Friðheimar eru handhafi nýsköpunarverðlauna SAF 2017

Frá afhendingu nýsköpunarverðlauna SAF 2017. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og hjónin Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir eigendur Friðheima í Bláskógabyggð.

Friðheimar í Bláskógabyggð eru handhafi nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2017. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Friðheimum verðlaunin við fjölmenna og hátíðlega athöfn á Grand Hótel Reykjavík fimmtudaginn 16. nóvember.

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í fjórtánda sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samstakanna en þetta árið bárust 25 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og formaður dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar. Dómnefndina skipuðu auk Gríms þau Marín Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri viðburðadeildar CP Reykjavík og fulltrúi fyrirtækja innan SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Nýsköpun sem byggir á fagmennsku og þekkingu

Mikilvægi ferðaþjónustu í íslensku þjóðlífi sé öllum ljóst. Vöxtur í greininni hefur verið fordæmalaus á undanförnum árum og við þær kringumstæður er áríðandi að fyrirtæki í ferðaþjónustu vandi vel til verka og hafi getu til þess að vinna á fagmannlegan hátt með auðlindir íslenskrar náttúru og menningar.

Tilnefningar til nýsköpunarverðlaunanna í ár endurspegla mikla grósku og nýsköpun bæði í afþreyingu sem og í ýmsum nettengdum þróunarverkefnum. Dómnefnd var þó einhuga í vali á því fyrirtæki sem í ár hlýtur nýsköpunarverðlaun SAF – Friðheimar í Bláskógabyggð.

Í umsögn dómnefndar segir að Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann eigendur Friðheima séu miklir frumkvöðlar á sínu sviði en þau hafa tvinnað saman tómataræktun, ferðaþjónustu og hestamennsku og taka árlega við vel á annað hundrað þúsund ferðamönnum.

Þá segir ennfremur í umsögn dómnefndar:

„Helena og Knútur voru fyrst til að flétta saman ferðaþjónustu og garðyrkju með áherslu á fræðslu um matvælaframleiðslu á Íslandi sem byggir á hreinni náttúru og orkugjöfum ásamt því að bjóða upp á veitingar beint frá býli. Gestir fá að skyggnast inn í líf og störf heimamanna og eru í raun að heimsækja fjölskyldu og fyrirtæki þeirra. Leitast er við að veita hverjum og einum gesti hlýjar móttökur, fræðslu og einstaka matarupplifun. Friðheimar eru skapandi í fræðslu og upplifun þar er til dæmis boðið upp á stuttar hestasýningar á fjölmörgum tungumálum og áhersla lögð á sögu og sambúð manns og hests frá landnámi. Allt sem til fellur í tómataframleiðslunni er nýtt í veitingahúsinu og í afurðir sem eru seldar sem matarminjagripir og hafa slegið í gegn um allan heim. Erlendir fjölmiðlar hafa veitt Friðheimum mikla athygli og fjölmargir þeirra hafa komið í heimsókn og m.a. tekið upp matreiðsluþætti þar.“

 

„Starfsemi Friðheima er lýsandi dæmi um það hvernig ferðaþjónusta er í sívaxandi mæli að skapa ný tækifæri fyrir hefðbundnar atvinnugreinar um land allt og að greinin er besta tæki til jákvæðrar byggðaþróunar, sem fram hefur komið í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Nýsköpun af þessu tagi byggir á fagmennsku og þekkingu á landbúnaði og garðyrkju sem er síðan grundvöllur að vöruþróun í ferðaþjónustu þar sem fræðsla og upplifun eru í fyrirrúmi. Þau Knútur og Helena eru því verðskuldaðir handhafar nýsköpunarverðlauna SAF árið 2017.“

Umsögn dómnefndar er meðfylgjandi, en hana má einnig lesa í heild sinni HÉR.

Verðlaunin afhent í fjórtánda sinn

Er þetta í 14. skipti sem nýsköpunarverðlaun SAF voru afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:

 • 2017 – Friðheimar í Bláskógabyggð
 • 2016 – Óbyggðasetur Íslands
 • 2015 – Into The Glacier
 • 2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
 • 2013 – Saga Travel
 • 2012 – Pink Iceland
 • 2011 – KEX hostel
 • 2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
 • 2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
 • 2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
 • 2007 – Norðursigling – Húsavík
 • 2006 – Landnámssetur Íslands
 • 2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
 • 2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan