Unnið að nýjum viðmiðum í Vakanum

Vakinn er sérhannað gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu, byggt á Nýsjálenskri fyrirmynd sem kallast Qualmark. Mikil vinna hefur verið lögð í að staðfæra kerfið og laga að íslenskum aðstæðum.

Stjórn Vakans vinnur um þessar mundir að uppfærslu viðmiða og eru starfsmenn Vakans að heimsækja fagnefndir Samtaka ferðaþjónustunnar þar sem tillögur að breytingum á umræddum viðmiðum eru kynntar og kallað eftir ábendingum. Síðar á árinu er gert ráð fyrir að endurskoðuð viðmið muni taka gildi.

Meginmarkmið Vakans er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu með handleiðslu og stuðningi, jafnframt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð innan greinarinnar. Mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa farið í þessa ítarlegu vinnu og náð glæsilegum árangri á sviði gæða og umhverfismála. Hundraðasta fyrirtækið mun ganga formlega í Vakann innan tíðar en einnig eru fjölmörg fyrirtæki með umsókn að Vakanum í ferli.

Ferðamálastofa stýrir Vakanum en verkefnið var unnið í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.