[:IS]
Árið 2017 var viðburðarríkt á vettvangi Samtaka ferðaþjónustunnar rétt eins og í ferðaþjónustunni hér á landi. Ferðaþjónustudagurinn 2017 fór fram fyrir fullum sal í Hörpu samhliða aðalfundi SAF á vormánuðum. Þá má segja að nýliðið ár hafi að einhverju leyti farið í VSK-inn, en umræða um virðisaukaskatt á ferðaþjónustu fór ekki fram hjá neinum. Á vettvangi SAF voru haldnir fjölmargir félagsfundir á árinu og í aðdraganda alþingiskosninga stóðu samtökin fyrir stórum fundi með formönnum stjórnmálaflokkanna. Þá tóku samtökin þátt í ýmsum samstarfsverkefnum ásamt því að fjölmörg fyrirtæki gengu til liðs við SAF á árinu.
Auðvitað var mun meira í gangi á árinu og er í annáli stiklað á stóru í starfsemi SAF á árinu 2017.
Aðalfundur SAF árið 2017
Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar og Ferðaþjónustudagurinn 2017 fóru fram í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 16. mars 2017.
Á aðalfundi SAF var ný stjórn samtakanna kjörin.
Eftirtaldir einstaklingar skipa stjórn SAF starfsárið 2017-2018:
- Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins, formaður (kjörinn til tveggja ára á aðalfundi 2016)
- Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótels Sögu (kjörin til tveggja ára)
- Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Icelandair Group (kjörinn til tveggja ára)
- Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Gray Line Iceland (kjörinn til tveggja ára)
- Ásberg Jónsson, stofnandi og stjórnarformaður Nordic Visitor (kjörinn til eins árs)
- Rannveig Grétarsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Hvalaskoðunar Reykjavíkur (Eldingar) (kjörinn til eins árs)
- Ívar Ingimarsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Óseyri ehf. (kjörinn til eins árs)
„Ofurvöxtur í ferðaþjónustu kallar á nýtt stöðumat um þróun íslenskrar ferðaþjónustu og sjálfbærni greinarinnar til framtíðar.“
– ræða Gríms Sæmundsen, formanns SAF á Ferðaþjónustudeginum 2017
Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, flutti kraftmikla ræðu á Ferðaþjónustudeginum 2017.
Í ræðunni fór Grímur yfir stöðu ferðaþjónustunnar í íslensku samfélagi. Hvernig ferðaþjónustan hefur náð ótrúlegum árangri í glímunni við gríðarlegan vöxt, en honum hafi engu að síður fylgt miklir vaxtarverkir og áskoranir.
Ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum og stefnir í að 2,3 milljónir ferðamanna sæki landið heim á þessu ári. Þetta er fordæmalaus vöxtur í alþjóðlegu samhengi.
„Þessi staðreynd kallar enn á nýtt stöðumat um þróun íslenskrar ferðaþjónustu og sjálfbærni greinarinnar til framtíðar,“ sagði Grímur sem nefndi slæmt ástand vegakerfisins og ástand húsnæðismarkaðarins til sögunnar. „Í því sambandi kemst ég ekki hjá því að leiðrétta þann misskilning að staðan á þessum tveimur sviðum sé ferðaþjónustunni að kenna, en vissulega hefur vöxtur ferðaþjónustunnar afhjúpað þá staðreynd að vegakerfið hefur verið fjársvelt og mikill skortur hefur verið á framboði á íbúðarhúsnæði undanfarin átta ár.“
Grímur sagði að lausnin felist ekki í því að auka skatta eða álögur á ferðaþjónustuna. „Greinin mun skila ríkissjóði 90 milljörðum króna í skatta og gjöld á þessu ári og þar af 20 nýjum milljörðum frá árinu á undan. Vilji menn horfa til enn frekari skatttekna af greininni þá hvet ég stjórnvöld til að gyrða sig í brók og ná þá í 6 milljarða til viðbótar, sem KPMG áætlar lauslega að ríkissjóður verði nú af árlega vegna leyfislausrar íbúðagistingar,“ sagði Grímur.
Í ræðunni sagði Grímur ennfremur: „Meginlausn á stærstu áskoruninni – örum vexti í fjölda erlendra ferðamanna – er betra skipulag í sátt við samfélag, sem er einmitt yfirskrift þessa fundar. Þar mun aðgangsstýring leika lykilhlutverk.“
- Ræðuna í heild sinni er hægt að lesa HÉR.
Ályktun aðalfundar SAF: Landinn kallar – skipulag í sátt við samfélag
Samþykkt var ályktun á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem fram fór í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 16. mars 2017.
Í ályktuninni kemur fram að ferðaþjónustan sé drifkraftur íslensks efnahagslífs og sá öri vöxtur sem verið hafi í greininni sé krefjandi verkefni fyrir íslenskt samfélag. SAF kalli eftir öflugu samtali um framtíð ferðaþjónustu á Íslandi. Þá segir í ályktuninni að þar verði meðal annars að horfa til langtímahagsmuna þjóðarinnar, náttúruauðlinda, byggðasjónarmiða, orðspors og upplifunar ferðamanna af heimsókn sinni. Íslenskt samfélag eigi mikilla hagsmuna að gæta og ekki megi láta skammtímahagsmuni stýra för.
- Lesa má ályktunina í heild sinni HÉR.
Jónína Lýðsdóttir hlýtur lokaverkefnisverðlaun SAF og RMF
Samtök ferðaþjónustunnar og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veittu á aðalfundi SAF Jónínu Lýðsdóttur verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi.
