Ferðaþjónustan kallar á heildstæða nálgun í gjaldtökumálum

Ályktun frá stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar, fimmtudaginn 14. desember:

Ferðaþjónustan kallar á heildstæða nálgun í gjaldtökumálum

  • Samtök ferðaþjónustunnar kalla eftir að sett verði á laggirnar nefnd um tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga af ferðaþjónustu í samstarfi við atvinnugreinina sem hefur það að markmiði að tryggja heildstæða nálgun hvað varðar gjaldtöku almennt af greininni.
  • SAF gagnrýna ætlaða gjaldtöku Isavia ohf. fyrir aðstöðu hópbifreiða á fjarstæðum við flugstöð Leifs Eiríkssonar og skora á Isavia ohf. að endurskoða áform sín.

Gjaldtaka af ferðaþjónustunni hefur verið fyrirferðarmikil í umræðunni síðustu misseri. Öllum er í fersku minni þegar fyrri ríkisstjórn kynnti án fyrirvara fordæmalausa 118% hækkun virðisaukaskatts á greinina án nokkurs samráðs eða faglegra greininga. Ný ríkisstjórn hefur fallið frá þeirri fyrirætlan enda ljóst að slík hækkun hefði haft grafalvarlegar afleiðingar fyrir atvinnugreinina sem er í harðri alþjóðlegri samkeppni.

Ferðaþjónustan hefur jákvæð áhrif

Engum dylst að ferðaþjónustan hefur verið lykildrifkraftur í íslensku efnahagslífi á umliðnum árum. Greinin hefur skapað gríðarlegar tekjur fyrir ríki og sveitarfélög og á ríkan þátt í þeirri velsæld sem ríkir á Íslandi í dag. SAF áætla að á síðasta ári hafi beinar nettó tekjur ríkis og sveitarfélaga numið um 54 milljörðum króna af ferðaþjónustunni. Þá hefur verið áætlað að um 50% þess hagvaxtar sem við höfum notið frá árinu 2010 sé tilkominn vegna ferðaþjónustunnar með beinum eða óbeinum hætti.

Það er staðreynd að vægi ferðaþjónustunnar í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins er gríðarlegt og munar um minna fyrir eyland sem á mikið undir viðskiptum við útlönd. Til viðbótar er atvinnuleysi í algjöru lágmarki hér á landi og það um allt land ásamt því að ferðaþjónustan hefur stuðlað að jákvæðri byggðaþróun um land allt.

Álögur aukast og nýjar hugmyndir um gjaldtöku

Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur kröftum helst verið beint í þá átt að finna leiðir til að ná í enn aukna fjármuni með frekari skattheimtu á greinina. Þannig hækkaði gistináttagjald á hótel og gistiheimili á árinu um 200% og gangi áætlanir stjórnvalda eftir munu álögur á bílaleigur hækka um áramótin þegar vörugjöld á þeirra atvinnutæki hækka um 2,5 milljarða.

Nú þegar hefur Þingvallaþjóðgarður stóran hluta tekna sinna af þjónustugjöldum á ferðaþjónustufyrirtæki. Vatnajökulsþjóðgarður hefur þegar tekið fyrstu skrefin og önnur svæði í eigu ríkisins horfa til þess að fylgja í kjölfarið.

Enn frekari hugmyndir eru í nýjum stjórnarsáttmála, m.a. að auka enn skattheimtu í gegnum gistináttagjaldið, í gegnum komu- og brottfarargjöld sem og hvers konar þjónustugjöld. Ferðaþjónustan kallar eftir að samræmis sé gætt hvað gjaldtöku varðar, þannig að fyrirkomulag og aðlögun haldist í hendur. Þarna eiga stjórnvöld að ganga fram með góðu fordæmi.

Hafa ber í huga að ekki er línulegt samband á milli fjölgunar ferðamanna og afkomu greinarinnar. Blikur eru á lofti. Samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar við aðra áfangastaði hefur versnað á árinu, m.a. vegna mikilla launahækkana, fjármagnskostnaðar og styrkingar á gengi krónunnar.

