Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir Eigandi Midgard
Ég er fædd og uppalin í Fljótshlíðinni og flutti aftur heim árið 2013 þegar ég hóf störf hjá Midgard. Ég hef stórkostlega fjallasýn út um gluggann heima hjá mér og tel mig fá mikla orku frá jöklunum og fjöllunum sem umkringja mig. Að alast upp í svona mikilli nálægð við náttúruna hefur haft mótandi áhrif á mig. Í dag brenn ég fyrir umhverfinu og samfélaginu sem að ég bý í og nýt þess að sýna ferðamönnum okkar stórbrotnu náttúru. Ég er með BA í stjórnmálafræði og meistaragráðu í umhverfis og auðlindafræði, ásamt prófi í gönguleiðsögn frá MK og hin ýmsu námskeið sem fylgja leiðsögumanna starfinu. Þegar ég byrjaði hjá Midgard vorum við ferðaskipuleggjendur en svo bættist við ferðaskrifstofan, veitingastaðurinn, viðburðastaðurinn og gistiheimilið. Hafandi fylgt svona fyrirtæki frá upphafi hefur gefið mér víðtæka reynslu og þekkingu á ólíkum rekstri innan ferðaþjónustunnar; gistingu, veitingastað, ferðaskrifstofu og viðburðum. Í mínu starfi ber ég marga hatta, ég sé um daglegan rekstur ásamt Arnari Gauta Markússyni, Stefan Michel og Björgu Árnadóttur, er sjálfbærni sérfræðingur fyrirtækisins, skipuleggja viðburði, er ferðaskipuleggjandi, tek að mér gönguleiðsögn á sumrin, er mannauðsstjóri og fleira.
Hvaða reynslu af störfum í ferðaþjónustu eða SAF kemur þú með inn í stjórnina?
Ég tel að mín reynsla af störfum innan ferðaþjónustunnar muni nýtast vel en ég hef starfað sem þjónn, sem leiðsögumaður og hef víðtæka reynslu af rekstri veitingastaðar, gistiheimilis, ferðaskrifstofu og viðburðarstaðar. Einnig mun reynsla mín af rekstri lítils fyrirtækis á landsbyggðinni nýtast í starfi SAF. Það er mikilvægt að landsbyggðin hafi aðila í stjórn SAF. Ég tel mig geta lagt ýmislegt að mörkum varðandi nærandi ferðaþjónustu og brenn fyrir að ferðaþjónustan á Íslandi verði leiðandi í þeim málum á heimsvísu.
Hvað eru Samtök ferðaþjónustunnar fyrir þér? Hvernig metur þú stöðu þeirra í dag?
Samtök ferðaþjónustunnar sinnir mikilvægu hlutverki í að verja hagsmuni fyrirtækja í ferðaþjónustunni, ásamt fræðslu til fyrirtækja og hjálpar okkur að koma saman og vinna að sameiginlegu markmiði. Samtökin hafa sinnt mikilvægu hlutverki í að bæta gæði í ferðaþjónustunni og höfum við á Midgard notið góðs af hinni ýmsu fræðslu á vegum SAF.
Hvað leggur þú höfuðáherslu á í starfi samtakanna? Er eitthvað sem þér finnst mikilvægt að bæta eða breyta?
Mín hjartans mál eru, eins og fram hefur komið, umhverfismál og hvernig ferðaþjónustan getur haft leiðandi áhrif í sjálfbærri þróun. Hvernig við getum nýtt ferðaþjónustuna til að fræða um sögu, menningu þjóðarinnar og virðingu fyrir náttúrunni. Einnig hvernig ferðaþjónustan getur stutt við nærsamfélagið og haft jákvæð áhrif á byggðaþróun.