Jónína skrifaði meistaraverkefnið sitt í ferðamálafræði við Háskóla Íslands en það nefnist Af skapandi ferðaþjónustu í skapandi borg: Er Reykjavík með‘etta?
Í ritgerðinni kannar Jónína Reykjavík sem skapandi borg og áherslur á sköpun í tengslum við ferðaþjónustu í borginni og veltir upp tækifærum og áskorunum sem felast í skapandi ferðaþjónustu.
- Hægt er að lesa nánar um ritgerðina HÉR.
Ljósmynd: Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, Jónína Lýðsdóttir, verðlaunahafi, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála.
Fagnefndir SAF starfsárið 2017 – 2018
Á fundi faghópa miðvikudaginn 15. mars 2017 var kjörið í fagnefndir Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir starfsárið 2017 – 2018.
- Sjá má hvernig fagnefndirnar eru skipaðar HÉR.
Ferðaþjónustudagurinn 2017
– fullt hús í Silfurbergi í Hörpu
Ferðaþjónustudagurinn 2017 fór fram fyrir fullu húsi í Silfurbergi í Hörpu samhliða aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar 16. mars 2017. Ætla má að um 400 manns hafi mætt á fundinn sem bar yfirskriftina „Landinn kallar – skipulag í sátt við samfélag.“
Grímur Sæmundsen, formaður SAF, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, ávörpuðu fundinn ásamt því að Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, flutti erindi undir yfirskriftinni „Allt sem þú vildir vita um gengi krónunnar (en þorðir ekki að spyrja).“
Í pallborðsumræðum, sem Eva María Jónsdóttir fjölmiðlamaður stýrði af röggsemi, var rætt um stóru málin sem íslensk ferðaþjónusta stendur nú frammi fyrir. Auk Gríms og Þórdísar Kolbrúnar tóku Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þátt í umræðum.
Á fundinum var jafnframt skrifað undir samning um Safetravel til þriggja ára. Það var síðan í höndum Hjörleifs Hjartarsonar, tónlistarmanns og leiðsögumanns, að reka endahnútinn á Ferðaþjónustudaginn 2017.
Ljósmyndari Samtaka ferðaþjónustunnar var á vettvangi og náði góðum myndum. Kannaðu málið með því að smella á hlekkina hér að neðan:
- Ferðaþjónustudagurinn 2017
- Fordrykkur í Björtuloftum
- Aðalfundur SAF
- Fagfundir
- Markaðstorg
- TTRAIN fundur
VSK baráttan!
Á vormánuðum kynnit ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar áform sín um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Samtök ferðaþjónustunnar létu ekki sitt eftir liggja í baráttunni og hélt uppi öflugum málflutningi.
Umsögn SAF hvað varðar boðaðar breytingar á virðisaukaskatti
Samtök ferðaþjónustunnar sendu inn umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022 hvað varðar boðaðar breytingar á virðisaukaskatti. Samtökin gerðu skýlausa kröfu um að áformaðar breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu yrðu að fullu dregnar til baka.
Um 400 fyrirtæki, stofnanir og hagsmunaaðilar innan ferðaþjónustunnar sendu inn umsagnir, sameiginlega eða í sitt hvoru lagi, þar sem áform ríkisstjórnarinnar um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna var mótmælt harðlega.
- Umsögn SAF er ítarleg og er hana að finna í heild sinni HÉR.
Reiðarslag fyrir ferðaþjónustu
Haldinn var fjölmennur félagsfundur á Radisson Blu Hótel Sögu um áform ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Ljóst er að boðaðar skattahækkanir hefðu haft mikil áhrif fyrir ferðaþjónustu um land allt.
Á fundinum var samþykkt harðorð ályktun þar sem sagði m.a.: „Verði virðisaukaskattur á ferðaþjónustu tvöfaldaður eins og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa boðað mun það hafa í för með sér grafalvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtæki og starfsfólk í ferðaþjónustu um land allt. Afleiðingarnar verða alvarlegastar fyrir landsbyggðina sem á nú þegar undir högg að sækja þegar kemur að ferðaþjónustu.“
- Ályktunina í heild sinni er að finna HÉR.
Aðilar í ferðaþjónustu um land allt tjá sig
– Hátt í 300 þúsund manns horðu á myndböndin
Gríðarleg gagnrýni hefur komið fram í samfélaginu vegna áforma ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir á ferðaþjónustuna. Samtök ferðaþjónustunnar hafa síðustu vikur tekið hús á fyrirtækjum í ferðaþjónustu um land allt og heyrt í þeim hljóðið. Afraksturinn er að finna í stuttum myndböndum á Facebooksíðu SAF.
Hátt í 300.000 einstaklingar horfðu á myndböndin!
- Horfðu á myndböndin með því að smella HÉR.
Brot af fréttaflutningi úr VSK baráttu
Frá því áform ríkisstjórnarinnar um hækkun á virðisaukaskatti voru kynnt í loka marsmánaðar 2017 voru fluttar fréttir, nánast daglega, um málið. Í fréttum birtust áhyggjur fyrirtækja í ferðaþjónustu um land allt.
Meðal annars voru sagðar fréttir af því að hótelbyggingu á Seyðisfirði hafi verið slegið á frest. Áhrifa fyrirhugaðra skattahækkana á ferðaþjónustuna var þegar farið að gæta um land allt.
Hér má sjá nokkrar fyrirsagnir:
- „Telja Íslandsferðum muni fækka 2018.“
- „Kalla eftir sátt í stað sundrungar.“
- „Fjárfestar hætta við hóteluppbyggingu á Akranesi.“
- „Hvetja ríkisstjórnina til að hverfa frá boðaðri hækkun virðisaukaskatts.“
- „Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar.“
- „Versnandi samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar.“
- „Óttast að ráðstefnuhótel missi viðskipti.“
Nálgast má brot af fréttaflutningi um málið HÉR.
