Endurspegla fjárlög trú á ferðaþjónustu?

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar hefur sent frá sér ályktun vegna fjárlaga sem nú hafa verið lögð fram á alþingi.

Endurspegla fjárlög trú á ferðaþjónustu?

Ferðaþjónustan aflar nú þegar gríðarlega tekna
Samtök ferðaþjónustunnar hafa lengi bent á mikilvægi ferðaþjónustunnar – hvernig greinin hefur vaxið mikið á undanförnum árum með jákvæðum áhrifum um land allt. Þessi jákvæðu áhrif þarf að tryggja til framtíðar. Nýlega kynnti Deloitte greiningu sína á beinum tekjum hins opinbera sem unnin var fyrir Stjórnstöð ferðamála. Voru nettó beinar skatttekjur af ferðaþjónustunni árið 2015 um 39 milljarðar króna en þá er búið að draga frá beinan kostnað ríkis og sveitarfélaga sem hlotist hafði af greininni. Óbeinar og afleiddar tekjur voru þar ekki taldar með en hagfræðingar hafa áætlað að þær nemi um 1,5 – 2 sinnum þess sem beinu tekjurnar skila. Ljóst er að tekjur af ferðaþjónustunni á árinu 2016 jukust enn frekar.

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2018 var kynnt í vikunni. Fjárlögin eru áætlun um tekjur og gjöld ríkissjóðs og endurspegla væntingar og trú á framtíðina. Ferðaþjónustan hefur á síðustu árum vaxið upp í að vera ein af undirstöðu atvinnugreinunum hér á landi sem skapar gríðarlegar tekjur og störf um allt land. Fjárlögin gera ráð fyrir myndarlegum tekjuafgangi upp á 44 milljarða kr. á næsta ári og má gera ráð fyrir að vaxandi umsvif í ferðaþjónustu leiki þar stórt hlutverk.

Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið kemur skýrt fram að stjórnvöld hafa mikla trú á ferðaþjónustunni – þegar kemur að tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Þegar, hins vegar, horft er til uppbyggingar innviða gagnvart ferðaþjónustunni í fjárlögunum er ekki hægt að draga þær ályktanir að stjórnvöld hafi raunverulega trú á greininni.

Getum ekki gengið að verðmætunum vísum
Á undanförnum árum hefur það verið ferðaþjónustan sem staðið hefur að baki þeirri hagsæld sem hér hefur ríkt og þannig bætt lífskjör. Nú eru blikur á lofti og mikilvægt að hafa í huga að það er ekki sjálfgefið að erlendir ferðamenn leggi leið sína til Íslands og skapi verðmæti í því samkeppnisumhverfi sem ferðaþjónusta hér á landi býr við.

– Viðbótar álögur á ferðaþjónustu á árinu 2018 tæpir 5 milljarðar! –


Álögur á bílaleigur aukast mikið

Í frumvarpi til fjárlaga er lagt til að auknar álögur verði lagðar á bílaleigufyrirtæki með hækkun vörugjalda. Gera má ráð fyrir að bílaleigufyrirtækin, ein og sér, skili tæpum 4 milljörðum króna til ríkisins í formi vörugjalda frá og með 1. janúar 2018 sem er aukning um tæpa 3 milljarða króna, þegar bílaleigubílar fara í efsta flokk vörugjalda.

SAF lýsa furðu sinni á samráðsleysi og aðgerðarleysi stjórnvalda í skoðun á heildarskattbyrði bílaleiga þrátt fyrir skýr fyrirmæli svo um í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar og ítrekaðar fyrirspurnir. Þá munu ætlaðar breytingar hafa neikvæð áhrif þvert á sameiginlega stefnu stjórnvalda og ferðaþjónustunnar um aukin gæði, öryggi og dreifingu ferðamanna um landið. Bílaleigubílaflotinn mun eldast og gæði hans versna.

Gistináttagjaldið margfaldast
Í frumvarpinu er áætlað að viðbótartekjur af gistináttagjaldi af hótelgistingu verði um 1 milljarður króna. Heildartekjur ríkisins eru þar áætlaðar tæpur 1,5 miljarður. Á sama tíma og gjaldið hefur verið hækkað úr 100 kr. pr. einingu í 300 kr. pr. einingu versnar enn samkeppnishæfni hótela gagnvart ólöglegri íbúðargistingu sem hefur vaxið ásmegin sem hvorki skilar sköttum né öðrum gjöldum til ríkissjóðs. SAF áætla að ríkið verði af um 2 milljörðum króna árlega þar sem ekki hefur tekist að tryggja skattskil þeirra sem starfa í því sem kallað hefur verið skuggahagkerfi. Þetta er ólíðandi með öllu.

Rétt er að geta þess að samkvæmt fjárlögum verður Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og önnur innviðauppbygging að fullu fjármögnuð með gistináttagjaldinu. Ríkið kemur þar hvergi að.

Hækkaðir eldsneytisskattar draga úr ferðum um landið
SAF vilja benda á að hætta er á því að stórhækkun á eldsneytissköttum, m.a. hækkun á bensíngjaldi um 9 kr. og á olíugjaldi um 21 kr. á hvern lítra með VSK mun leggjast af fullum þunga á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Áætlaður tekjuauki ríkisins vegna þessa að upphæð 4,6 milljarðar króna verður að hluta til sóttur í þessi fyrirtæki. Þessar auknu álögur munu því sannarlega hafa áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu og takmarka dreifingu ferðamanna um landið.

