Hitamælirinn: Skattar í ferðaþjónustu – takmörkuð sýn

Erlendir ferðamenn greiða skatta

Það hefur verið vinsæl umræða á undanförnum árum hvernig hægt sé að skattleggja erlenda ferðamenn til að fjármagna nauðsynlega innviði, viðhald og endurbætur svo sómi sé af. Þessi umræða er ekki síst áhugaverð í ljósi þeirrar óvæntu búbótar sem ferðamannastraumur til landsins hefur haft í för með sér fyrir þjóðarbúið. Það gleymist oft að nú þegar eru erlendir ferðamenn að greiða skatta, beint og óbeint ásamt ýmsum þjónustugjöldum.

Þegar erlendur ferðamaður horfir yfir borgina í Hallgrímskirkjuturni, leigir bíl, kaupir farmiða, borgar fyrir gistingu, vín og veitingar, varning í verslunum og ýmiskonar afþreyingu greiðir hann sannarlega skatta og ýmis gjöld í verði vöru- og þjónustunnar sem renna til samneyslu hér á landi. Þessu til viðbótar greiða allir ferðalangar með flugi ýmis þjónustu- og öryggisgjöld sem renna til reksturs ISAVIA ohf. til að fjármagna þann kostnað sem leiðir af ferðamennsku þeirra innanlands og á milli landa. Skemmtiferðaskip sem koma hingað til lands með ferðamenn greiða einnig hafnargjöld svo eitthvað sé nefnt.

Fyrirtæki sem þjónusta erlenda ferðamenn greiða beina skatta
Það er eins og það vilji líka gleymast að launamenn og fyrirtæki í ferðaþjónustu greiða tekjuskatt og útsvar af launum og hagnaði lögaðila – rétt eins og starfsmenn og fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Í rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu eru jafnframt greidd ýmis gjöld sem hugsuð eru til að styðja við og bæta starfsskilyrði atvinnulífs í landinu. Þannig greiða fyrirtæki í ferðaþjónustu ýmis leyfisgjöld, bifreiðagjöld og bensíngjöld svo milljörðum skipta árlega.

Erlendir ferðamenn eru fengur fyrir fjárhirslur hins opinbera
Á fundi Samtaka atvinnulífsins nýverið kom fram að vægi ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi verið um 8% í fyrra og að varlega áætlað hafi skatttekjur hins opinbera af ferðaþjónustu numið um 50 milljörðum króna. Það er ljóst að vægi ferðaþjónustu í þjóðarbúskapnum verður töluvert hærra í ár.

Það er auðvitað erfitt, án betri gagna, að fullyrða um samhengi á milli efnahagsstærða, en ljóst er að skatttekjur af launum og hagnaði einstaklinga hefur sannarlega þróast í sama takti og fjöldi starfa í ferðaþjónustu á undanförnum árum eins og fram kemur á mynd 1.

Þá er áhugavert að benda á þá staðreynd að frá árinu 2010 hafa útgjöld Ríkisins vegna atvinnuleysisbóta lækkað (á föstu verðlagi) um tæplega 21 milljarð króna. Erlendir ferðamenn hafa þannig átt ríkan þátt í að draga verulega úr atvinnuleysi hér á landi.

hitamaelir_1Skatttekjur hins opinbera
Ef áætlanir ganga eftir verða skatttekjur hins opinbera á þessu ári af launum og hagnaði einstaklinga og lögaðila, af tryggingagjaldi og leyfisgjöldum, neyslu- og þjónustutekjum rúmir 555 milljarðar króna.

Ef hlutfall ferðaþjónustu í VLF, miðað við greiningu Arion banka fyrir þetta ár (10%), er notað til að áætla greiðslur greinarinnar til hins opinbera gætu þær numið um 56 milljarði kr. Þá er ekki allt talið til. Þar er mikilvægt að halda eftirfarandi til haga:

