Hvernig skal bregðast við nýjum veruleika?

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

Ísland er lítið opið hagkerfi með mjög hátt hlutfall nettenginga á hverja 100 íbúa. Líklega er þetta ein mikilvægasta skýringin á því að Ísland er ekki „eyland“ í sama skilningi og áður – Ísland er nú partur af alþjóðlegum hringvegi netheima. Byltingakenndar breytingar á undanförnum árum hafa þau áhrif að nú er hægt að bera saman, í rauntíma, framboð í ferðaþjónustu þvert á landamæri og menningarheima – án þess að standa upp frá tölvunni. Samkeppnin um athygli ferðamanna er mikil en á hinn bóginn er markaðssetning í gegnum samfélagsmiðla á stóran alþjóðlegan markað mun aðgengilegri en áður og skilin á milli einstaklinga og fyrirtækja sem deila og skiptast á vörum sínum á samkeppnismarkaði orðin óljós.

Mikilvægt að ná heildaryfirsýn
Meðal alþjóðastofnana og einstakra landa hafa viðbrögð við „deilihagkerfinu“ (s.s. Airbnb og Uber) einkennst af „wait and see“ viðhorfi. Á sama tíma og menn fagna nýrri tækni og framþróun á mörgum sviðum í þeim tilgangi að auka hagkvæmni, eykst sjálfsögð krafa um að ná heildaryfirsýn yfir starfsemina. Að sammælst sé um alþjóðlega skilgreiningu á þjónustustarfsemi eins og Airbnb, að hún sé mátuð við gildandi regluverk og það aðlagað eða nýtt mótað og skilvirkni þannig tryggð. Starfsemina þarf að bóka í hið formlega hagkerfi. Slík krafa er ekki síst til komin vegna samfélagslegra þolmarka íbúa hvers svæðis.

Þannig hafa borgir og stjórnvöld í sívaxandi mæli verið að bregðast við gjörbreyttu landslagi með því að úthluta takmörkuðum leyfisfjölda á framboðsaðila á einstökum svæðum og/eða dagafjölda í útleigu. Jafnframt hafa lönd gert tilraunir með að innheimta skatt af hinu erlenda fyrirtæki Airbnb, en óljóst er hvaða árangri það hefur skilað.

Eigum enn langt í land
Samkvæmt lögum hér á landi ber aðilum að skrá eign sína til útleigu hjá sýslumanni. Rúmlega 1.000 einstaklingar hafa nú þegar skráð sig. Samkvæmt þeim úttektum sem gerðar hafa verið hér á landi á umfangi Airbnb má hins vegar gera ráð fyrir að í fyrra hafi um 6.000 gestgjafar boðið fram gistiþjónustu á Airbnb. Fyrrgreind skráning hjá sýslumanni sýnir að enn er langt í land með að hægt sé að ná utan um framboð á gistirými í netheimum. Á sama tíma eru ríki og sveitarfélög að verða af gífurlegum skatttekjum auk þess sem samkeppnisumhverfi hótela og annarra hefðbundinna gististaða er orðið algerlega óásættanlegt.

Í árslok 2017 bárust fréttir frá Evrópusambandinu þar sem skýrt er kveðið á um að leigubílafyrirtækið Uber sé ekki lengur skilgreint sem „digital milliliður“ (stafrænn milliliður) með þjónustu milli neytenda og þess sem veitir þjónustuna. Þar með fellur Uber undir hefðbundnar reglugerðir og tilskipanir um fyrirtæki í leigubílaakstri og þarf að lúta lögum og reglum sem gildir um þá starfsemi.

Marka þarf rammann
Það er íslenskra stjórnvalda og sveitastjórna að marka rammann hér á landi. Íbúðagistingu vex ásmegin í skjóli úrræðaleysis og ákvörðunarfælni. Markmið og umgjörð er ábótavant. Sveitastjórnarkosningar eru framundan og ég vænti þess að umræða um skipulagsmál tengd íbúðagistingu og þannig félagslegum þolmörkum íbúanna verði þar ofarlega á dagskrá.

Helga Árnadóttir
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar


Greinin birtist í Fréttablaðinu, 8. febrúar 2018.