Menntadagur atvinnulífsins 2017
Menntadagur atvinnulífsins fór fram á þann 2. febrúar 2017 á Hilton Reykjavík Nordica, en dagurinn er samvinnuverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar og annarra samtaka í Húsi atvinnulífsins undir merkjum Samtaka atvinnulífsins. Yfirskrift dagsins var Nýjasta máltækni og vísindi. Jafnframt stóðu SAF fyrir menntastofu þar sem fjallað var um hæfni, fræðslu og arðsemi í ferðaþjónustu.
- Upptökur frá Menntadegi atvinnulífsins má finna HÉR.
Öflug hagsmunagæsla á árinu
Aðgengismál
Gjaldtaka á ferðamannastöðum var mikið í umræðunni á árinu 2017. Nokkrir staðir byrjuðu að taka bílastæðagjöld þar á meðal Seljalandsfoss og Vatnajökulsþjóðgarður við Skaftafell. Í byrjun desember tilkynnti ISAVIA áform um innheimtu bílastæðagjalda á fjarstæðum hópbifreiða við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Núverandi Gjaldheimtu er sinnt með ólíku sniði en það sem er sameiginlegt er að gjaldtakan er alls ekki til þess fallin að bæta stýringu á umferð ferðamanna um viðkomandi svæði. Samtök ferðaþjónustunnar hafa bent stjórnvöldum á brýna nauðsyn þess að samræm gjaldtöku gagnvart ferðamönnum nú þegar og nýta hana sem tæki til stýringar.
Skipulagsmál
Skipulag svæða var mikið rætt á árinu og umræða talsverð um samþykktarferli og ábyrgð varðandi skipulagsmál. Ljóst er að ferli í skipulagsmálum er ábótavant og mikilvægt að gera bragabót í þeim efnum. Þetta kom sýnilega í ljós á málþingi SAF í nóvember um skipulagsmál þar sem félagsmenn SAF deildu reynslusögum af samskiptum við skipulagsyfirvöld en þar kom fram að bæta þarf ferlið þannig að umsagnir og mögulegar kærur geti komið fram áður en framkvæmdir hefjast eða er að ljúka.
Ferðaþjónustuleyfi
Í maí voru á Alþingi samþykkt ný lög um farþegaflutninga sem leysa eldri lög um sama málefni lög af hólmi. Í nýjum lögum er nýtt ákvæði um ferðaþjónustuleyfi sem heimila hópferðaleyfishöfum í ferðaþjónustu heimild til að nýta allt að 9 farþega bifreiðar í sínum ferðum. Þetta fyrirkomulag hentar vel þeim sem bjóða minni hópum upp á þjónustu og eykur bæði öryggi og gæði þeirrar þjónustu sem í boði er fyrir minni hópa.
Vörugjöld bílaleigubíla
Vörugjöld bílaleigubíla hefðu að óbreyttu hækkað mikið nú um áramótin en þá var gert ráð fyrir að niðurfelling vörugjalda félli alveg út. SAF og bílaleigunefnd hafa gagnrýnt boðaða hækkun þar sem samræður við stjórnvöld um skattbyrði bílaleigufyrirtækja hafa ekki farið fram. Með öflugri samvinnu og með dyggri aðstoð ATON ráðgjafar við að koma rökstuðningi á framfæri var niðurfellingin framlengd til loka árs 2018 og verður hámark niðurfellingar 250.000 kr. Gert er ráð fyrir að fara í samræður við stjórnvöld í upphafi nýs árs um skattbyrði bílaleigufyrirtækja en þar verður lögð áhersla á vistvænan ferðamáta og áhrif bílaleigufyrirtækja á markað með notaða bíla.
Erlend ferðaþjónustufyrirtæki innan lögsögu íslensk vinnumarkaðar
Á síðasta ári voru hátt í 30 erlendar hópbifreiðar með erlendum bílstjórum á vegum erlendra fyrirtækja hér landi í lengri tíma og seldu hér þjónustu án þess að vera hér á skrá og greiða skatta eða laun samkvæmt kjarasamningum. Þá var einnig hér á landi fjöldi erlendra leiðsögumanna starfandi á vegum erlendra ferðaskrifstofa. Búist er við að þetta muni aukast enn frekar sumarið 2018 með tilheyrandi áhrifum á íslenskan vinnumarkað, ef ekkert verður að gert. SAF og aðilar vinnumarkaðarins hafa bent á mikilvægi þess að lög og reglur séu skýr og að eftirlit geti átt sér stað á fyrri í ferlinu en nú tíðkast. Einnig þurfa lög um réttindi á íslenskum vinnumarkaði að ná til allra sem þar starfa til lengri tíma, líka hópbifreiða og leiðsögumanna. Þá hefur verið bent á að innheimta þarf VSK af þeim sem starfa hér á landi til að gæta jafnræðis við innlenda aðila. Samtök ferðaþjónustunnar hafa farið fram á fundi með þeim ráðherrum er málið varðar til að fara nánar yfir málið og þann alvarleika sem íslenskur vinnumarkaður stendur frammi fyrir ef óskráðum erlendum aðilum er gefinn óheftur aðgangur að íslenskum ferðaþjónustumarkaði
Ályktanir SAF árið 2017
Samtök ferðaþjónustunnar sendi frá sér 10 ályktanir um hin ýmsu málefni á síðasta ári, m.a. um fyrirhugaðar VSK hækkanir, vegakerfið og gjaldtökumál.
