Bjarnheiður Hallsdóttir nýr formaður SAF

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI ehf., var í dag kjörin formaður Samtaka ferðaþjónustunnar til næstu tveggja ára á fjölmennum aðalfundi sem fram fór í Súlnasal á Radisson Blu Hótel Sögu. Tekur Bjarnheiður við formennsku í samtökunum af Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, sem verið hefur formaður SAF frá árinu 2014.

Þrír frambjóðendur voru í kjöri til formanns, en auk Bjarnheiðar gáfu Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis og Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line Iceland kost á sér.

Niðurstöður í kjöri til formanns:

 • Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu DMI ehf., hlaut 32.062 atkvæði eða 44,72%
 • Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line Iceland, hlaut 31.990 atkvæði eða 44,62%
 • Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, hlaut 7.635 atkvæði eða 10,65%

Á aðalfundinum var jafnframt kosið í fjögur stjórnarsæti, 3 til tveggja ára og 1 til eins árs. Alls gáfu átta einstaklingar kost á sér í stjórnarkjörinu.

Niðurstöður í kjöri til stjórnar:

 • Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða
  • Hlaut 57.170 atkvæði eða 79,8%
  • Kjörin til tveggja ára.
 • Ívar Ingimarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Óseyri
  • Hlaut 52.211 atkvæði eða 72,9%
  • Kjörinn til tveggja ára.
 • Ólöf R. Einarsdóttir, eigandi Mountaineers of Iceland
  • Hlaut 46.235 atkvæði eða 64,5%
  • Kjörin til tveggja ára.
 • Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar
  • Hlaut 39.410 atkvæði eða 55%.
  • Kjörinn til eins árs.

Aðrir frambjóðendur hluti færri atkvæði.

Fyrir í stjórn SAF sitja Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótels Sögu og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Icelandair Group, en þau voru kjörin til tveggja ára á aðalfundi samtakanna árið 2017.