Griðasvæði hvala í Faxaflóa stækkað

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í dag nýja reglugerð sem gerir það að verkum að griðasvæði hvala í Faxaflóa verður stækkað. Er það í samræmi við óskir ferðaþjónustunnar, enda hefur atvinnufrelsi hvalaskoðunarfyrirtækja á Faxaflóa verið skert þar sem veiðar á hrefnu eru stundaðar á nánast sama svæði og hvalirnir eru skoðaðir.

Hvalaskoðun er orðin ein mikilvægasta afþreyingin í ferðaþjónustu, ekki bara í Reykjavík heldur um land allt. Í sumar störfuðu um 300 starfsmenn hjá 20 fyrirtækjum við hvalaskoðun og á síðasta ári fóru 353 þúsund ferðamenn í hvalaskoðun við Íslandsstrendur, þar af um helmingur í Reykjavík. Á þeim 16 árum sem hvalaskoðun hefur verið stunduð frá Reykjavík er óhætt að segja að Gamla höfnin hafi tekið stakkaskiptum og svæðið orðið einn líflegasti og mest spennandi staður borgarinnar.

Það er rétt að hrósa fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir það sem vel er gert!