- Óásættanlegt að samgöngum sé stefnt í voða
- Ferðaþjónustan kallar á heildstæða nálgun í gjaldtökumálum
- Endurspegla fjárlög trú á ferðaþjónustu?
- Stórar ákvarðanir teknar á röngum forsendum?
- SAF eru fylgjandi gjaldtöku fyrir virðisaukandi þjónustu
- Skýlaus krafa um að áformaðar breytingar á virðisaukaskatti verði að fullu dregnar til baka
- SAF lýsa furðu sinni á samráðsleysi og aðgerðarleysi stjórnvalda gagnvart rekstrarumhverfi bílaleiga
- Reiðarslag fyrir ferðaþjónustu
- Er íslenska ríkið helsti gullgrafari ferðaþjónustunnar?
- Ályktun aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar 2017
SAF sendu einnig frá sér 17 umsagnir um opinber mál til Alþingis, sveitarfélaga og stofnana.
Erlend samskipti
SAF hafa á árinu eins og ávallt átt í góðum samskiptum við erlend systurstamtök og aðra aðila á erlendum vettvangi. SAF var gestgjafi á ársfundi Norðurlandasamtaka hótel- og veitingamanna en þar var rætt um þau mál sem efst eru á baugi á þeim vettvangi s.s. aðgengismál, fræðslumál, bókunarþjónustur (OTA‘s), skuggahagkerfið o.fl. Framkvæmdastjóri SAF og formaður gististaðanefndar sóttu einnig stöðufundi Norðurlandasamtakanna í Helsinki og Kaupmannahöfn.
Á árinu ákvað stjórn SAF að samtökin gerðust félagi í Hotrec, Evrópusamtökum hótel- og veitingamanna og var aðildin formlega samþykkt á ársfundi Hotrec í Tallin í apríl. Innan Hotrec er þróun greinarinnar greind út frá umfangi, öryggi og rekstrarumhverfi og geta SAF nýtt sér vel þá þekkingu sem þar er til staðar.
Á sviði fólksflutninga eru samtökin í samskiptum við systursamtök á Norðurlöndum og er fundað tvisvar á ári um helstu baráttumál. Þar er meðal annars rætt um sameiginlegar áherslur í hvíldartímalöggjöf, öryggismálum og loftslagsmálum. Einnig er ólögleg starfsemi erlendra hópbifreiðar mikið rædd og mögulegar aðgerðir til að sporna við slíkri starfsemi. TTRAIN er 2 ára verkefni, styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins sem hefur það meginmarkmið að þróa nám til að auka gæði vinnustaðaþjálfunar í ferðaþjónustu. María Guðmundsdóttir hefur verið einn af forsvarsmönnum TTrain hér á landi og sótt fundi í þeim löndum sem taka þátt í verkefninu.
Lykiltölur á heimasíðu SAF
Á árinu opnaðu SAF tölfræðivef sem finna má á heimasíðu samtakanna. Á vefnum er að finna ýmsar tölulegar upplýsingar og greiningar um ferðaþjónustu á Íslandi. Kynntu þér vefinn með því að smella HÉR.
Í fréttabréfi SAF var reglulega gefinn út svokallaður Hitamælir en í honum er að finna greiningar um stöðu ferðaþjónustunnar, athugaðu málið með því að smella HÉR.
Nóg um að vera hjá Stjórnstöð ferðamála
– Fjölmörgum verkefnum þegar lokið
Sem fyrr var nóg um að vera á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála á árinu 2017, en stjórnstöðin vinnur eftir skilgreindum verkefnum sem fram koma í Vegvísi í ferðaþjónustu. Verkefnin lúta að samhæfingu, jákvæðri upplifun ferðamanna, áreiðanlegum gögnum, náttúruvernd, hæfni og gæðum, aukinni arðsemi og dreifingu ferðamanna. Undanfarin 2 ár hefur Stjórnstöð ferðamála þannig unnið að fjölmörgum verkefnum.
Dæmi um verkefni sem er lokið eða eru í vinnslu:
- Framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi árið 2030 – KPMG
- Sviðsmyndir og áhættugreining (2016)
- Áreiðanleg gögn
- Mælaborð ferðaþjónustunnar
- Rannsóknir og kannanir
- Áfangastaðaáætlanir DMP
- Greining á opinberum tekjum og gjöldum vegna ferðamanna 2015 – Deloitte
- Hæfnisetur ferðaþjónustunnar til að auka hæfni, fagmennsku og jákvæða upplifun ferðamanna
- Skilvirkari stjórnsýsla
- Sjálfbærniviðmið fyrir fjölda ferðamanna á Íslandi – Efla
- Leyfisveitingar og eftirlit
- Merkingar og upplýsingaveita
- Endurskoðun forgangsmála í verkefnisáætlun Vegvísis
Á vef Stjórnstöðvar ferðamála er hægt að fylgjast með gangi mála, kannaðu málið með því að smella HÉR.
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar fest í sessi
Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, undirritaði í upphafi árs þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) um að hýsa verkefnið Hæfnisetur ferðaþjónustunnar. Markmið verkefnisins er að auka gæði og hæfni í ferðaþjónustu, einkum framlínustarfsmanna og millistjórnenda. Í því samhengi verður sérstaklega horft að fræðslu sem aðlöguð er starfsmönnum fyrirtækja í ferðaþjónustu og fer fræðslan fram inni í fyrirtækjunum eins og kostur er.
