Bílaleigur með nýjar og endurbættar leiðbeiningar fyrir erlenda ökumenn

saf_styrisspjold_2

Nýju leiðbeiningarspjöldin tekin til handargagns. Frá vinstri: Gunnar Valur Sveinsson hjá SAF, Sigurður Gunnarsson hjá Route 1 og Þorsteinn Þorgeirsson hjá Avis.

Bílaleigur hafa fengið nýja og endurbætta útgáfu stýrisspjalda þar sem ökumenn eru upplýstir með myndrænni hætti en áður hvað helst ber að varast í umferðinni og hvað séríslensku umferðarskiltin þýða.

Nýju spjöldin eru hengd á stýri bílaleigubílanna og eiga því ekki að fara framhjá nokkrum ökumanni. Texti þeirra er á ensku, en ökumenn munu einnig hafa val um að fá upplýsingabæklinga á nokkrum öðrum tungumálum þ.m.t. þýsku, frönsku, spænsku og kínversku. Á spjöldunum er undirstrikað með myndrænum hætti að ávallt eigi að hafa kveikt á framljósum, spenna beltin, virða hámarkshraða, fara eftir umferðarskiltum og gæta varúðar við akstur á malarvegum.

„Samtök ferðaþjónustunnar hafa undanfarin ár staðið fyrir útgáfu stýrisspjalda fyrir bílaleigubíla í samstarfi við viðbragðsaðila og stofnanir. Þannig er dregið úr hættu á að ökumenn fái misvísandi upplýsingar,“ segir Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá SAF.

Stýrisspjöldin eru gefin út í tveimur flokkum, annarsvegar fyrir fólksbíla og hins vegar jeppa. Fólksbílaspjöldin sýna m.a. að óheimilt er að aka slíkum bílum á miðhálendinu þar sem þeir eru ekki búnir fyrir slíkar aðstæður.

Aftan á stýrisspjaldinu eru útskýringar á nokkrum séríslenskum umferðarskiltum, þar á meðal malbik endar, blindhæð, malarvegur og allur akstur bannaður. Þar er einnig bent á að akstur utan vega er bannaður og að sektir liggi við slíku, líkt og öðrum umferðalagabrotum.

„Hjá bílaleigunum leggjum við mikið upp úr forvörnum og öryggi með því að leiðbeina erlendum ökumönnum eftir föngum. Þeim er m.a. bent á að skrásetja ferðir sínar á Safetravel.is. Þess má geta að Landsbjörg hefur lýst yfir ánægju með forvarnartarf og öryggisupplýsingar bílaleigufyrirtækjanna,“ segir Þorsteinn Þorgeirsson hjá Avis, formaður bílaleigunefndar SAF.

„Viðskiptavinir kunna mjög vel að meta að fá sem mestar upplýsingar um vegakerfið og umferðarmenninguna áður en þeir leggja af stað. Það er engin spurning að sú vinna stuðlar að bættu öryggi allra í umferðinni,“ segir Sigurður Gunnarsson hjá bílaleigunni Route 1.

Nýju stýrisspjöldin eru unnin í samstarfi SAF, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu, Sjóvár, Landsbjargar, lögreglunnar og innanríkisráðuneytisins. Samhliða stýrisspjaldinu verða gefnir út litlir bæklingar á sex öðrum tungumálum.

Ljósmynd: Zack Fry frá Ohio í Bandaríkjunum skoðar nýja stýrisspjaldið áður en hann leggur í langferðina.