Umsögn SAF hvað varðar boðaðar breytingar á virðisaukaskatti

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent inn umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022 hvað varðar boðaðar breytingar á virðisaukaskatti.

Um 400 fyrirtæki, stofnanir og hagsmunaaðilar innan ferðaþjónstunnar hafa sent inn umsagnir, sameiginlega eða í sitt hvoru lagi, þar sem áform ríkisstjórnarinnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna er mótmælt harðlega.

Umsögn SAF er ítarleg og er hana að finna í heild sinni HÉR.

Yfirlit umsagnarinnar:

 • Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) gera skýlausa kröfu um að áformaðar breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu í fjármálaáætlun 2018-2022 verði að fullu dregnar til baka.
 • Gengisþróun síðustu missera hefur skert samkeppnishæfni greinarinnar verulega. Ferðamenn þurfa að borga 20-30% meira fyrir krónuna en fyrir ári. Afkoma ferðaþjónustunnar hefur versnað verulega þó ferðamönnum hafi fjölgað. Áætlað að afkoma greinarinnar hafi því versnað til muna á síðasta ári. Fyrirtækin taka á sig tap vegna samninga um fast verð í erlendum gjaldmiðlum. Gistinóttum hefur þegar fækkað og mikið um afbókanir gistingar og hópa á þessu ári og því næsta. Hærri virðisaukaskattur er sem olía á þennan eld.
 • Neikvæðu áhrifin verða mest á landsbyggðinni. Kostnaður ferðamanna hækkar um tugi prósenta vegna launahækkana, gengisþróunar og hærri virðisaukaskatts. Neyslumynstur ferðamannsins breytist. Færri ferðamenn fara út á land. Fótunum verður kippt undan rekstrarhæfi fyrirtækjanna. Atvinnu- og samfélagsuppbygging verður í hættu.
 • Ekkert samráð var haft við SAF við undirbúning áforma um þessa 20 milljarða króna skattheimtu, né upplýst að sú vinna stæði yfir. Þetta eru vinnubrögð sem samræmast ekki góðum stjórnsýsluháttum. Alls ekki í anda siðbótar í íslenskum stjórnmálum eins og stjórnarflokkarnir hafa boðað.
 • Ófullnægjandi með öllu sú greining sem liggur til grundvallar áhrifum hærri virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna. Ekkert skoðað hver áhrifin verða á fyrirtækin, samkeppnishæfni, atvinnustig, fjárfestingu eða sveitarfélög.
 • Þversögn er í markmiðum fjármálaáætlunar um einföldun virðisaukaskattskerfisins. Uppgjör verður í raun flóknara en áður og áfram eru þrjú skattþrep. Áformin ganga gegn grunngildum um stöðugleika og stefnu ríkisstjórnarinnar um aukna arðsemi ferðaþjónustu og dreifingu ferðamanna um allt land. Strax er byrjað að ræða um ívilnanir og mótvægisaðgerðir, sem er ekki beint ávísun á einföldun.
 • Kemur niður á samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar, sem verður með næst hæsta vsk í Evrópu ef áform ganga eftir. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn telur mikilvægt að varðveita samkeppnishæfni og sjálfbærni greinarinnar. Skyndilegar og illa undirbúnar breytingar skapa óvissu, ómögulegt að gera framtíðaráætlanir.
 • Þetta er óheppileg aðferð til að fækka ferðamönnum. Aðrar aðgerðir eru áhrifaríkari og valda minni skaða. Þá skýtur það skökku við að á sama tíma eru stjórnvöld í markaðssamstarfi með atvinnulífinu um að fjölga ferðamönnum utan háannar allan ársins hring.
 • Ríkisvaldið hefur ekki staðið sig. Afar lítið af tekjum vegna ferðamanna hefur farið í innviði, uppbyggingu ferðamannastaða eða aðrar aðgerðir til að skapa sátt við umhverfið.
 • Skuggahagkerfið grefur undan fyrirtækjunum. Mjög hátt hlutfall óskráðrar íbúðagistingar, ekkert eftirlit eða eftirgangssemi. Óheft undirboð erlendra rútufyrirtækja.
 • Þetta er vanhugsuð aðgerð sem ljóst er að muni hafa víðtæk neikvæð áhrif. Engin vissa er fyrir að hún skili þeim ávinningi sem til er ætlast.