Markmiðið að auka framleiðni og gæði í ferðaþjónustu
Verkefnið er unnið á grundvelli skýrslu Stjórnstöðvar ferðamála sem stjórnvöld og Samtök ferðaþjónustunnar ýttu úr vör um hæfni í ferðaþjónustu en skýrslan kom út á síðasta ári. Markmiðið er að auka framleiðni og gæði í ferðaþjónustu sem og starfsánægju og fagmennsku starfsmanna í þessari mikilvægu atvinnugrein. Það verður gert m.a. með hæfnigreiningum starfa, þróun raunfærnimats og námskeiða, þrepaskiptu starfsnámi, rafrænni fræðslu ásamt fræðslu innan fyrirtækja.
Ánægja hjá aðstandendum verkefnisins
„Við hjá Fræðslumiðstöðinni erum mjög stolt yfir að okkur skuli vera falið þetta verkefni og finnum jafnframt til mikillar ábyrgðar. Við eigum fullt af verkfærum í fræðslu af þessu tagi fyrir fræðsluaðila og fyrirtæki og erum einnig að þróa ný sem nýtast í verkefnið. Okkar markmið er að þessir peningar skili sér margfalt út í greinina innan fárra ára,“ segir Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
„Ör vöxtur í ferðaþjónustu kallar á markvissar og um leið hraðar úrbætur í fræðslumálum. Það er því sérlega ánægjulegt að með samningi þessum sé starfsemi Hæfnisetursins fest í sessi til næstu þriggja ára,“ segir María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður stýrihóps Hæfnisetursins.
- Sjá nánar: www.haefni.is
Fjölgar á skrifstofu SAF
Á árinu var Lárus M. K Ólafsson ráðinn lögfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar.
Lárus hefur mikla reynslu sem lögfræðingur, en frá árinu 2011 hefur hann starfað sem lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu. Þar áður starfaði Lárus sem yfirlögfræðingur Orkustofnunar og var jafnframt staðgengill Orkumálastjóra. Einnig hefur hann starfað sem lögfræðingur hjá iðnaðarráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Þá hefur Lárus tekið að sér kennslu á sviði umhverfis- og auðlindaréttar ásamt því að vera prófdómari við Háskóla Íslands á framangreindum sviðum.
Skrifað undir alþjóðlegar siðareglur fyrir ferðaþjónustu
Á Ferðamálaþingi sem haldið var í Hörpu 4. október 2017 undirrituðu þær Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans skuldbindingu sem byggir á Alþjóðlegum siðareglum fyrir ferðaþjónustu.
Hugsaðar sem grunngildi
Reglunar voru þróaðar á vettvangi Alþjóðaferðamálastofnunarinnar (UNWTO) en þær byggja á ýmsum alþjóðlegum samþykktum og eru hugsaðar sem grunngildi og leiðarljós fyrir hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Siðareglurnar ná til ríkja, sveitarfélaga, samfélaga, ferðaþjónustuaðila og sérfræðinga auk ferðamanna, jafnt innlendra sem erlendra.
„Alþjóðaferðamálastofnunin hefur þá trú að leiðarljósi að framlag ferðamennsku til lífs fólks og jarðarinnar okkar geti verið mikilsvert,“ sagði Taleb Rifai, aðalritari UNWTO sem var viðstaddur Ferðamálaþingið. „Þessi sannfæring er kjarninn í Alþjóðlegu siðareglunum fyrir ferðaþjónustu, leiðarvísi í þróun ferðaþjónustu. Ég skora á alla að lesa siðareglurnar, koma þeim á framfæri og taka þær upp til hagsbóta fyrir ferðamenn, ferðaþjónustuaðila, samfélög gestgjafa og umhverfi þeirra á heimsvísu.“
Skuldbinding einkageirans um ábyrga og sjálfbæra ferðaþjónustu
Árið 2011 setti UNWTO fram skjal þar sem aðilum einkageirans er gert kleift að gangast undir reglurnar og stendur fyrirtækjum, samtökum og óopinberum stofnunum til boða að undirrita skjalið. Í júní í ár höfðu 521 fyrirtæki og samtök um allan heim undirritað skuldbindinguna og nú bætist Ísland í hópinn.
„Með undirskrift okkar heitum við því að virða, koma á framfæri og innleiða þau gildi ábyrgrar og sjálfbærrar ferðaþjónustu sem siðareglurnar standa fyrir,“ sagði Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri en Ferðamálastofa hafði forgöngu um að þýða reglurnar á Íslensku og semja við UNWTO um notkun þeirra. „Fyrirtækin skuldbinda sig einnig til að upplýsa Alþjóðanefnd um siðareglur fyrir ferðaþjónustu um hvernig siðareglurnar eru innleiddar í stjórnskipulag þeirra.“
- Hægt er að nálgast siðareglurnar í íslenskri þýðingu á vef Ferðamálastofu með því að smella HÉR.
Ljósmynd: Taleb Rifai, aðalritari UNWTO, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.
Hærri skattur á gistingu minnkar tekjur hins opinbera
– segir dr. Jeroen Oskam sem talaði á fundi SAF um Airbnb
Tekjur hins opinbera munu minnka ef skattur á skráða gistingu verður hækkaður, þetta kom fram í máli dr. Jeroen Oskam á hádegisfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem fram fór á Grand hótel Reykjavík 30. maí 2017. Þessi þróun verður vegna fjölgunar óskráðra Airbnb gistirýma og möguleika þess iðnaðar að taka við fleiri gestum.
Einnig kom fram að fjöldi gistirýma á vegum Airbnb í Reykjavík tvöfaldaðist á milli áranna 2015 og 2016. Á sama tíma jukust tekjur af Airbnb gistingu um 130 prósent.
