Skýlaus krafa um að áformaðar breytingar á virðisaukaskatti verði að fullu dregnar til baka

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) gera skýlausa kröfu um að áformaðar breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu í fjármálaáætlun 2018-2022 verði að fullu dregnar til baka.

Styrking krónunnar og hækkun launa síðustu misseri hefur leitt til 20-30% hækkunar í erlendum gjaldmiðlum, sem skerðir samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar verulega.  Á sama tíma hefur afkoma greinarinnar versnað til muna þó ferðamönnum hafi fjölgað. Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa mörg hver tapað miklu vegna samninga um fast verð í erlendum gjaldmiðlum. Gistinóttum hefur þegar fækkað og mikið er um afbókanir gistingar og hópa á þessu ári og því næsta. Við þessar aðstæður er fyrirhuguð tvöföldun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna sem olía á eld.

Fyrirséð er að neikvæð áhrif verði mest á landsbyggðinni. Þegar kostnaður ferðamanna hækkar um tugi prósenta vegna launahækkana, gengisþróunar og hærri virðisaukaskatts hafa þeir minni fjárráð til að ferðast um landið. Fótunum verður kippt undan rekstrarhæfi fyrirtækja á landsbyggðinni, sem mörg eru lítil og hafa fjárfest að undanförnu. Atvinnu- og samfélags­upp­bygging verður í hættu. Á vef Alþingis má lesa umsagnir um 400 fyrirtækja, stofnana og hagsmunaaðila innan ferðaþjónstunnar sem sendar hafa verið inn sameiginlega eða í sitt hvoru lagi.   í ferðaþjónustu við fjármálaáætlunina. Í þeim kemur skýrt fram hversu mikla ógn forsvarsmenn fyrirtækjanna telja að standi af tillögum ríkisstjórnarinnar.

Í könnun sem SAF stóðu fyrir meðal félagsmanna 18.-24. apríl sl. komu fram miklar áhyggjur af afleiðingum þess að tvöfalda virðisaukaskatt á greinina til viðbótar við gengisþróunina. Af 214 sem svöruðu könnuninni töldu 76,2% að ferðamönnum myndi fækka á atvinnusvæði fyrirtækisins.

Í könnuninni sögðu 90% fyrirtækjanna að áhrifin af hækkun virðisaukaskattsins yrðu neikvæð fyrir reksturinn. Þar af töldu 70% af áhrifin yrðu mjög neikvæð.

Ekkert samráð var haft við SAF við undirbúning áforma ríkisstjórnarinnar um 20 milljarða króna skattlagningu á atvinnugreinina, né upplýst að sú vinna stæði yfir. Þessi vinnubrögð eru langt frá því að samræmast góðum stjórnsýsluháttum. Ekki bætti úr skák að í upphafi var ekki einu sinni óskað eftir umsögn við fjármálaáætlunina frá SAF – samtökum atvinnugreinarinnar sem á að taka að sér þessa skattheimtu. Þá var veittur afar skammur umsagnarfrestur og náði stór hluti hans yfir frídaga vegna páska og sumardagsins fyrsta.

Greininga er verulega ábótavant af hálfu ríkisvaldsins á áhrifum hærri virðisaukaskatts á ferðaþjón­ustuna. Ekkert hefur verið skoðað hver áhrifin verða á fyrirtækin, samkeppnishæfni, atvinnustig, fjárfestingu eða sveitarfélög svo eitthvað sé nefnt.

Í könnun SAF meðal félagsmanna var spurt um umfang fjárfestinga síðastliðin tvö ár. 46,3% sögðust hafa fjárfest verulega og 36% töluvert, eða 82,3% samtals. Þetta á við um fyrirtæki um allt land. Fækkun ferðamanna á landsbyggðinni vegna hærri kostnaðar getur haft afar neikvæð áhrif á getu fyrirtækjanna til að standa við skuldbindingar sínar.

Um 8400 starfsmenn starfa innan þeirra 214 fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni.

Þversögn er í markmiðum fjármálaáætlunarinnar um einföldun virðisaukaskattskerfisins. Uppgjör verður í raun flóknara en áður og áfram eru þrjú skattþrep. Áformin ganga þar að auki gegn grunngildum um stöðugleika og stefnu ríkisstjórnarinnar um aukna arðsemi ferðaþjónustu og dreifingu ferðamanna um allt land. Ráðherrar eru strax byrjaðir að ræða um ívilnanir og mótvægisaðgerðir, sem gengur þvert gegn áherslum þeirra á einföldun kerfisins.

Samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar skerðist verulega. Atvinnugreinin verður með næst hæsta virðisaukaskatt í Evrópu ef áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir. Í öllum löndum sem eru með fleiri en eitt þrep virðisaukaskatts er ferðaþjónustan af samkeppnisástæðum í neðra þrepinu.  Þessi skattahækkunaráform eru í andstöðu við álit Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem telur mikilvægt að varðveita samkeppnishæfni og sjálfbærni greinarinnar.

Hækkun virðisaukaskatts er óheppileg aðferð til að fækka ferðamönnum, en komið hefur fram í máli fjármálaráðherra að það sé eitt af markmiðunum öfugt við það sem kynnt var í upphafi. Óvíst er að þeim fækki annars staðar en á landsbyggðinni. Með minni fjárráð stoppa ferðamenn bara styttra og halda sig á suðvesturhorni landsins. Aðrar aðgerðir til að hafa áhrif á fjölgun ferðamanna eru áhrifaríkari og valda minni skaða.

Ríkisvaldið hefur staðið sig illa. Afar lítið af tekjum vegna ferðamanna hefur farið í innviði, uppbyggingu ferðamannastaða eða aðrar aðgerðir til að skapa sátt við umhverfið. Ekki hefur vantað tekjurnar af ferðaþjónustunni – í fyrra hafði ríkissjóður um 70 milljarða króna í tekjur af erlendum ferðamönnum og á þessu ári er áætlað að þær nemi 90 milljörðum króna.

Skuggahagkerfið grefur undan fyrirtækjunum. Mjög hátt hlutfall óskráðrar íbúðagistingar keppir við gistihús og hótel, lítið sem ekkert eftirlit eða eftirgangssemi er með þessari starfsemi. Óheft undirboð erlendra rútufyrirtækja fara vaxandi.