Stóraukinn stuðningur við aukið öryggi ferðamanna undir merkjum Safetravel

Á Ferðaþjónustudeginum 2017 skrifuðu ráðuneyti ferðamála og Samtök ferðaþjónustunnar undir samstarfssamning við Slysavarnafélagið Landsbjörg sem felur í sér stóraukinn stuðning við verkefnið Safetravel. Samningurinn hljóðar upp á 35 milljónir króna á ári og er til þriggja ára til viðbótar því fjármagni sem Slysavarnafélagið Landsbjörg leggur til verkefnisins árlega auk ómælds tíma og vinnu sem sjálfboðaliðar félagsins leggja til. Ráðuneyti ferðamála leggur fram 25 milljónir króna á ári en lagði til samanburðar fram 16 milljónir á liðnu ári. Samtök ferðaþjónustunnar auka sitt framlag úr 6 milljónum árið 2016 í 10 milljónir á ári. Auk þess styður Icelandair Group verkefnið myndarlega.

Samningurinn markar tímamót og skapar forsendur til að auka verulega við Safetravel verkefnið sem Slysavarnafélagið Landsbjörg sinnir varðandi slysavarnir og öryggismál ferðamanna og hefur félagið þó unnið mikið og gott starf á þessu sviði um árabil.

Á meðal verkefna sem stefnt er að á grundvelli þessa samnings er m.a. að efla:

  • Hálendisvaktar Slysavarnafélagsins Landsbjargar
  • Skjáupplýsingakerfi ferðamanna
  • Safetravel.is m.a. með þýðingu á akstursefni vefsins á kínversku
  • Upplýsingamiðstöð Safetravel m.a. með lengri viðveru starfsmanna

Þá eru ótalin fjölmörg verkefni sem Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur sinnt undir merkjum Safetravel og mun gera áfram svo sem margvísleg útgáfa á fræðsluefni, fyrirlestrar, endurnýjun sprungukorta á jöklum og fleira. Samningurinn veitir einnig aukið svigrúm til að móta áherslur og verkefni frá ári til árs.

„Öryggi og slysavarnir, ekki síst með góðri upplýsingagjöf og fræðslu, eru eitt af forgangsmálum ferðaþjónustunnar og það er ánægjulegt að undirstrika það hér með afgerandi hætti. Það er okkur dýrmætt í þessu sambandi að geta nýtt þá framúrskarandi fagmennsku, metnað og þekkingu sem Slysavarnafélagið Landsbjörg býr yfir,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.

„Það er mjög ánægjulegt að nú hafa samtarfsaðilar Safetravel ákveðið að festa verkefnið enn frekar í sessi með því að staðfesta þátttöku í því til þriggja ára. Öryggi ferðamanna er forsenda þess að gæði geti skapast í íslenskri ferðaþjónustu og við megum aldrei að gefa neinn afslátt þegar kemur að öryggismálum. Við hjá Samtökum ferðaþjónustunnar fögnum þessu framtaki og munum leggja okkar að mörkum til að öryggi ferðamanna verði ávallt haft í fyrirrúmi,“ segir Grímur Sæmundsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Áherslur á slysavarnir ferðamanna hafa aukist hjá félaginu síðasta áratuginn og undanfarið undir merkjum Safetravel. Því fögnum við þessum áfanga enda hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg lagt mikið í þetta málefni enda þörfin til staðar og ekki síst þessi misserin í ljósi fjölgunar ferðamanna,“ segir Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.