Í kynningu Dr. Oskam kom fram að meirihluti íbúða er í útleigu aðila sem eru með fleiri en eina íbúð í útleigu. Þannig feli útleiga á Airbnb gistirýmum í Reykjavík í sér umfangsmikla atvinnustarfsemi, ólíkt því sem gerist í öðrum evrópskum borgum. Áætlað er að tekjur af Airbnb gistingu hafi numið 47,5 milljónum evra hér á landi á síðasta ári eða um 5,7 milljörðum króna sé miðað við meðalgengi síðasta árs.
Nánari upplýsingar um fundinn má finna HÉR.
Gögn frá fundinum:
Urð og grjót
– Vegakerfið, umferðaröryggi og samfélagsábyrgð
Þriðjudaginn 7. febrúar 2017 stóðu Samtök ferðaþjónstunnar ásamt Samtökum fjármálafyrirtækja fyrir fundi um ástand vegakerfisins, umferðaröryggis og samfélagslega kostnað. Fundurinn, sem fór fram á Reykjavík Hilton Nordica, var vel sóttur. Jón Gunnarsson, þáverandi samgönguráðherra, ávarpaði fundargesti, en í máli hans kom m.a. fram að mikil þörf væri á að efla fjárfestingu í vegakerfinu.
Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis og fræðsludeildar Samgöngustofu, fór yfir nýjar tölur umferðarslysa erlendra ferðamanna árið 2016. Fram kom í máli hans að töluverð aukning varð á alvarlegum slysum erlendra ferðamanna í umferðinni á milli áranna 2015 og 2016. Þá hélt Víðir Reynisson, almannavarnafulltrúi lögreglunnar á Suðurlandi, tölu um ástand vegakerfisins og áhrif þess á öryggi ferðamanna. Í máli hans kom m.a. fram að stórefla þyrfti fræðslu til erlendra ferðamanna um umferðaröryggi.
Í lok fundarins fóru svo fram pallborðsumræður undir stjórn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra SAF. Þáttakendur í umræðunum voru Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Ólafur Guðmundsson fulltrúi Eurorap á Íslandi, Valgerður Gunnarsdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og Þorsteinn Þorgeirsson formaður bílaleigunefndar SAF.
Sumarilminum fagnað
Á sumrin taka skilningarvitin við sér. Fuglasöngur ómar, gras grænkar og ljúfur sumarilmur boðar komu þessarar notalegu árstíðar. Samspil landbúnaðar og ferðaþjónustu skapar verðmæti sem aldrei fyrr og hafa þessar atvinnugreinar mjög jákvæð áhrif hvor á aðra.
Sumarið 2017 tóku ferðaþjónustan og landbúnaðurinn höndum saman annað árið í röð og stóðu fyrir skemmtilegum leik sem fagnaði sumarilminum í sínum ólíku myndum. Leikurinn gekk út á að þátttakendur tóku ljósmyndir sem lýstu samspili ferðaþjónustu og landbúnaðar og merktu þær með myllumerkinu #sumarilmur á Instagram. Myndirnar birtust síðan á vefsíðunni sumarilmur.is og í hverri viku var sú mynd valin sem best þótti sýna anda sumarsins, íslensku sveitirnar og ferðalög innanlands. Vinningshafar voru dregnir út í beinni útsendingu á útvarpsstöðinni K100. Í verðlaun voru veglegir vinningar frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og landbúnaði.
- Hægt er að skoða vinningsmyndirnar með því að smella HÉR.
Útskriftarnemar fá bókagjöf frá SAF
Samtök ferðaþjónustunnar færðu öllum útskriftarnemum í ferðamálatengdu námi við Menntaskólann í Kópavogi bókagjöfina „Það er kominn gestur – saga ferðaþjónustu á Íslandi“ við hátíðalega athafnir í Digraneskirkju þann 24. og 26. maí 2017.
Alls útskrifuðust 253 nemar, 64 stúdentar og 42 iðnnemi. Þá brautskráðust 15 ferðafræðinemar, 51 leiðsögumaður, 19 matsveinar, 42 úr meistaraskóla matvælagreina, 17 af framhaldsskólabraut og 3 af starfsbraut. Þetta var annað árið í röð sem allir útskriftarnemar í ferðaþjónustutengdum greinum fá bókagjöf frá samtökunum.
SAF fagna þessum nýju útskriftarnemum og því að nú skuli fjölga enn frekar í röðum útskrifaðra í greininni. Fjölgun faglærðra í greininni mun efla enn frekar gæði og fagmennsku í ferðaþjónustu á Íslandi sem er afar mikilvægt.
Talað hreint út um ábyrga ferðaþjónustu
Í tengslum við aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar stóðu Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn fyrir fundi sem bar yfirskriftina Tölum hreint út um ábyrga ferðaþjónustu. Var fundurinn haldinn í samstarfi við SAF.
Á fundinum tóku Jónas Guðmundsson frá Safetravel, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir frá Grayline Iceland, Stefán Gíslason frá Environice og Sigrún Blöndal frá Fljótsdalshéraði þátt í sófaspjalli sem Ketill Berg Magnússon frá Festu og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir frá Ferðaklasanum stýrðu.
Í upphafi árs 2017 skrifuðu rúmlega 300 fyrirtæki í ferðaþjónustu undir yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu þar sem lögð er áhersla á eftirfarandi atriði:
- Ganga vel um og virða náttúruna
- Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi
- Virða réttindi starfsfólks
- Hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið
Er þitt fyrirtæki búið að skrifa undir yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu? Ef ekki, þá er hægt að slást í hópinn með því að smella HÉR.
