Ferðamenn hvattir til að ferðast um Ísland á ábyrgan hátt

Sumarherferð markaðsverkefnisins Inspired by Iceland er hafin þar sem aðaláherslan er að hvetja ferðamenn til að ferðast um landið með ábyrgum hætti. Það er gert með því að samþykkja loforð sem kallast „The Icelandic Pledge“ á vef Inspired by Iceland. Loforðið nær til átta atriða sem stuðla að ábyrgri ferðahegðun, svo sem að virða náttúruna og skilja við hana eins og komið var að henni, að keyra ekki utan vega, að koma sér ekki í hættulegar aðstæður við að taka myndir, að tjalda á viðeigandi tjaldsvæðum sem og að vera vel útbúinn á ferðalagi um Ísland í öllum veðrum. Ísland er fyrsta landið sem býður gestum sínum að lofa því að ferðast um landið á ábyrgan og öruggan hátt og að ganga vel um náttúru landsins.

Ánægðir ferðamenn hafa jákvæð áhrif á orðspor og ímynd landsins til lengri tíma. Það er mikilvægt að stuðla að því að ferðaþjónustan dafni í sátt við samfélag og náttúru.

Ferðamenn geta samþykkt loforðið á www.inspiredbyiceland.com/icelandicpledge og fá rafræna viðurkenningu að launum sem hægt er að deila áfram á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #IcelandicPledge og með því hvatt aðra til þess að gera slíkt hið sama.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru einnig hvött til þess að miðla þessum skilaboðum til sinna viðskiptavina og er hægt að sjá nánari upplýsingar með því að smella HÉR.