Sævar Guðjónsson framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Mjóeyri við Eskifjörð
Ég er innfæddur Eskfirðingur – 54 ára gamall, giftur Berglindi Steinu Ingvarsdóttir og eigum við þrjú börn. Ég er lærður ferðamarkaðsráðgjafi frá Ferðamálaskóla Íslands, leiðsögumaður fyrir Austurland, hreindýraleiðsögumaður, með rútupróf og hef starfað að einhverju leyti í öllum þessum geirum ferðaþjónustunnar undanfarin 29 ár. Ég hef byggt upp og rekið Ferðaþjónustuna Mjóeyri ásamt konunni minni frá árinu 2004, sem er lítið fjölskyldufyrirtæki með gistingu í herbergjum og sumarhúsum auk þess að reka veitingastað í gömlu norsku síldarsjóhúsi. Ferðaþjónustan Mjóeyri er með ferðaskrifstofuleyfi og skipuleggur gönguferðir, veiði og skíðaferðir innanlands auk þess að reka veitingastaðinn Randulffs-sjóhús frá 2008. Ég var hluthafi í rútufyrirtækinu Austfjarðaleið á árunum 2004-2014 sem um tíma rak siglingafyrirtækið Fjarðaferðir. Ég hef verið hluthafi í Hótel Eskifirði frá 2016 þannig að snertifletir mínir við ferðaþjónustu eru á flestum sviðum og fjölþættir.
Hvaða reynslu af störfum í ferðaþjónustu eða SAF kemur þú með inn í stjórnina?
Í tæp tuttugu ár hef ég verið meðlimur í SAF og undanfarin tvö ár hef ég starfað í stjórn samtakanna. Sá tími hefur verið mjög lærdómsríkur ekki síst vegna gríðarlegra áskorana vegna heimsfaraldurs og jarðhræringa bæði fyrir samtökin okkar og greinina. Ég hef litið á mig sem talsmann landsbyggðarinnar inn í stjórninni og hefur það oft komið sér vel. Ég er fulltrúi litlu fjölskyldu fyrirtækjanna sem eru út um allt Ísland og eru hryggjarstykkið í íslenskri ferðaþjónustu, ekki síður en stóru öflugu fyrirtækin okkar. Við þurfum á hvort öðru að halda.
Hvað eru Samtök ferðaþjónustunnar fyrir þér? Hvernig metur þú stöðu þeirra í dag?
Samtök ferðaþjónustunnar eru mikilvægasti samstarfsvettvangur fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi. Eins og áður segir hef ég verið undanfarin tvö ár í stjórn SAF. Á þeim tíma höfum við náð mjög góðum árangri í samskiptum okkar við stjórnvöld og eru samtökin að mínu viti með öfluga rödd inn í stjórnsýsluna og mark á okkur tekið, þó auðvitað megi alltaf gera betur.
Hvað leggur þú höfuðáherslu á í starfi samtakanna? Er eitthvað sem þér finnst mikilvægt að bæta eða breyta?
Mjög mikilvægt er að sem flest ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi séu í SAF. Það styrkir greinina og þar með samtökin og er mjög mikilvægur þáttur í að styrkja rödd okkar við stjórnvöld. Það er einmitt eitt aðalhlutverk samtakanna að standa vörð um hagsmuni greinarinnar gagnvart sí aukinni skattlagningu og hertum kröfum á fjölmörgum sviðum og í mörgum greinum. Þessi rödd bjargaði því sem bjargað var í gegnum heimsfaraldurinn og fundum við í stjórninni að á okkur var hlustað. Mikilvægustu verkefni stjórnar SAF næstu árin verður að verja fyrirtækin okkar fyrir auknum og oft óþarfa kröfum stjórnvalda, auk þess að opna augu almennings fyrir mikilvægi greinarinnar fyrir hagsæld og velferð almennings í landinu.
Ég hef haft töluverðar áhyggjur af menntamálum greinarinnar og verða samtökin að beita sér af hörku í þeim málefnum.