Framboð til formanns: Pétur Óskarsson

Pétur

Pétur Óskarsson Framkvæmdastjóri Viator ehf.

Ég er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði þar sem ég bý í dag. Ég er stúdent frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og með háskólapróf frá Þýskalandi í rekstrarhagfræði (Dipl. Betriebswirt). Ég bjó í Þýskalandi í 13 ár, bæði við nám og störf. Ég er annar stofnandi og eigandi fyrirtækjanna Katla Travel GmbH, Katla DMI ehf, Viator Summerhouses GmbH og Viator ehf og framkvæmdastjóri þess síðastnefnda.

Hvaða reynslu af störfum í ferðaþjónustu eða SAF kemur þú með inn í stjórnina?

Ég hef unnið við ferðaþjónustu alla mína starfsævi og lengst af í eigin rekstri bæði í Þýskalandi og hér heima. Rekstur ferðaskrifstofu á meginlandinu, sem skipuleggur og selur ferðir til Íslands og innanlandsferðaskrifstofu á Íslandi krefst stöðugra samskipta við alla þætti ferðaþjónustunnar. Þannig fæst góð innsýn í rekstur ferðaþjónustufyrirtækja á öllum sviðum og þekking á öllum þeim ólíku áskorunum sem þau eru að glíma við.  Ég held að sú reynsla  muni nýtast mér vel í verkefnum formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Ég hef tekið þátt í starfi SAF alveg frá upphafi. Sat í stjórn 2002-2004 og hef setið í ýmsum nefndum og ráðum fyrir hönd samtakanna. Nú síðast í útflutnings- og markaðsráði Íslandsstofu frá 2019, í stjórn framkvæmdasjóðs ferðamannastaða frá árinu 2018 og í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2019.

Ég hef reynslu af stjórnsýslunni á sveitarstjórnarstigi, hef verið varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, hef setið í Hafnarstjórn, í stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins og setið fjögur ár í skipulags- og byggingaráði og í skólastjórn Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Mitt aðalstarf hefur þó alltaf verið við ferðaskipulagningu og ferðaheildsölu Íslandsferða og síðan árið 1997 í eigin rekstri, í fyrirtækjunum Viator ehf., Katla Travel GmbH, Viator Summerhouses GmbH og Katla DMI ehf.

Hvað eru Samtök ferðaþjónustunnar fyrir þér? Hvernig metur þú stöðu þeirra í dag?

Stofnun SAF haustið 1998 sem breiðfylking atvinnurekenda í ferðaþjónustu var stórt og mikilvægt skref. Frá þeim tíma hefur  greinin okkar vaxið í það að vera stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar með öllum þeim áskorunum sem því fylgja. Leiðin hefur langt frá því verið greið allan tímann, en með samstöðu, elju og útsjónarsemi hefur okkur tekist að komast á þann stað sem við erum á í dag. Samtök ferðaþjónustunnar hafa verið í lykilhlutverki í bæði hagsmunagæslu og faglegu starfi allan þennan tíma.  Þrátt fyrir mörg krefjandi verkefni framundan er ég mjög bjartsýnn fyrir hönd bæði samtakanna og ferðaþjónustu á Íslandi og hlakka til starfsins sem er framundan.

Hvað leggur þú höfuðáherslu á í starfi samtakanna? Er eitthvað sem þér finnst mikilvægt að bæta eða breyta?

Ég hef fylgst með starfi SAF frá stofndegi samtakanna. Allan þann tíma hafa samtökin þróast mikið,  tekið breytingum og aðlagað sig að breyttu umhverfi greinarinnar og samfélagsins. Ég vil halda áfram á þeirri leið og að samtökin raði sér í fremstu röð hagsmunasamtaka atvinnugreinanna.  Við þurfum líka að styrkja samtökin enn frekar innávið. Við þurfum að fjölga félagsmönnum, fjölga starfsmönnum,  styrkja starf fagnefndanna og yrkja grasrótina. Það er ótrúlegur mannauður í fyrirtækjunum okkar og öflugt grasrótarstarf er lykilatriði í að móta stefnu og greina þá hagsmuni, sem samtökin þurfa að leggja áherslu á hverju sinni. Með sterku samabandi grasrótar og stjórnar verða samtökin enn öflugri og stekari málsvari ferðaþjónustufyrirtækja.  Samtök ferðaþjónustunnar hafa undanfarin ár tekið frumkvæði í hinum ýmsu framfaramálum fyrir greinina og þannig þarf það að vera áfram. Með samstöðu fyrirtækjanna og heiðarlegu samtali við þjóðina um greinina okkar, sem við sannarlega getum verið stolt af, eigum við eftir að ná enn lengra saman.