Spurningar og svör um boðaða hækkun VSK á ferðaþjónustu

Samtök ferðaþjónustunnar hafa tekið saman eftirfarandi spurningar og svör varðandi boðaðar breytingar á virðisaukaskatti og áhrif þeirra á ferðaþjónustu.

 1. Hvaða áhrif getur þessi áformaða hækkun virðisaukaskatts haft á ferðaþjónustuna?
  • Við höfum einna mestar áhyggjur af ferðaþjónustufyrirtækjunum úti á landi sem hafa verið að byggja upp, kosta miklu til og eru mörg hver skuldsett. Þessi fyrirtæki eru enn að vinna að því að fullnýta afkastagetu sína þ.e. að nýta fjárfestinguna allan ársins hring. Með hækkun VSK er hætt við að neyslumynstur ferðamannsins muni breytast á þá vegu að hann dvelur skemur, eyðir minna, fer í styttri og einfaldari ferðir og sparar við sig ýmsa afþreyingu. Við erum strax farin að sjá þessi merki vegna styrkingar krónunnar.  Að lokum þýðir þetta að sá markhópur sem við höfum verið að reyna að höfða til, þ.e. betur borgandi ferðamenn, hættir að koma. Afleiðingin verður strípaðar vörur af minni gæðum, sem höfða til fjöldans eða massatúrismans eins og það kallast.
 2. Er þessi breyting ekki í línu við það sem stjórnvöld hafa sagst ætla að gera þ.e. að einfalda stjórnkerfið og gera það skilvirkara?
  • Svo sannarlega ekki. Með þessari miklu hækkun eykst hættan á undanskotum og samkeppnisstaða heiðarlegra fyrirtækja versnar til muna. Skatturinn hækkar bara á þeim sem standa sína plikt gagnvart samfélaginu.
 3. Því hefur verið haldið fram að ferðaþjónustan ætti að geta ráðið við þessa 10% VSK hækkun þar sem hún hefur staðið af sér tugi prósenta styrkingu krónunnar og kostnaðarhækkanir s.s. launahækkanir, er það rétt?
  • Þetta er alls ekki rétt, eftir því sem rekstrarumhverfið versnar þeim mun viðkvæmari verða fyrirtækin fyrir „heimatilbúnum“ hækkunum það segir sig sjálft.
  • Hækkun í erlendum gjaldmiðlum vegna styrkingar krónu á síðasta ári er um 20% (hærra í sumum gjaldmiðlum), hækkun launaliðar er um 10% að jafnaði. Það að ætla að bæta 10% skattahækkun við í þessum aðstæðum er ávísun á að ferðamaðurinn segi hingað og ekki lengra.
 4. Hvað þýðir þessi áformaða VSK breyting mikinn kostnaðarauka fyrir ferðaþjónustuna?
  • Ríkisstjórnin áætlar að tekjuauki hennar nemi tæplega 20 milljörðum á ársgrundvelli. Sennilega er ekki hægt að finna viðlíka dæmi þar sem ríkisstjórnin hefur lagt aðra eins upphæð á eina atvinnugrein með einu pennastriki og án nokkurs samráðs.
  • Þau fyrirtæki sem ekki geta lagt hækkaðan virðisaukaskatt ofan á söluverðið þurfa að bera hann sjálf með tilheyrandi lækkun framlegðar og getu til uppbyggingar.
 5. Hvaða greining liggur að baki þessari ákvörðun stjórnvalda hvað áhrif á fyrirtækin varðar?
  • Því miður virðist sem stjórnvöld hafi fyrst og fremst horft til fjöldatalna. Hvað varðar áhrif á ferðaþjónustufyrirtækin og það um allt land var alls ekkert skoðað.
 6. Er ferðaþjónustan ekki aflögufær þar sem ferðamönnum fjölgar og fjölgar, fyrirtækin hljóta því að vera að græða og græða?
  • Því miður er það svo að afkoma fyrirtækjanna er að versna á meðan að ferðamönnum fjölgar. Bæði vegna ytri þátta s.s. styrkingar krónunnar og kostnaðarhækkana en líka vegna breyttrar hegðunar ferðamannsins. Hann dvelur skemur, eyðir minna og fer ekki eins víða.
 7. Það er talað um að ferðaþjónustan geti vel skilað tekjum til ríkisins rétt eins og aðrar atvinnugreinar, er það ekki rétt ábending?
  • Ferðaþjónustan er að skila tekjum til ríkisins rétt eins og aðrar atvinnugreinar. Árið 2015 fékk ríkið um 70 milljarða króna af ferðaþjónustunni í formi skatta og þjónustugjalda. Á árinu 2017 er gert ráð fyrir að þessar tekjur ríkisins verði 90 milljarðar króna.
 8. Af hverju eru fyrirtækin í ferðaþjónustu sérstaklega viðkvæm fyrir auknum sköttum núna?
  • Bæði vegna ytri aðstæðna s.s. gengisstyrkingar krónunnar og kostnaðarhækkana sem nema tugum prósenta en einnig vegna þeirra miklu fjárfestinga sem hún hefur verið að ráðast í til að geta tekið á móti þessum aukna fjölda ferðamanna svo sómi sé að. Fyrirtækin mega því ekki við miklu, þau eru viðkvæm og það má lítið út af bera, sérstaklega á landsbyggðinni.
 9. Hvað sögðu ríkisstjórnarflokkarnir fyrir kosningar um VSK á ferðaþjónustuna?
  • SAF hélt fundi í öllum kjördæmum með oddvitum stjórnmálaflokkanna til að fara yfir málefni greinarinnar m.a. VSK. Á þeim fundum kom skýrt fram hjá Sjálfstæðisflokkunum að ekki kæmi til greina að hækka VSK á ferðaþjónustuna, Viðreisn vildi horfa til eins VSK þreps og einföldunar skattkerfisins, en gerði sér fulla grein fyrir því að horfa þyrfti til séraðlögunar fyrir ferðaþjónustuna vegna þeirrar samkeppni sem hún er í við aðra áfangastaði.  Björt framtíð hafði ekki skýra sýn á málið en skildi stöðu ferðaþjónustunnar fyllilega.  Þess vegna er ekki hægt annað en að líta á þessa aðgerð sem hrein kosningasvik.
 10. Er það rétt að stjórnvöld höfðu ekkert samráð um framkvæmdina?
  • Það er hárrétt, SAF fengu upplýsingar um fyrirætlunina um klukkustund áður en hún var kynnt. Í þessu samhengi er rétt að benda á að þau stjórnvöld sem nú eru við stjórnvölin hafa hingað til talað fyrir auknu samráði, bættum vinnubrögðum og meira gagnsæi.
 11. Hvernig kemur íbúðagistingin inní þetta þ.e. Airbnb og slík þjónusta?
  • Auknar skattaálögur sem þessar auka líkur á frekari skattaundanskotum, freistingin verður meiri, bæði hvað varðar íbúðagistingu sem og hvers kyns aðra þjónustu sem er verið að bjóða í afþreyingu. Rétt er að benda á að erlendar ferðaskrifstofur og afþreyingaraðilar eiga að skila VSK á Íslandi en hafa komist upp með að gera það ekki.
 12. Hvað segir Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, sem hefur verið stjórnvöldum til ráðgjafar um þetta?
  • Það kemur mjög skýrt fram í skýrslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að stjórnvöld þurfi að horfa fyrst og síðast til þess að styrkja ferðaþjónustuna til að verja samkeppnisstöðu hennar gagnvart öðrum áfangastöðum. Eftir því er svo sannarlega ekki farið með þessu útspili ríkisstjórnarinnar.
 13. Þýðir þessi ætlaða hækkun á VSK þá að umræðu um gjaldtöku af ferðamönnum sé lokið? Er þetta gjaldtökuleiðin sem hefur orðið fyrir valinu?
  • Alls ekki. Stjórnvöld virðast vera að skoða ýmsa aðra gjaldtökumöguleika áfram, ofaná skattahækkun upp á 10%. Því miður liggur ekki að baki nein greining á þoli fyrirtækjanna til að taka á sig ítrekaðar auknar álögur.
 14. Nú er t.d. gisting í Danmörku í 25% VSK þrepi. Hefur þeim ekki bara gengið ágætlega með sína ferðaþjónustu?
  • Gistingin í Danmörku fór í 25% þrepið árið 1992. Við það hrundi fjöldi gistinátta í landinu og í fyrra voru Danir fyrst að ná sömu gistináttatölum og áður en hækkunin varð fyrir 25 árum.  Rétt er að geta þess að stjórnvöld þar í landi hafa boðið miklar endurgreiðslur, sér í lagi vegna funda- og ráðstefnumarkaðarins, til að hann eigi minnstu möguleika á að vera samkeppnisfær við önnur lönd.
 15. Af hverju eiga ferðamenn að greiða lægri skatta en Íslendingar?
  • Ferðamenn eru að greiða skatta til samfélagsins á margan hátt. Ástæða þess að ferðaþjónustugreinar hafa verið í neðra skattþrepi er samkeppnishæfnin fyrst og síðast.  Í langflestum samkeppnislöndum okkar er ferðaþjónustan í neðra VSK þrepi af þeirri ástæðu að ferðamenn nýta sér aðeins brot af þeirri samneyslu sem sköttum er almennt ætlað að standa undir.
 16. Ferðamönnum fjölgar og fjölgar, skiptir nokkru máli þó svo að við hækkum VSK um 10%, þeir greiða þetta hvort sem er?
  • Afkoma fyrirtækja í ferðaþjónustu versnaði töluvert milli áranna 2015 og 2016 þrátt fyrir fjölgun ferðamanna. Aðalástæðan er styrking krónunnar.  Á sama tíma hafa launahækkanir verið íþyngjandi, en ferðaþjónustan er vinnuaflsfrek atvinnugrein. Ýmsar aðrar kostnaðarhækkanir hafa einnig komið til. Staðreyndin er sú að afkoman fer versnandi og því væri viðbótar högg uppá 10% mikið áfall rétt eins og gefur að skilja.
 17. Ferðamönnum fjölgar þrátt fyrir styrkingu krónunnar, þurfum við nokkuð að hafa áhyggjur?
  • Jú svo sannarlega. Nú þegar er boginn spenntur til hins ýtrasta í gjaldmiðli ferðamannsins. Hættulegt er að hækka verð frekar við þær aðstæður, þó að margir komist hreinlega ekki hjá því. Aukin skattheimta kemur því niður á afkomu fyrirtækjanna, sem aftur kemur niður á gæðum þjónustunnar. Orðið er fljótt að berast og neikvæð áhrif geta orðið veruleg og ferðaþjónustan hrunið á skömmum tíma. Ferðaþjónustan vinnur langt fram í tímann og því eru eiginleg áhrif af t.a.m. styrkingu krónunnar nú fyrst að byrja að koma fram.  Ef tryggja á atvinnugreinina til framtíðar þarf að hlúa að henni, tryggja regluverk og umhverfi fyrirtækjanna svo þau geti lifað og það um allt land og skilað til samfélagsins með sjálfbærum hætti.
 18. Hver er málsmeðferðin á þessum áformum og hver verða næstu skref hjá stjórnvöldum?
  • Tillagan um VSK hækkunina er í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem er þingsályktunartillaga en ekki lagafrumvarp. Fjármálaáætlunin er komin til umræðu í fjárlaganefnd, en verður líka rædd í efnahags- og viðskiptanefnd og atvinnuveganefnd.
  • Fjárlaganefnd hefur gefið frest til 21. apríl til að skila umsögnum. Allir geta sent inn umsagnir og hvetjum við til þess. Netfangið er nefndasvid@althingi.is. Í umsögn þarf að tilgreina númer og heiti þingmáls, sem er Fjármálaáætlun 2018-2022, mál nr. 402. Hægt er að senda inn umsögn þó að frestur sé liðinn, eða allt þar til nefndin hefur lokið umræðu um málið. Við hvetjum hins vegar til þess að koma umsögnum sem fyrst til nefndarinnar. Athugið að allar umsagnir eru birtar á vefsíðu Alþingis.
  • Nánari leiðbeiningar um innsendingu umsagna http://www.althingi.is/thingnefndir/viltu-senda-umsogn/leidbeiningar-um-umsagnir-um-thingmal/