Viljum við fá 445 milljarða króna í ríkissjóð?

Ferðaþjónustan er á skömmum tíma orðin ein mikilvægasta tekjulind ríkissjóðs. Erlendir ferðamenn skapa atvinnu um allt land og skila miklum gjaldeyristekjum sem halda gengi krónunnar sterku og verðbólgu í skefjum. Þetta eru engar smáræðis upphæðir. Bara á þessu ári er gert ráð fyrir að ríkissjóður hafi í það minnsta 70 milljarða króna í tekjur af erlendum ferðamönnum. Miðað við spár um fjölgun ferðamanna eiga þessar tekjur eftir að aukast jafnt og þétt. Á næstu fjórum árum er áætlað að erlendu gestirnir skili ríkissjóði 445 milljörðum króna með sköttum og gjöldum. Heildar gjaldeyristekjur þjóðarinnar af ferðaþjónustu eru áætlaðar 2.700 milljarðar króna á næsta kjörtímabili.

Taka þarf á röskun og álagi
Óhjákvæmilegt er að einhver röskun fylgi þeim fjölda ferðamanna sem standa að baki þessu innflæði gjaldeyristekna. Þeir þurfa að gista og borða, komast leiðar sinnar, skoða sig um, versla og njóta lífsins. Álagið eykst á alla innviði og ferðamannastaði. Tryggja verður félagsleg þolmörk og álag á vinsæla ferðamannastaði. Ef við viljum halda áfram að fá erlendu gestina og tekjurnar sem fylgja þeim, þá verður að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir af hálfu ríkisins. Við getum kallað það mótvægisaðgerðir. Ef það verður ekki gert, þá hættir Ísland að vera áhugavert fyrir ferðamenn og á sama tíma gefast heimamenn upp fyrir átroðningnum.

Aðgerðaáætlun og kostnaður liggja fyrir
Fyrir liggur hvaða mótvægisaðgerðir þarf að ráðast í. Það kemur fram í Vegvísi í ferðaþjónustu sem kom út í fyrra. Auka þarf náttúruvernd, bæta upplýsingagjöf og öryggi ferðamanna, byggja upp vinsæla áfangastaði, fjölga salernum, stuðla að betri dreifingu ferðamanna og breyta ýmsum lögum svo eitthvað sé nefnt. Samtök ferðaþjónustunnar áætla að verja þurfi um 7% af áætluðum tekjum af ferðaþjónustu árlega í þessa uppbyggingu næstu fjögur árin. Stóra spurningin er: viljum við verja þessum fjármunum til að fá þá margfalt til baka? Viljum við að ferðamannalandið Ísland geti tekið á móti gestunum með sjálfbærum hætti, þannig að ekki verið gengið á gæði náttúrunnar eða þolinmæði heimamanna? Til skamms tíma virðast stjórnmálin almennt hafa litið á erlenda ferðamenn sem sjálfvirkan peningakrana. Áhugi stjórnmálamanna á ferðaþjónustunni hefur aðallega snúist um hvernig hafa mætti enn meiri tekjur af ferðamönnunum. Því hefur lítið sem ekkert verið sinnt að gera landi og þjóð kleift að mæta álaginu sem fylgir fjölgun ferðamanna.

Að hika er sama og tapa
Enn sem komið er svara flestir stjórnmálaflokkanna því hikandi hvort þeir styðji nauðsynlega uppbyggingu almannagæða í þágu ferðaþjónustunnar. Pólitíkusarnir virðast einblína svo á útgjöldin að þeir sjá ekki tekjurnar. Og þeir virðast margir hverjir ekki átta sig á því að aðgerðaleysi er ekki í boði nema ætlunin sé að láta landið drabbast niður. Til allrar hamingju eru þó sumir fulltrúar flokkanna búnir að átta sig á stöðunni og styðja fjárfestingu í framtíð þessarar öflugustu útflutningsgreinar landsins. Samtök ferðaþjónustunnar telja það skyldu sína að opna augu þeirra sem stjórna landinu fyrir nauðsyn þess að byggja undir atvinnugreinina. Ásýnd landsins er í húfi, viðmót landsmanna er í húfi og gríðarlegar tekjur eru í húfi. Það vantar ekki peninga, þeir streyma í ríkiskassann. Það vantar að taka ákvarðanir um að ráðast í bráðnauðsynlegar aðgerðir. Næsta ríkisstjórn mun hafa allt með það að segja hvernig til muni takast að tryggja þau tækifæri sem í ferðaþjónustunni felast til framtíðar.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 20. október 2016