Óbyggðasetur Íslands hlýtur nýsköpunarverðlaun SAF 2016

obyggdasetur_islands_verdlaun_2016

Davíð Torfi Ólafsson, stjórnarmaður í SAF, María Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og hjónin Arna Björg Bjarnadóttir og Steingrímur Karlsson eigendur Óbyggðaseturs Íslands.

Óbyggðasetur Íslands er handhafi nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2016. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Óbyggðasetrinu verðlaunin við fjölmenna og hátíðlega athöfn á KEX Hostel föstudaginn 11. nóvember.

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í þrettánda sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samstakanna en þetta árið bárust 13 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela og stjórnarmaður í SAF, stýrði athöfninni og gerði María Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, grein fyrir niðurstöðu dómnefndar. Dómnefndina skipuðu auk Maríu þau Einar Bárðarson, rekstrarstjóri Reykjavík Excursions og fulltrúi fyrirtækja innan SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Nýsköpun sem byggir á fagmennsku og markvissri vöruþróun
nyskopun_logo_2016Í umsögn dómnefndar um Óbyggðasetur Íslands segir að sterk upplifun gegni lykilhlutverki í ferðaþjónustu samtímans og æ ríkari áhersla sé lögð á vöruþróun og nýsköpun sem miðar að því að skapa umhverfi sem stuðlar að innihaldsríkri upplifun ferðamannsins – eitthvað sem gerir ferðalagið merkingarbært og eftirminnilegt. Lykilatriðið sé að skapa hughrif, skapa stemningu og andrúmsloft sem fangar gestinn. Slíkt sé ekki hrist fram úr erminni heldur byggi upplifunarhönnun á vel ígrundaðri vinnu sem endurspeglist á öllum stigum þjónustunnar.obyggdasetur_islands_logo

Þá segir ennfremur í umsögn dómnefndar:

„Fagmennska og víðtæk þekking á viðfangsefninu einkennir einmitt það fyrirtæki sem í ár hlýtur nýsköpunarverðlaun SAF – Óbyggðasetur Íslands sem rekið er á bænum Egilsstöðum í Fljótsdal. Á skömmum tíma hefur Óbyggðasetrið skapað sér verðskuldaða athygli sem fyrirtæki í upplifunargeira ferðaþjónustunnar.“

„Hjónin Arna Björg Bjarnadóttir og Steingrímur Karlsson, hún sagnfræðingur og menningarmiðlari, hann kvikmyndagerðamaður hafa sameinað menntun sína og reynslu í að búa til nýjan segul utan alfaraleiðar. Það þarf mikla áræðni að fara út í svona verkefni fjarri meginstraumi ferðamanna og í því felst ákveðinn nýsköpunarkraftur og frumkvöðlahugsun sem er fordæmisgefandi.“

„Óbyggðasetrið er nýsköpun sem byggir á fagmennsku og markvissri vöruþróun sem á sér skýrar rætur í menningu og náttúru sveitabýlis í jaðri hálendisins. Með því hefur verið skapaður segull sem án efa á eftir að hafa mikið gildi fyrir áfangastaðinn Austurland.“

Umsögn dómnefndar má lesa í heild sinni HÉR.

Verðlaunin afhent í þrettánda sinn

Er þetta í 13. skipti sem nýsköpunarverðlaun SAF voru afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:

 • 2016 – Óbyggðasetur Íslands
 • 2015 – Into The Glacier
 • 2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
 • 2013 – Saga Travel
 • 2012 – Pink Iceland
 • 2011 – KEX hostel
 • 2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
 • 2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
 • 2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
 • 2007 – Norðursigling – Húsavík
 • 2006 – Landnámssetur Íslands
 • 2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
 • 2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan

Ljósmyndir frá Óbyggðasetri Íslands