Farþegaspá Isavia fyrir árið 2017 – vöxturinn fyrst og fremst yfir vetrarmánuði

Á dögunum kynnti Isavia farþegaspá Keflavíkurflugvallar fyrir árið 2017. Spáin sýnir að áframhald verður á miklum og jákvæðum vexti í farþegafjölda og er gert ráð fyrir að 8,75 milljónir farþega fari um flugvöllinn á næsta ári. Vöxturinn á bæði við um farþega til og frá landinu sem og skiptifarþega sem einungis millilenda hér á leið sinni yfir Atlantshafið. Ánægjulegustu teiknin sem sjást í spánni eru þau að það átak sem ferðaþjónustan í heild hefur farið í við að fjölga ferðamönnum yfir vetrartímann hefur skilað miklum árangri.

Betri nýting innviða
keflavikurflugvollurÞar hefur Isavia lagt sitt af mörkum með hvatakerfi sem veitir flugfélögum sem hefja nýjar heilsársflugleiðir afslátt af lendingargjöldum. Með þessari dreifingu yfir árið fæst mun betri nýting á innviðum og á það jafnt við um Keflavíkurflugvöll og alla aðra innviði, hvort sem um vegi, gistirými eða hverja aðra þjónustu er að ræða. Þetta er því lykilatriði í að gera ferðaþjónustuna að heilsársatvinnugrein.

Sem dæmi um þessa minnkun árstíðarsveiflunnar gerir spáin ráð fyrir því að brottfararfarþegum fjölgi um tæplega 70 þúsund milli ára í janúar 2017 miðað við 2016, en fjölgunin verði rúmlega 30 þúsund farþegar í hverjum stærstu sumarmánaðanna. Á fundinum var farið yfir þróunina frá árinu 2010, en á því ári komu 50% erlendra ferðamanna yfir hásumarið og 23% yfir vetrartímann. Árið 2017 verður þetta hlutfall vetrinum í vil, en þá er gert ráð fyrir að 35% erlendra ferðamanna komi yfir vetrarmánuðina og 33% yfir hásumarið.

Skiptifarþegum mun fjölga
Samkvæmt farþegaspá Isavia mun farþegahreyfingum ársins 2017 fjölga um 28,3% á milli ára og verða eins og áður segir 8,75 milljónir. Allt stefnir í að árið 2016 muni enda í 6,8 milljónum farþega sem er 40,3% fjölgun frá fyrra ári.

Skipting farþega hefur undanfarin ár skipst nokkuð jafnt í þrjá hluta, komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega, sem einungis millilenda á flugvellinum. Breyting verður á því nú en árið 2017 verða skiptifarþegar í fyrsta sinn fleiri en komu- eða brottfararfarþegar. Skiptifarþegar verða um 3,1 milljón, komufarþegar um 2,8 milljónir og brottfararfarþegar einnig.

Vöxtur utan háannar er lykill að velgengi
morgunfu-ndur_isavia_web-9Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, flutti stutta tölu á fundinum og sagði m.a. að vöxtur utan háannar væri lykill að velgengni í ferðaþjónustunni. „Það er einkar ánægjulegt en þannig eykst framleiðni og nýting fjárfestingar í ferðaþjónustu,“ sagði Helga. „Heilsárs starfsemi flugfélaga gegnir lykilhlutverki í uppbyggingunni og hefur Isavia unnið þrekvirki í að fjölga þeim flugfélögum sem fljúga til Íslands allan ársins hring.“

Nánari upplýsingar:

  • Skýrslu Isavia um farþegaspá 2017 (PDF) má finna HÉR
  • Upptöku frá fundinum og nánari upplýsingar má finna HÉR