Brýnt að eiga gott samtal og samráð við ferðaþjónustuna

Húsfyllir var á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar með forystumönnum stjórnmálaflokkanna sem fram fór í Kaldalóni í Hörpu í morgun.

Á fundinum flutti Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, ávarp áður en haldið var í pallborðsumræður sem Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri samtakanna og Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi stýrðu.

Þeir frambjóðendur sem tóku þátt í pallborðsumræðum voru Helgi Hrafn Gunnarsson, forystumaður Pírata, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Jóhanna Vigdís Guðmundsdótti, Samfylkingu, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki.

Samtal og samráð við ferðaþjónustuna

Á fundinum kom skýrt fram að stjórnmálaflokkarnir átta sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar í íslensku samfélagi. Nefndu allir fulltrúar flokkanna að brýnt væri að eiga gott samtal og samráð við ferðaþjónustuna um uppbyggingu á greininni. Að besta leiðin að því að byggja upp ferðaþjónustulandið Ísland sem gott er að búa í sé að taka höndum saman þegar kemur að stórum ákvörðum er varða ferðaþjónustuna. Þá var bent á að stjórnvöld verða að marka sér skýra framtíðarsýn þegar kemur þeirri mikilvægu atvinnugrein sem ferðaþjónustan er.

Efla þarf samgönguinnviði

Nauðsyn þess að ráðast í stórfellda uppbyggingu á samgöngukerfi landsins var til umræðu á fundinum. Voru frambjóðendur allir á einu máli að nauðsynlegt væri að setja aukna fjármuni í að efla innviði þegar kemur að vegakerfinu. Vegakerfið lægi hreinlega undir skemmdum á mörgum stöðum og úr því yrði að bæta.

Skoska leiðin spennandi kostur

Spurt var út í svokallaða Skoska leið þegar kemur að eflingu innanlandsflugs hér á landi, en leiðin gengur út á að niðurgreiða flug til handa þeim sem búa og starfa á landsbyggðinni. Komið hefur fram að kostnaður við slíka leið sé áætlaður á milli 6-700 milljónum á ári. Var mikill samhljómur hjá frambjóðendum flokkanna um að þessi leið væri spennandi kostur sem þyrfti að skoða vel.

Flestir lögðust gegn hækkun á virðisaukaskatti

Umræða um virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna var fyrirferðarmikil á fundinum, enda voru á vormánuðum uppi áform um að stórhækka álögur á greinina í formi virðisaukaskatts. Með róttækum skattahækkunum sem þessum er verið að vega að ferðaþjónustunni á landsbyggðinni, draga úr samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og hefta dreifingu ferðamanna um land allt.

Þegar frambjóðendur voru spurðir út í hvort þeir hyggist leggja fram eða styðja tillögur um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna á komandi kjörtímabili voru flestir á einu máli – það kæmi ekki til greina.

400 manns tóku þátt í fundinum

Fundurinn var sendur út í beinni útsendingu í gegnum vefsíðu Samtaka ferðaþjónustunnar og fylgdust um 200 manns með fundinum til viðbótar við þá 200 manns sem mættu á fundinn.

Hægt er að horfa á fundinn hér:

Rétt er að geta þess að fundurinn verður sýndur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut laugardaginn 21. október kl. 17.00 og endursýndur sunnudaginn 22. október.

Myndir frá fundinum