  • Áætlaðar tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum á ökutæki, skatti af eldsneyti og olíuvörum og bifreiðagjöldum eru um 26 milljarðar króna í ár. Þar skipta greiðslur vegna reksturs á bílaleigu- og hópferðabílum nokkru. Á síðasta ári voru bílaleigubílar eknir um 654 þúsund km. og skattar af eldsneyti þeirra voru yfir 5 milljarða króna. Í ár er ekki ósennilegt að skattar af eldsneyti bílaleigubíla verði nær 7 milljörðum króna.
  • Þá má áætla að tekjur ISAVIA ohf. af þjónustugjöldum vegna farmiðasölu í millilandaflugi um Keflavíkurflugvöll [1] verði um 6,5 milljarðar króna á þessu ári.
  • Ef 1,7 milljón erlendra ferðamanna koma til landsins í ár má gera ráð fyrir að þeir greiði um 5 milljarða í þjónustugjöld í flugmiðanum þegar þeir fara um Keflavíkurflugvöll – þannig að erlendir ferðamenn bera sannanlega hitann og þungann af þeirri þjónustustarfsemi sem þar fer fram og Íslendingar njóta góðs af um leið og þeir ferðast til annarra landa.
  • Tekjur Faxaflóahafna vegna skemmtiferðaskipa nálgast 400 milljónir kr. í ár. Þá eru ekki teknar með tekjur annarra hafna út um allt land.
  • Í þessum hugleiðingum má ekki gleyma að nettótekjur ríkisins af virðisaukaskattsskyldri veltu stefna í að verða um 200 milljarðar kr. í ár. Ekki má gleyma hlut ferðaþjónustunnar í þessari tölu, en greinin er eina útflutningsatvinnugreinin sem skilar VSK til Ríkisins.
  • Þá má ekki gleyma gistigjaldinu fræga sem ferðamenn greiða, en ætla má að það skili um 400 milljónum kr. á þessu ári.
  • Ósundurgreindar tekjur af fasteignaskatti til sveitarfélaganna eru áætlaðar um 36 milljarðar kr. í ár. Í þessum skattstofni bera sveitarfélögin sitthvað úr býtum vegna neyslu erlendra ferðamanna hér á landi og vegna fjárfestinga í fyrirtækja í ferðaþjónustu hér á landi.

Samkvæmt ofangreindu er ekki ósennilegt að skatttekjur hins opinbera verði amk. 70-80 milljarðar króna í ár.

Vegvísir í Ferðaþjónustu
Ferðaþjónusta sem atvinnugrein hefur í langan tíma verið að gera sig gildandi hér á landi en á undanförnum árum hefur hún vaxið hratt og vegur nú viðlíka og fiskveiðar og vinnsla í þjóðarbúskapnum. Ferðaþjónusta hefur verið driffjöður hagvaxtar – skapað störfin, dregið úr atvinnuleysi og þar með útgjöldum atvinnutryggingasjóðs.

Í nýrri skýrslu OECD kemur fram að flest aðildarríkin hafi sett fram stefnu í ferðaþjónustu – til marga ára – þar sem áherslur og leiðbeiningar stjórnvalda á öllum stigum stjórnsýslunnar koma fram. Hér á landi er eins og stjórnvöld hafi ekki alveg áttað sig á hvaða hlutverki þeir eiga að gegna í starfsumhverfi atvinnugreinarinnar.

En nú horfir til betri vegar með Stjórnstöð ferðamála og „Vegvísi í ferðaþjónustu“. Þar eru markmiðin skýr; að skipulag ferðamála verði hagað með sjálfbærum hætti, samfélaginu og almenningi til hagsbóta. Þar skipa upplýsingar og gögn lykilhlutverki.

Í skýrslu OECD kemur fram að í flestum aðildarlöndunum gegnir hið opinbera miðlægu og veigamiklu hlutverki í uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu aðildarlandanna. Skýrsluhöfundar benda á að hægt er að finna lönd þar sem lagðir hafi verið á sérstakir „ferðaþjónustuskattar“ (e. tourism-related taxes) s.s. komu- og brottfarargjöld á samgöngur, gistináttagjald, umhverfiskattar svo eitthvað sé nefnt og að reynslan sýni að tekjur vegna sértækrar skattheimtu fari ekki endilega í að byggja upp nauðsynlega innviði í ferðaþjónustu. Sértæk skattheimta er frekar til þess fallin að draga úr samkeppnisstöðu viðkomandi áfangastaða í harðri samkeppni um alþjóðlega ferðamenn.

Hvað Ísland varðar þá eru erlendir ferðamenn að greiða skatta – langt umfram það sem þarf til að fjármagna nauðsynlega innviði til að tryggja framgang ferðaþjónustunnar á komandi árum.

—————————————————–

[1] Fyrir ekki svo löngu var gerð sú stefnubreyting að taka upp þjónustugjöld í skatta til að draga úr umfangi ríkisjóðs. Skattar á flugfarþega voru afnumin og tekin upp þjónustugjöld sem innheimt eru í flugfargjaldi sem rennur til Isavia ohf sem sér um rekstur Keflavíkurflugvallar.