Jónína Lýðsdóttir hlýtur lokaverkefnisverðlaun SAF og RMF

Jónína Lýðsdóttir

Samtök ferðaþjónustunnar og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veittu á aðalfundi SAF Jónínu Lýðsdóttur verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi.

Jónína skrifaði meistaraverkefnið sitt í ferðamálafræði við Háskóla Íslands en það nefnist Af skapandi ferðaþjónustu í skapandi borg: Er Reykjavík með‘etta? Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður RMF og Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF afhentu Jónínu verðlaunin við hátíðlega athöfn á aðalfundi SAF í Hörpu.

Í ritgerðinni kannar Jónína Reykjavík sem skapandi borg og áherslur á sköpun í tengslum við ferðaþjónustu í borginni og veltir upp tækifærum og áskorunum sem felast í skapandi ferðaþjónustu. Hún segir að þó hugtökin sköpun og skapandi ferðaþjónusta séu notuð víða í heiminum virðist raunveruleg merking þeirra oft á tíðum óljós og þau að því er virðist stundum fremur til skrauts en að þau lýsi raunverulegri stöðu innan borganna. Með innihaldsgreiningu á skýrslum um skipulag, menningu og ferðaþjónustu í Reykjavík og viðtölum við borgarfulltrúa og sérfræðinga komst Jónína að því að skapandi ferðaþjónusta geti virkað sem hreyfiafl fyrir skapandi borg. Fram kom að ferðaþjónustan skapi menningunni sýnileika og geti komið menningu og menningararfleifð á framfæri. Breyttar áherslur í ferðaþjónustu, sem birtast m.a. í kröfum ferðamanna um merkingarbærar upplifanir, ýta undir þá kenningu og geta skapað tækifæri til nýsköpunar.

Grímur Sæmundsen formaður SAF, Jónína Lýðsdóttir, Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður RMF

Í  umsögn dómnefndar segir:

Jónína er verðugur handhafi Lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF fyrir árið 2016. Fræðilegur bakgrunnur ritgerðarinnar er sterkur og úrvinnsla rannsóknagagna er áhugaverð. Rökstuðningur Jónínu um það hvernig megi nota skapandi rými í borginni sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og einnig til að gera hana aðlaðandi fyrir heimamenn er vel unnin og athyglisverður. Ritgerðin er vel uppbyggð, innihaldsrík og athyglisvert framlag til nýsköpunar þekkingar í ferðaþjónustu á Íslandi.“

Leiðbeinendur Jónínu voru Dr. Gunnar Þór Jóhannesson og Dr. Katrín Anna Lund prófessorar í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Í ár voru alls 13 verkefni frá fimm háskólum tilnefnd til lokaverkefnisverðlaunanna en þetta var í fyrsta sinn sem óskað var eftir tilnefningum frá öllum háskólum landsins. Það var gert í ljósi þess að ferðamál hafa snertifleti við margar fræðigreinar háskólanna. Alls voru 10 verkefni tilnefnd í flokki lokaverkefna úr framhaldsnámi. Viðfangsefni verkefnanna voru eins ólík og þau voru mörg en öll áttu þau það sameiginlegt að vera afburðagóð.

Tilnefnd lokaverkefni úr framhaldsnámi eru (í stafrófsröð):
Carla M. Lange: Tourist perceptions of forestry in the coastal landscape of the Westfjords
Haf- og strandsvæðastjórnun, Háskólasetur Vestfjarða/Háskólinn á Akureyri.
Leiðbeinandi: Bradley Barr

Emilia Prodea: The role of the accommodation sector in sustainable tourism: Case study from Iceland
Umhverfis- og auðlindafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Rannveig Ólafsdóttir og Lára Jóhannsdóttir

Guðmundur Björnsson: Áhrif vindmylla í Búrfellslundi á ferðamenn með tilliti til fegurðar landslags
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Anna Dóra Sæþórsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir

Jónína Lýðsdóttir: Af skapandi ferðaþjónustu í skapandi borg: Er Reykjavík með‘etta?
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund

Karen Möller Sívertsen: Facebook logar af norðurljósum: Markaðssetning norðurljósaferða ferðaþjónustufyrirtækja á Facebook
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund

Lilja Karlsdóttir: Viðskiptatengd ferðamennska. Virðisskapandi þættir í markaðsmiðun M.I.C.E. vörunnar almennt og í Reykjavík
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Katrín Anna Lund og Magnús Haukur Ásgeirsson

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir: „Fólk vill ekki bíða, bara bóka sig sjálft 24/7“. Hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu tæknilega getu til að ná til hins upplýsta ferðamanns?
Viðskiptadeild, Háskólinn á Bifröst
Leiðbeinandi: Haraldur Daði Ragnarsson

Sigurbjörg Eðvarðsdóttir: Óttinn við að missa af einhverju markverðu. Hlutverk, notkun og áhrif ferðahandbóka í ferðalagi franskra ferðamanna á Íslandi
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Edda Ruth Hlín Waage og Anna Dóra Sæþórsdóttir

Zsófia Cságoly: On the Edge of the Wild: Day and overnight visitors’ setting preferences
Umhverfis- og auðlindafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Anna Dóra Sæþórsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir

Þorkell Stefánsson: Viðhorf ferðamanna til virkjana og raflína
Ferðamálafræði, Háskóli Íslands
Leiðbeinendur: Anna Dóra Sæþórsdóttir og Rannveig Ólafsdóttir
Þrjú verkefni voru tilnefnd í flokki lokaverkefna úr grunnámi en að mati dómnefndar uppfyllti þó ekkert þeirra nægilega skilyrði sem dómnefnd hafði til hliðsjónar en þar vegur hvað þyngst framlag verkefnisins til nýsköpunar um ferðamál og ferðaþjónustu á Íslandi.

Dómnefnd Lokaverkefnisverðlaunanna skipuðu: María Guðmundsdóttir, fulltrúi SAF, Laufey Haraldsdóttir fulltrúi stjórnar RMF og Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá RMF.