Icelandair hótel umhverfisfyrirtæki ársins

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins 12. október sl. Umhverfisfyrirtæki ársins er Icelandair hótel. Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins tók við verðlaununum á Hilton Reykjavík Nordica.

Hagsmunir okkar að hugsa um umhverfið

„Umhverfismál eru hluti af daglegri starfsemi Icelandair hótela. Það eru hagsmunir hótelanna að hugsa um umhverfið og að sem flestir aðrir geri það líka. Þess vegna hafa Icelandair hótel alltaf lagt áherslu á að miðla sinni reynslu til að auka líkurnar á því að fleiri fyrirtæki taki upp sambærilegt verklag til að vernda auðlindina okkar. 80% af öllum ferðamönnum sem koma til Íslands koma til að sjá fallegu náttúruna okkar. Ferðaþjónustan er stærsti atvinnuvegurinn okkar í dag og því enn mikilvægara að huga að þessum málum til að stuðla að sjálfbærni Íslands til framtíðar,“ segir Magnea Þórey Hjálmarsdóttir.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.:

„Umhverfisfyrirtæki ársins hefur látið til sín taka á sviði umhverfismála. Það hefur innleitt umhverfisstjórnkerfi og sett sér metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála og gert sjálfbærni að markmiði í rekstrinum. Það hefur náð verulegum árangri í að auka nýtingu auðlinda og draga úr sóun.“

  • Rökstuðning dómnefndar má lesa í heild sinni HÉR.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samorka, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Ljósmynd: Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar og Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótela.