Ræða formanns SAF á Ferðaþjónustudeginum 2017

Ræða Gríms Sæmundsen, formanns Samtaka ferðaþjónustunnar, sem flutt var á Ferðaþjónustudeginum, 16. mars 2017 í Silfurbergi í Hörpu.

Ráðherrar, borgarstjóri, aðrir góðir gestir.

Ég býð ykkur öll velkomin á þennan glæsilega ársfund ferðaþjónustunnar – ferðaþjónustudaginn.

Íslensk ferðaþjónusta hefur notið byltingarkennds vaxtar undanfarin misseri og þar er ekkert lát á.

Hún hefur farið úr því að vera litli bróðir í atvinnulífinu yfir í að verða langstærsta og öflugasta útflutningsatvinnugrein landsins á örfáum árum, en greinin mun skila á sjötta hundrað milljarða í erlendum gjaldeyri í þjóðarbúið á þessu ári. Það er óumdeilt að það er fyrst og fremst íslenskri ferðaþjónustu að þakka að nú hefur verið unnt að aflétta gjaldeyrishöftum að fullu, en það eru mikil vonbrigði að Seðlabankinn hafi látið kné fylgja kviði og lækkað vexti í gær. En lengi skal manninn reyna og ég vona að húsráðendur á þeim bæ sjái að sér strax á næsta vaxtaákvörðunardegi.

Við höfum náð ótrúlegum árangri í glímunni við þennan gríðarlega vöxt, en honum hafa engu að síður fylgt miklir vaxtarverkir og áskoranir.

Við eigum von á að yfir 2,3 milljónir erlendra ferðamanna heimsæki landið á þessu ári.

Ferðaþjónustan heldur áfram að knýja hjól atvinnulífsins með nýjum störfum, fjárfestingu og gjaldeyrissköpun og knýr ekki síður samfélagsbreytingar, sem kalla á nýtt gildismat til dæmis um verðmæti ósnortinna víðerna, mikilvægi náttúruverndar og nýrra möguleika til eflingar landsbyggðarinnar og byggðaþróunar.

Við búum á Nýju Íslandi nýrra tækifæra.

En vandi fylgir vegsemd hverri. Við stöndum frammi fyrir því að vöxtur íslenskrar ferðaþjónustu sérstaklega síðustu þrjú ár er fordæmalaus í alþjóðlegu samhengi hvort sem litið er til hlutfallslegrar aukningar eða í fjölda talið.

Það er eitt að ferðamönnum fjölgi um 30% þegar grunntalan, sem reiknað er frá er 500 þúsund ferðamenn en það blasir annað við þegar talað er um 30% vöxt sé reiknað frá 1,8 milljónum ferðamanna eins og nú þegar við horfum til vænts fjölda ferðamanna á þessu ári miðað við síðasta ár.

Þetta er ofurvöxtur á alla mælikvarða og það væri yfir gagnrýni hafið þótt einhverjir segðu að þetta sé hömlulaus vöxtur.

Þessi staðreynd kalla enn á nýtt stöðumat um þróun íslenskrar ferðaþjónustu og sjálfbærni greinarinnar til framtíðar.

Við siglum hraðbyri að miklu ójafnvægi í íslenskri ferðaþjónustu og um leið hvert sem litið er í okkar þjóðlífi.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um ástand vegakerfisins eða ástand á húsnæðismarkaði. Í því sambandi kemst ég ekki hjá því að leiðrétta þann misskilning að staðan á þessum tveimur sviðum sé ferðaþjónustunni að kenna, en vissulega hefur vöxtur ferðaþjónustunnar afhjúpað þá staðreynd að vegakerfið og húsnæðismarkaður hafa verið fjársvelt undanfarin átta ár.

Vinnumarkaðurinn er fullmettaður og miklu framboði á nýjum störfum mætt með innfluttu vinnuafli, sem hefur þannig komið í veg fyrir mikla spennu á vinnumarkaðnum en það eykur enn á húsnæðisvandann, einhvers staðar verður þetta góða fólk að búa. Ísland er nær uppselt næsta sumar hvað gistingu varðar og þar væri ástandið enn verra ef íbúðagisting hefði ekki komið til sögunnar, svo að því sé til haga haldið, þó að stjórnvöldum hafi til þessa mistekist að tryggja samræmi í, að sú starfsemi skili því sem henni ber til samfélagsins, eins og ég mun síðar víkja að.

Álag á heilsugæslu og löggæslu hefur vaxið mikið, ágangur á náttúru nálgast eða er kominn yfir þolmörk á fjölförnum ferðamannastöðum og sama má segja um félagsleg þolmörk.

Síðast en ekki síst er ferðaþjónustan fórnarlamb eigin velgengni þegar kemur að gengi íslensku krónunnar, þar sem hið gríðarlega gjaldeyrisinnflæði sem greinin hefur skapað og mun halda áfram að skapa hefur stuðlað að mikilli styrkingu gengis krónunnar, sem nú ógnar hag allra okkar útflutningsatvinnugreina.

Það kæmi ekki á óvart að einhver spyrði hvaða bölsýnistónn þetta eiginlega sé í formanni Samtaka ferðaþjónustunnar nú á tímum fordæmalausrar velgengni greinarinnar í íslenskri hagsögu hvernig sem á málið sé litið.

En þetta er ekki bölsýni. Þetta er tilraun til að hefja upplýsta umræðu um stöðuna eins og hún er og með því að sýna ábyrgð og forystu í að leita lausna á því verkefni sem við blasir, þ.e. að tryggja eins og kostur er sjálfbæran vöxt íslenskrar ferðaþjónustu til langrar framtíðar og hún verði áfram sú burðarstoð í íslensku atvinnulífi, sem hún er þegar orðin.

Við höfum orðið vitni að efnahagslegu ævintýri og við viljum öll að það endi vel eins og venjan er í öllum góðum ævintýrum. Við erum okkar eigin gæfu smiðir í þessu efni sem öðrum.

Því tel ég að við verðum að spyrna við fótum. Við þurfum að koma böndum á þennan ofurvöxt og reyna að tryggja eins hægt er hóflegan vöxt, sem greinin og stjórnvöld ráða við, en stærstu spjótin standa á stjórnvöldum vegna þess hvað við erum aftarlega á merinni í uppbyggingu nauðsynlegra innviða.

En hvað er til ráða?

Ég ætla fyrst að nefna hvað er ekki til ráða og það er að auka skatta eða álögur á greinina. Það er ekki leiðin að leysa þetta verkefni. Greinin mun skila ríkissjóði 90 milljörðum í skatta og gjöld á þessu ári og þar af 20 nýjum milljörðum frá árinu á undan. Vilji menn horfa til enn frekari skatttekna af greininni þá hvet ég stjórnvöld til að gyrða sig í brók og ná þá í 6 milljarða til viðbótar, sem KPMG áætlar lauslega að ríkissjóður verði nú af árlega vegna leyfislausrar íbúðagistingar.

Þá vil ég einnig nefna að langstærsti einstaki kostnaðarliður ferðaþjónustunnar er launakostnaður og hefur greinin staðið undir fordæmalausri aukningu kaupmáttar í landinu á undanförnum misserum með frammistöðu sinni. Vegna styrkingar gengisins hafa tekjur fyrirtækja í greininni í krónum minnkað mikið og þegar vegin eru saman aukinn launakostnaður og styrking gengis hefur framlegð í greininni minnkað um 25% á einu ári. Er svo komið að flest ferðaþjónustufyrirtæki sérstaklega þau smærri eru nú að glíma við mjög erfitt rekstrarumhverfi.
Það er nefnilega svo að það er ekki línulegt samhengi milli fjölda ferðamanna og bættrar afkomu í greininni. Það er staðreynd, sem ég tel að ekki allir geri sér grein fyrir.

Ágætu gestir.

Nú er tíminn til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Meginlausn á stærstu áskoruninni – örum vexti í fjölda erlendra ferðamanna – er betra skipulag í sátt við samfélag, sem er einmitt yfirskrift þessa fundar. Þar mun aðgangsstýring leika lykilhlutverk.

Það eru þrjár leiðir sem ég nefna í þessu samhengi. Það er að við leitum leiða og finnum stjórntækin til að stýra betur fjölda ferðamanna sem kemur til landsins, við reynum að dreifa ferðamönnum betur um landið og stýrum betur aðgangi að okkar stærstu ferðamannaperlum. Þetta getur og yrði í flestum tilvikum árstíðabundin stýring vegna þess að við viljum ekki að þeim árangri sem þegar hefur verið náð í því að dreifa ferðamönnum um árið verði ógnað og viljum bæta þar enn frekar við.

Það er þekkt staðreynd að fjöldi ferðamanna til eyjasamfélags eins og okkar ræðst mjög af flugframboði. Við höfum upplifað sprengingu í flugframboði til landsins á undanförnum misserum. Það voru tæplega 10 flug að meðaltali á dag til Keflavíkurflugvallar frá London í febrúar s.l. Það verður flogið til Keflavíkurflugvallar frá hátt í 90 erlendum áfangastöðum frá nú frá lokum mars til október n.k . Þetta er vissulega alveg stórkostlegt, en um leið eru þetta áleitnar staðreyndir.

Væri t.d. ekki eðlilegt sem dæmi að skoða að erlend lággjaldaflugfélög sem fljúga til Íslands 8 vikur á sumri gætu aðeins lent á Akureyri og Egilsstöðum en nytu þess í mun lægri lendingargjöldum heldur en í Keflavík. Keflavíkurflugvöllur væri aðeins fyrir þau flugfélög sem fljúga til Íslands allt árið.

Þetta eru aðilar sem hafa takmarkaðan áhuga á að byggja Ísland upp sem heilsársáfangastað og eru einungis að fleyta rjómann af þeirri eftirspurn sem landið nýtur nú um stundir meðal erlendra ferðamanna og yrðu fyrst til að hverfa á braut ef eitthvað bjátaði á.

Yrði þetta framkvæmanlegt værum við að slá tvær flugur í einu höggi.

Það þarf að greina þessa stöðu og þau tækifæri sem felast í því að stýra betur þeirri eftirspurn, sem hefur skapast hjá erlendum flugfélögum eftir ákvörðunarstaðnum Íslandi, en hingað til hefur verið gert.
Ég kalla eftir því að nú þegar verði hafin greiningarvinna á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála um hvaða leiðir séu færar til að koma böndum á ofurvöxt í fjölda ferðamanna og tryggja hóflegan vöxt, sem við sem samfélag ráðum við svo fljótt sem verða má. Sviðsmyndagreining um þróun ferðaþjónustunnar til 2030 sem unnin hefur verið á vettvangi Stjórnstöðvarinnar gæti verið grunnur að þessari vinnu.

Verkefnið er að það þarf eins fljótt og kostur er að skapa jafnvægi og stöðugleika milli vaxtar ferðaþjónustunnar og annarra þátta í umhverfi greinarinnar hvort sem litið er til gengismála, vinnumarkaðar, húsnæðismarkaðar, uppbyggingar samgangna, sjálfbærrar nýtingar náttúru eða félagslegrar sáttar. Ef við gerum það ekki erum við að pissa í skóinn og glutra niður einstöku tækifæri til langvarandi hagsældar. Við hjá Samtökum ferðaþjónustunnar erum tilbúin í þessar samræður á lausnamiðuðum grunni.

Segja má að við öll sem í landinu búum, séum hagaðilar að áframhaldandi uppgangi íslenskrar ferðaþjónustu. Við verðum öll að standa saman um að gera það sem í okkar valdi stendur til að hlúa að ferðaþjónustunni – þessu stórkostlega tækifæri, sem við höfum fengið í hendur – allri þjóðinni til heilla.

Takk fyrir.