskerfisins fyrr en 1. janúar 2016. Það má því gera ráð fyrir að erlendir ferðamenn hafi síðan þá greitt mun hærri upphæð í virðisaukaskatt en sem nemur þeim 25 milljörðum króna sem þeir greiddu árið 2015.

Óbeinu áhrifin veruleg

„Á undanförnum árum má segja að hið opinbera hafi fengið hádegisverðinn ókeypis, ef svo má að orði komast, þar sem ferðaþjónustan hefur aflað gríðarlegra tekna á sama tíma og litlu hefur verið varið í uppbyggingu innviða,“ segir Ásgeir Jónsson hagfræðingur en hann sat í pallborði ásamt Deloitte að kynningu lokinni. Aðspurður að því hvort hægt væri að meta á þessu stigi óbeinu áhrif ferðaþjónustunnar á hagkerfið sagði hann það erfitt, en gróflega mætti ætla að þau væru í kringum 1,5-2 sinnum bein áhrif á landsframleiðslu.

Stjórnvöld verða að leiða umræðuna með faglegum hætti

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist fagna því að fá fram vandaða og óháða greiningu á beinum tekjum og gjöldum ríkis og sveitarfélaga af ferðaþjónustunni. „Það er ljóst að þessar tekjur eru hærri en flestir gerðu ráð fyrir og ferðaþjónustan hefur haft afgerandi áhrif á afkomu opinbera geirans á undanförnum árum. Því ber að fagna. Það eru mikil tækifæri í ferðaþjónustunni og við getum ekki leyft okkur að taka ákvarðanir um atvinnugreinina sem geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á íslenskt efnahagslíf án almennilegra greininga,“ segir Helga og vísar hér til ætlaðrar virðisaukaskattshækkunar á ferðaþjónustuna.

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa sig reiðubúin, hér eftir sem hingað til, til að eiga uppbyggilegt samtal við stjórnvöld um framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi. Áreiðanleg greining á stöðu greinarinnar er mikilvægur grunnur til ákvarðanatöku og er þessi skýrsla því mikilvægt innlegg í þá vinnu.