Fordæmalaus gjaldtaka Isavia ohf.

Nýjasta gjaldtökuhugmyndin kom fram á dögunum þegar Isavia ohf. kynnti innheimtu bílastæðagjalda fyrir hópferðabíla við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Gjaldtakan, sem á að hefjast 1. mars 2018, er án fordæma og án alls samtals við stærsta viðskiptavin Isavia ohf. – ferðaþjónustuna. Upphæðirnar sem nefndar eru til sögunnar og aðferðafræðin er ekki í neinu samræmi við það sem gerist og gengur á flugvöllum í Evrópu eða á öðrum svæðum. Gangi áætlanir Isavia ohf. eftir mun gjaldið fyrir að stoppa í stæði 300 m. frá flugstöðunni til að taka á móti ferðamönnum vera 7.900 kr. fyrir hópbifreiðar með 19 eða færri sæti en 19.900 kr. fyrir bifreiðar með fleiri en 20 sæti. Í London er sambærilegt gjald um 3.900 kr. á Heathrow og 2.400 kr. á Gatwick. Í þessu samhengi er rétt að nefna að eitt af gildum Isavia ohf., sem er fyrirtæki í opinberri eigu og í markaðsráðandi stöðu, er samvinna.

Stjórn SAF og fjölmennur félagsfundur sem samtökin stóðu fyrir á dögunum gagnrýna ætlaða gjaldtöku og skora á Isavia ohf. að endurskoða áform sín í góðu samkomulagi við ferðaþjónustuna.

Tryggja þarf stöðugt rekstrarumhverfi

Þegar kemur að stórum ákvörðunum sem snerta ferðaþjónustuna, hvort heldur sem er í formi laga- eða reglugerðabreytinga, breytinga á skattkerfinu eða annarri gjaldtöku, loðir því miður við að slík áform eru kynnt einhliða og með allt of skömmum fyrirvara og án heildstæðrar hugsunar gagnvart atvinnugreininni. Ferðaþjónustan er þannig atvinnugrein að unnið er langt fram í tímann og því þarf að kynna allar slíkar breytingar með löngum fyrirvara. Ferðaþjónustan þarf að búa við stöðugt rekstarumhverfi þannig að samkeppnishæfni hennar skerðist ekki, enda á Ísland í harðri samkeppni við aðra áfangastaði um hylli ferðamanna.

Samvinna er vænlegust til árangurs

SAF eru ekki mótfallin gjaldtöku eins og bílastæðagjöldum, en gjaldtakan þarf hins vegar að hafa skýran tilgang. Gjaldtaka fyrir vel skilgreinda virðisaukandi þjónustu getur stutt við álagsstýringu og dreifingu ferðamanna ásamt því að bæta gæði og þjónustu á hverjum ferðamannastað.

Í glænýjum stjórnarsáttmála kemur skýrt fram að samtal og samstarf sé leiðarstefið í nálgun nýrrar ríkisstjórnar, m.a. þegar kemur að langtímastefnumörkun og gjaldtökumálum í ferðaþjónustunni. SAF telja að leið samvinnu sé vænlegust til árangurs og að samræming og sanngirni eigi að vera grunnurinn í þeirri vinnu.

Nefnd um tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga af ferðaþjónustu sett á laggirnar

SAF kalla því eftir að sett verði á laggirnar hið fyrsta formleg nefnd um tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga af ferðaþjónustu með þátttöku hagsmunaaðila og stjórnvalda. Með henni ætti markmiðið að vera að taka heildstæðar og stefnumarkandi ákvarðanir um gjaldtöku. Tryggja þarf í auknum mæli umræðu og ákvarðanir tengdar uppbyggingu, skýru regluverki, skilvirkni greinarinnar og stöðugu rekstrarumhverfi.

 

14. desember 2017

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar