Sumarstýrisspjöldin komin í dreifingu

Stýrisspjöld fyrir sumarið hafa nú verið sett í dreifingu en stýrisspjöldin eru til þess fallin að upplýsa erlenda ökumenn um hvað helst ber að varast í umferðinni og hvað séríslensku umferðarskiltin þýða.

Á spjöldunum er undirstrikað með myndrænum hætti að ávallt eigi að hafa kveikt á framljósum, spenna beltin, virða hámarkshraða og gæta varúðar við akstur á malarvegum. Að auki hefur nú verið bætt við ábendingu um hættuna sem getur skapast við að stoppa á vegum og taka myndir.

Stýrisspjöldin eru gefin út í tveimur flokkum, annars vegar fyrir fólksbíla og hins vegar fyrir jeppa þar sem akstur bílaleigubíla í flokki fólksbíla um miðhálendið er ekki æskilegur. Á baklið beggja stýrisspjalda eru útskýringar á nokkrum umferðarskiltum, þar á meðal malbik endar og blindhæð. Þar er einnig bent á að akstur utan vega er bannaður og að sektir liggi við slíku, líkt og öðrum umferðalagabrotum.

Stýrisspjöldin eru unnin í samstarfi SAF, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu, Sjóvár, Landsbjargar, lögreglunnar og innanríkisráðuneytisins. Samhliða stýrisspjaldinu verða gefnir út litlir bæklingar á sex öðrum tungumálum þ.m.t. þýsku, frönsku, spænsku og kínversku.