Sértekjur ríkisins af bílastæðagjöldum sífellt stærri tekjuliður þjóðgarðanna
Ætla má að auknar tekjur ríkissjóðs af bílastæðagjöldum í þjóðgörðunum verði um 150 milljónir króna á árinu 2018. Þá eru ekki teknar með í reikninginn aðrar sértekjur þjóðgarða af köfun, hellaskoðun og salernum sem munu skipta tugum milljónum króna. Fyrir utan mikilvægi þess að gjaldtökufyrirkomulagið sé gagnsætt, skilvirkt og tryggi álagsstýringu er afar mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að þessar tekjur skili sér til uppbyggingar á viðkomandi svæðum og þannig tryggja sjálfbærni þeirra til langrar framtíðar. Það er því bagalegt að sjá að í fjárlögum er lagt til lækkun á fjármagni til Vatnajökulsþjóðgarðs.

Frekari álögur í pípunum
Þrátt fyrir fyrirhugaða hækkun á VSK á ferðaþjónustu að upphæð 18 milljarða króna árlega frá árinu 2019, og eiginlegar auknar álögur á ferðaþjónustuna að upphæð tæpir 5 milljarðar króna frá og með næsta ári eru stjórnvöld einnig með á prjónunum ýmiskonar gjaldtöku á greinina líkt og aðstöðugjöld eins og enn frekari bílastæðagjöld og hafnargjöld ásamt því að þjóðgarðarnir horfa til sérstakra leyfisgjalda. Hvenær er nóg nóg?

SAF hafa kallað eftir því að skipulagi verði komið á frekari gjaldtöku hér á landi. Gjaldtaka fyrir vel skilgreinda virðisaukandi þjónustu getur stutt vel við álagsstýringu og dreifingu ferðamanna, gæði og þjónustu á hverjum ferðamannastað.

– VSK nú þegar að skila auknum tekjum –


Heildartekjur ríkisins af VSK aukast um 21 milljarð á árinu 2018
Þá er rétt að benda á að í fjárlögum fyrir árið 2018 kemur fram að heildartekjur ríkissjóðs af VSK aukast um 21 milljarð króna. Varlega má áætla að hlutur ferðaþjónustunnar í aukningunni, vegna neyslu erlendra ferðamanna hér á landi, sé um 1,5 milljarðar króna.

Hækkun á VSK á ferðaþjónustuna uppá 118% seinkað um sex mánuði
Fjármálaráðherra talar um jafnræði milli atvinnugreina sem helstu röksemdir fyrir ákvörðun sinni um ætlaða hækkun á VSK á ferðaþjónustugreinar. Hér er um rökleysu að ræða. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru í harðri samkeppni við erlend fyrirtæki um allan heim sem búa að jafnaði við lægri VSK þrep. Stjórnvöld verða fyrst og fremst að tryggja samsvarandi rekstrarskilyrði og gerist á samkeppnismörkuðum. Þetta hafa stjórnvöld nú þegar tryggt gagnvart öðrum útflutningsatvinnugreinum á Íslandi en þær skila VSK í þeim löndum sem salan á sér stað og sitja þannig við sama borð og samkeppnisaðilarnir. SAF gera skýlausa kröfu til stjórnvalda um að þessi ákvörðun verði endurskoðuð í þessu ljósi.

– Innviðir sitja enn eftir –

Litlu varið í vegakerfið
Samkvæmt fjárlögum er einungis 0,5% af vergri landsframleiðslu lagðar í framkvæmdir á vegakerfinu, sem nálgast sögulegt lágmark. Er áætlað að fjármagn til málaflokksins lækki á milli ára um rúmar 100 miljónir. Brýnt er að stórauka fjármuni til að viðhalda og endurnýja vegakerfið sem er á mörgum stöðum að grotna niður. Gott, greiðfært og hagkvæmt samgöngukerfi kemur öllum til góða. Fyrir ferðaþjónustuna er vegakerfið lífæð greinarinnar og grundvöllur þess að dreifa ferðamönnum um landið

Vonbrigði með óbreytt tryggingargjald
Í frumvarpi til fjárlaga er ekki lagt til að tryggingargjald á fyrirtæki lækki. Fyrir mannaflsfreka atvinnugrein eins og ferðaþjónustu þar sem launahækkanir hafa verið miklar undanfarin ár hefur hátt tryggingargjald verið mjög íþyngjandi. Atvinnuleysi í landinu er nú í sögulegu lágmarki eru því tækifæri til að koma til móts við fyrirtæki í ferðaþjónustu með lækkun á gjaldinu. Samtökin skora á stjórnvöld að hefja lækkun á gjaldinu hið fyrsta.

Stuðningur í stað skattpíningar
Því miður hefur umræða um ferðaþjónustu oft og tíðum verið á villigötum og mun meiri áhersla, á vettvangi stjórnmálanna, lögð á að leggja álögur á viðkvæma atvinnugrein í vaxtarfasa í stað þess að byggja hana upp til langrar framtíðar með sjálfbærni og samkeppnishæfni í huga. Þessar áherslur raungerast í fjárlögum fyrir árið 2018.

Skv. þeim er áætlað að verja samtals tæpum 2,3 milljörðum króna beint í málaflokkinn ferðaþjónustu á árinu 2018. Í sömu fjárlögum er áætlað að viðbótar álögur á greinina í formi skatta og gjalda nemi tæpum 5 milljörðum króna. Þá eru enn frekari skattahækkanir fyrirhugaðar á árinu 2019.

Stjórnvöldum ber að tryggja samkeppnishæft atvinnulíf sem skilar sér í hagsæld fyrir Íslendinga alla. Fjárlög hvers árs eiga að endurspegla það.


14. september 2017,

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar