Spurt og svarað um vörugjöld bílaleigubíla

Í aðdraganda Alþingiskosninga sendi SAF tvær spurningar á formenn stjórnmálaflokkana um afstöðu þeirra á dreifingu ferðamanna og búnaði bílaleigubíla ásamt skorti á því samráði sem Alþingi boðaði samhliða ákvörðun um hækkun vörugjalda sem tekur gildi næstu áramót .

Hér á eftir eru spurningarnar og svör þeirra stjórnmálaflokka sem svarað hafa kl. 17.00, föstudaginn 27. október.

Er það raunverulegur vilji þíns framboðs að dreifing ferðamanna um landið verði tryggð og um leið að tryggt verði að bílaleiguflotinn verði útbúin nýlegum og öruggum faratækjum?

Framsóknarflokkur:

  • Já.

Píratar:

  • Já, það er raunverulegur vilji og samþykkt stefna Pírata.

Vinstrihreyfingin grænt framboð:

  • Vinstri græn leggja mikla áherslu á aukna dreifingu ferðamanna um landið. Það minnkar ágang á viðkvæmum náttúruperlum, eykur verðmætasköpun um allt land og dreifir álagi jafnar á vegakerfi landsins. Það verður verkefni næstu ríkisstjórnar að auka straum ferðamanna um land allt og byggja upp innviði til þess að ferðaþjónustan og önnur starfsemi geti blómstrað. Þá eru öryggissjónarmið afar mikilvæg þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustunnar og nauðsynlegt að hægt sé að bjóða upp á örugg farartæki. Einnig hafa Vinstri græn lagt áherslu á að séu ívilnanir til staðar eigi þær að vera í þágu umhverfisins og stuðla að notkun umhverfisvænni farartækja til að draga úr mengun og útblástri gróðurhúsalofttegunda.

Er það vilji þíns framboðs að farið verði eftir nefndaráliti efnahags og viðskiptanefndar Alþingis um að haft verði samráð við hagsmunaðila í greininni til að tryggja bestu leiðina við úrlausn málsins og því frestað þangað til slíkt samráð hefur farið fram?

Framsóknarflokkur:

  • Já, endurskoða þarf heilt yfir skattlagningu á ökutæki og finna bestu leiðina.

Píratar:

  • Já, það er að sjálfsögðu vilji Pírata að samráð sé haft við hlutaðeigandi aðila, sama um hvaða mál sé að ræða, enda kemur fram í grunnstefnu Pírata:
  • 1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
  • 6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
  • Stundum fær maður sterklega á tilfinninguna að það sé ákveðið tengslaleysi milli nefndarálita og ráðuneyta. Að sjálfsögðu eru þau lesin, en ég er ekki viss um að það sé formlegt skipulag til þess að koma hlutum úr nefndarálitum í formlegt ferli innan ráðuneytanna. Það hættir til að þingmenn telji sig hafa fríað sig ábyrgð með því að koma orðsendingum til ráðuneyta í nefndarálitum. Að því sögðu þekki ég ekki þetta tiltekna mál umfram orðsendingu ykkar um það, þannig að ég get svo sem ekki svarað til um hvers vegna ekkert samráð var haft. En sem fyrr greinir, þá er það hluti af grunnstefnu okkar annarsvegar að ákvarðanir séu teknar með upplýstum hætti (sem er reyndar merkilega róttæk hugmynd í stjórnmálum), sem og að allir hafi rétt á að koma að ákvörðunum um málefni sem þá varða.

Vinstrihreyfingin grænt framboð:  

  • Vinstri græn telja miður að ekki hafi verið ráðist í heildarendurskoðun á þessum málum líkt og nefndarálitið boðaði þar sem gjaldtaka er skoðuð almennt og hvernig best er að samræma hana. Á meðan slík skoðun færi fram telja Vinstri græn að rétt sé að fresta málinu en vísa allri ábyrgð á því á hendur fráfarandi ríkisstjórnarflokkum sem vildu jafnframt hækka virðisaukaskatt á alla ferðaþjónustuna.