Hærri skattur á gistingu minnkar tekjur hins opinbera

Tekjur hins opinbera munu minnka ef skattur á skráða gistingu verður hækkaður, þetta kom fram í máli dr. Jeroen Oskam á hádegisfundi Samtaka ferðaþjónustunnar á Grand hótel í dag. Þessi þróun verður vegna fjölgunar óskráðra Airbnb gistirýma og möguleika þess iðnaðar að taka við fleiri gestum.

Einnig kom fram að fjöldi gistirýma á vegum Airbnb í Reykjavík tvöfaldaðist á milli áranna 2015 og 2016. Á sama tíma jukust tekjur af Airbnb gistingu um 130 prósent.

Í kynningu Dr. Oskam kom fram að meirihluti íbúða er í útleigu aðila sem eru með fleiri en eina íbúð í útleigu. Þannig feli útleiga á Airbnb gistirýmum í Reykjavík í sér umfangsmikla atvinnustarfsemi, ólíkt því sem gerist í öðrum evrópskum borgum. Áætlað er að tekjur af Airbnb gistingu hafi numið 47,5 milljónum evra hér á landi á síðasta ári eða um 5,7 milljörðum króna sé miðað við meðalgengi síðasta árs.

Samkvæmt greiningu Dr. Oskam lítur markaðshlutdeild Airbnb á gistimarkaði í Reykjavík því út fyrir að vera um 24% á árinu 2016, en skortur á gagnsæi varðandi Airbnb gerir það að verkum að erfitt er að fullyrða með vissu. Það er einmitt þessi skortur á gagnsæi sem gerir það að verkum að stjórnvöld eiga erfitt með að meta umfang starfseminnar og skattleggja hana. Aðeins brot af Airbnb íbúðum eru skráðar hjá íslenskum yfirvöldum, þrátt fyrir ný lög sem gerir skráningu þeirra auðveldari. Tvöföldun virðisaukaskatts mun enn frekar letja þá sem reka óskráðar Airbnb íbúðir að skrá þjónustuna sem löglega gistingu.

Meginþorri gististaða á vegum Airbnb er í miðbæ Reykjavík, eða um 40%. Þá skapar miðbærinn um 45% af tekjum Airbnb hér á landi og í flestum tilvikum er um atvinnustarfsemi að ræða þar sem meirihluti eigenda íbúðanna reka fleiri en eina íbúð. Þetta hlutfall er töluvert hærra í Reykjavík en í borgunum í kringum okkur. Algengara er að einstaklingar selji einstaka herbergi eða minni íbúðir í úthverfum Höfuðborgarsvæðisins eða á landsbyggðinni.

Lykilatriði að allir vinni á jafnréttisgrundvelli

„Það sem greining dr. Oskam dregur m.a. fram er að útleiga á Airbnb gistirýmum er orðin að umfangsmiklum iðnaði sem virðist að stórum hluta vera utan hins lögmæta hagkerfis. Það er sanngjörn krafa að allir rekstraraðilar sem bjóða upp á gistingu í gegnum Airbnb taki þátt í samfélaginu, skrái sig til leiks og greiði skatta og önnur gjöld eins og lög gera ráð fyrir,“ segir Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Gögn frá fundinum: