Ragnhildur Ágústsdóttir Stofnandi og eigandi Lava Show
Ég heiti Ragnhildur Ágústsdóttir, athafnakona, tæknimógúll og markaðsfrömuður. Ég er stofnandi og eigandi Lava Show og hef setið í stjórn SAF sl. tvö ár. Ég er viðskiptafræðimenntuð, með meistaragráðu í stefnumótun og stjórnun. Ég er 42 ára, gift Júlíusi Inga Jónssyni, meðstofnanda mínum, og saman eigum við þrjú börn. Ég er oftast kölluð Ragga í daglegu tali en gengst einnig við gæluheitinu Lady Lava.
Við hjónin stofnuðum Lava Show í Vík í Mýrdal árið 2018. Sýningin, sem er einstök á heimsvísu og sannkölluð veisla fyrir skynfærin, hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, einkum fyrir nýsköpun, fræðslugildi sitt og framlag til íslenskrar menningar. Upplifunin, sem gerir fólki kleyft að komast í návígi við rauðglóandi hraun, er bæði skemmtileg og fræðandi og hjálpar áhorfendum að skilja betur eldvirkni Íslands og áhrif hennar á land og þjóð í gegnum aldirnar.
Árið 2021 vann Lava Show nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar. Skömmu síðar hófust stækkunaráform til Reykjavíkur þar sem glæný sýning, talsvert ólík sýningunni í Vík, opnaði úti á Granda. Síðan hefur Lava Show vaxið og dafnað og við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur á stuttum tíma.
Hvaða reynslu af störfum í ferðaþjónustu eða SAF kemur þú með inn í stjórnina?
Ég hef setið í stjórn SAF síðastliðin tvö ár. Á þeim tíma hef ég fóstrað afþreyingarfagnefnd SAF, tekið þátt í nýrri mörkun stefnu og aðgerðaráætlunar fyrir ferðaþjónustu á vegum ferðamálaráðherra sem fulltrúi SAF, haldið fyrirlestra og fræðsluerindi einkum um nýsköpun og markaðssetningu, og lagt mig fram um að vera verðugur fulltrúi greinarinnar.
Síðan afskipti mín af ferðaþjónustu hófust árið 2016 hef ég gert mitt besta til að styðja við uppbyggingu nærumhverfisins og vegsemd ferðaþjónustunnar. Auk þess að stofna og reka Lava Show, sat ég í stjórn Markaðsstofu Suðurlands árin 2020-2022 og er stofnmeðlimur í Grandasamtökunum frá 2023.
Nánari upplýsingar um minn bakgrunn og feril má finna á Linkedin.
Hvað eru Samtök ferðaþjónustunnar fyrir þér? Hvernig metur þú stöðu þeirra í dag?
Samtök ferðaþjónustunnar eru fyrst og síðast hagsmunasamtök sem gegna því veigamikla hlutverki að vera málsvari ferðaþjónustunnar. Hvort sem um ræðir hagsmunagæslu gagnvart stjórnvöldum, mörkun framtíðarsýnar, uppbyggingu innviða og samkeppnishæfni, eða að stuðla að jákvæðri umræðu og viðhorfi gagnvart ferðaþjónustunni, þá spilar SAF lykilhlutverk og rödd samtakanna hefur vaxið að umfangi og vægi síðastliðin ár.
Því miður virðist ferðaþjónustan vera algengt skotmark stjórnvalda um leið og syrtir í álinn og ráðamenn fljótir að opna á umræðu um hækkandi álögur á greinina. Þá virðist sem ímynd hins almenna Íslendings og samfélagsumræðan hafi orðið heldur neikvæðari upp á síðkastið sem mikilvægt er að bregðast við.
Hvað leggur þú höfuðáherslu á í starfi samtakanna? Er eitthvað sem þér finnst mikilvægt að bæta eða breyta?
Mín helstu baráttumál eru:
- öflugri markaðssetning innanlands sem utan
- nýsköpun og fagmennska
- markviss gagnaöflun um greinina
- skýrari stefnumörkun (til að hámarka fyrirsjáanleika og samkeppnishæfni)
Ég vil halda áfram að leggja mitt af mörkum til að vinna að hagsmunum ferðaþjónustunnar. Því býð ég mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í SAF og vonast eftir ykkar stuðningi.