Norðurlandafundur hótel- og veitingasamtaka á Íslandi
– Ísland gegnir formennsku í samstarfinu til næstu tveggja ára
Í byrjun júní 2017 var aðalfundur Norðurlandasamtaka hótel- og veitingamanna haldinn á Húsafelli í Borgarfirði. Fundinn sóttu forsvarsmenn og starfsmenn systursamtaka Samtaka ferðaþjónustunnar á Norðurlöndum en Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF og Birgir Guðmundsson, formaður gististaðanefndar sátu fundinn fyrir SAF ásamt því að Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri og Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi sátu fundinn.
Á fundinum var farið yfir þau verkefni sem hvert land stendur frammi fyrir er varðar rekstrarumhverfi greinarinnar og rætt um sameiginleg viðfangsefni eins og heimagistingu, bókunarsíður, kjaramál og málefni Evrópusamtaka hótel- og veitingamanna. Á fundinum tók Ísland við formennsku í samstarfinu til næstu tveggja ára.
Fundarmenn nutu fallegs umhverfis og góðra veitinga á Húsafelli og fóru einnig í ísgöngin á Langjökli og nutu að lokum lystisemda Borgarfjarðar í grillveislu að Jötnagarðsási.
Brýnt að eiga gott samtal og samráð við ferðaþjónustuna
– Fundur SAF með forystumönnum stjórnmálaflokkanna í aðdraganda alþingiskosninga 2017
Húsfyllir var á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar með forystumönnum stjórnmálaflokkanna sem fram fór í Kaldalóni í Hörpu miðvikudaginn 18. október 2017.
Á fundinum flutti Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, ávarp áður en haldið var í pallborðsumræður sem Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri samtakanna og Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi stýrðu.
Þeir frambjóðendur sem tóku þátt í pallborðsumræðum voru Helgi Hrafn Gunnarsson, forystumaður Pírata, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, Jóhanna Vigdís Guðmundsdótti, Samfylkingu, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki.
Samtal og samráð við ferðaþjónustuna
Á fundinum kom skýrt fram að stjórnmálaflokkarnir átta sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar í íslensku samfélagi. Nefndu allir fulltrúar flokkanna að brýnt væri að eiga gott samtal og samráð við ferðaþjónustuna um uppbyggingu á greininni. Að besta leiðin að því að byggja upp ferðaþjónustulandið Ísland sem gott er að búa í sé að taka höndum saman þegar kemur að stórum ákvörðum er varða ferðaþjónustuna. Þá var bent á að stjórnvöld verða að marka sér skýra framtíðarsýn þegar kemur þeirri mikilvægu atvinnugrein sem ferðaþjónustan er.
Efla þarf samgönguinnviði
Nauðsyn þess að ráðast í stórfellda uppbyggingu á samgöngukerfi landsins var til umræðu á fundinum. Voru frambjóðendur allir á einu máli að nauðsynlegt væri að setja aukna fjármuni í að efla innviði þegar kemur að vegakerfinu. Vegakerfið lægi hreinlega undir skemmdum á mörgum stöðum og úr því yrði að bæta.
Skoska leiðin spennandi kostur
Spurt var út í svokallaða Skoska leið þegar kemur að eflingu innanlandsflugs hér á landi, en leiðin gengur út á að niðurgreiða flug til handa þeim sem búa og starfa á landsbyggðinni. Komið hefur fram að kostnaður við slíka leið sé áætlaður á milli 6-700 milljónum á ári. Var mikill samhljómur hjá frambjóðendum flokkanna um að þessi leið væri spennandi kostur sem þyrfti að skoða vel.
Flestir lögðust gegn hækkun á virðisaukaskatti
Umræða um virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna var fyrirferðarmikil á fundinum, enda voru á vormánuðum uppi áform um að stórhækka álögur á greinina í formi virðisaukaskatts. Með róttækum skattahækkunum sem þessum er verið að vega að ferðaþjónustunni á landsbyggðinni, draga úr samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar og hefta dreifingu ferðamanna um land allt.
Þegar frambjóðendur voru spurðir út í hvort þeir hyggist leggja fram eða styðja tillögur um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna á komandi kjörtímabili voru flestir á einu máli – það kæmi ekki til greina.
Vissir þú þetta um ferðaþjónustuna?
– Skemmtilegar og áhugaverðar staðreyndir
Í aðdraganda alþingiskosninga hafa Samtök ferðaþjónustunnar birt skemmtilegar og áhugaverðar staðreyndir um ferðaþjónustuna á Facebook síðu samtakanna. Þessar staðreyndir gefa skýrt til kynna hvað ferðaþjónustan hefur jákvæð áhrif á samfélagið og skiptir þjóðarbúið miklu máli.
- Kannaðu málið með því að smella HÉR.
Fylgist þú með okkur á Facebook? Ef ekki þá er hægt að bæta úr því með því að smella HÉR.
Haustfundur gististaða fór fram á Akureyri
Þriðjudaginn 14. nóvember 2017 stóð gististaðanefnd Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir haustfundi á Icelandair Hótel Akureyri.
Á fundinn mættu forsvarsmenn fjölda gististaða af öllu landinu en Alexander Eðvardsson, endurskoðandi hjá KPMG fór yfir efni skýrslu um rekstrarstöðu ferðaþjónustufyrirtækja og áhrif mögulegra skattahækkana á greininga en þar kemur fram að fyrirtæki á landsbyggðinni eiga sérstaklega undir högg að sækja.
Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri hélt erindi um áhrif ferðaþjónustunnar á bæjarfélag eins og Akureyri. Í máli hans kom fram að allir þættir ferðaþjónustu skipa bæjarfélagið máli. Þá voru öflugar umræður um stöðu gististaða á svæðum sem ferðamenn hafa hvað lengst að sækja. Jakob Rolfsson hjá Stjórnstöð ferðamála kynnti mælaborð ferðaþjónustunnar og fór sérstaklega yfir umfang heimagistingar og Gunnar Valur Sveinsson hjá SAF fór yfir tölulegar upplýsingar sem hagfræðingur samtakanna, Vilborg Júlíusdóttir, hafði unnið og sköpuðust góðar umræður á þeim vettvangi. Deginum lauk með heimsókn í Bjórböðin á Árskógssandi og þriggja rétta veislumáltíð á Icelandair Hótel Akureyri.
Glærukynningar frá fundinum:
- Áætluð áhrif breytinga á virðisaukaskatti á fyrirtæki í ferðaþjónustu
Alexander G. Eðvardsson, löggiltur endurskoðandi - Mælaborð ferðaþjónustunnar
Jakob Rolfsson, sérfræðingur hjá Stjórnstöð ferðamála - Lykiltölur gististaða
Vilborg Helga Júlíusdóttir, hagfræðingur SAF
Friðheimar eru handhafi nýsköpunarverðlauna SAF 2017
Friðheimar í Bláskógabyggð eru handhafi nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2017. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Friðheimum verðlaunin við fjölmenna og hátíðlega athöfn á Grand Hótel Reykjavík fimmtudaginn 16. nóvember 2017.
SAF afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar og vöruþróunar. Var þetta í fjórtánda sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samstakanna en þetta árið bárust 25 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.
Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og formaður dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar. Dómnefndina skipuðu auk Gríms þau Marín Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri viðburðadeildar CP Reykjavík og fulltrúi fyrirtækja innan SAF og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.
Nýsköpun sem byggir á fagmennsku og þekkingu
Tilnefningar til nýsköpunarverðlaunanna endurspegla mikla grósku og nýsköpun bæði í afþreyingu sem og í ýmsum nettengdum þróunarverkefnum. Dómnefnd var að þessu sinni einhuga í vali á því fyrirtæki sem hlaut nýsköpunarverðlaun SAF 2017 – Friðheimar í Bláskógabyggð.
Í umsögn dómnefndar segir að Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann eigendur Friðheima séu miklir frumkvöðlar á sínu sviði en þau hafa tvinnað saman tómataræktun, ferðaþjónustu og hestamennsku og taka árlega við vel á annað hundrað þúsund ferðamönnum.
- Umsögn dómnefndar má lesa í heild sinni HÉR.
- Ljósmyndir frá afhendingu nýsköpunarverðlaunanna má sjá HÉR.
Fjölmennt málþing um skipulagsmál
Samtök ferðaþjónustunnar stóðu fyrir opnu málþingi um skipulagsmál á ferðamannastöðum miðvikudaginn 22. nóvember 2017 á Grand Hótel Reykjavík. Fjölmenni mætti á málþingið og hlýddi á áhugaverð erindi ásamt því að taka þátt í pallborðsumræðum. Málþingið var sent út í beinni útsendingu á heimasíðu SAF og fylgdust rúmlega 400 manns með útsendingunni.
Í upphafi málþingsins fluttu Grímur Sæmundsen, formaður SAF og Björt Ólafsdóttur, fráfarandi umhverfisráðherra ávörp.
Á málþinginu voru flutt fjölmörg erindi sem fjölluðu um skipulag á ferðamannastöðum með tilliti til uppbyggingar og aðgengis. Þá fóru fram kröftugar pallborðsumræður með frummælendum sem Unnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri GoNorth, stýrði en hún var jafnframt málþingsstjóri.
Hér má nálgast glærukynningar frummælenda:
- Hvað segir landsskipulagsstefna um uppbyggingu á miðhálendinu?
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar - Hver ábyrgð sveitarfélaga og hverju sækjast þau eftir við skipulag og uppbyggingu?
Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi og stjórnamaður í Vatnajökulsþjóðgarði - Uppbygging í Kerlingarfjöllum – skipulagsferlið frá sjónarhóli framkvæmdaaðila
Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Fannborgar - Samskipti framkvæmdaaðila við stjórnvöld og stofnanir
Ólafur Hauksson, upplýsingafulltrúi og verkefnastjóri - Hver er stefna stjórnvalda í aðgengismálum á ferðamannastöðum?
Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu - Hver er lagalegur réttur þeirra sem sækja ferðamannastað m.t.t. gjaldtöku?
Ívar Pálsson, hrl. og lögfræðingur hjá Landslögum - Sýn ferðaþjónustufyrirtækja og notenda á gjaldtöku á ferðamannastöðum
Hægt er að nálgast upptöku frá málþinginu með því að smella HÉR.
Upplýsingafundur um persónuvernd
– Ný Evrópureglugerð um persónuvernd tekur gildi í maí 2018
Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu stóðu í desember 2017 fyrir sameiginlegum félagsfundi um nýja Evrópureglugerð um persónuvernd.
Í maí 2018 munu koma til framkvæmda umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á evrópskri persónuverndarlöggjöf í rúm 20 ár og fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki að aðlaga starfsemi sína að breyttum – og auknum – kröfum til persónuverndar og öryggis persónuupplýsinga. Á fundinum fjölluðu Hörður Helgi Helgason, lögmaður hjá Landslögum, og Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SAF og SVÞ, um boðaðar breytingar. Þess má geta að Hörður Helgi var settur forstjóri Persónuverndar á árunum 2013 – 2014.
Fundurinn var vel sóttur ásamt því að fjölmenni fylgdist með honum í beinni útsendingu á heimasíðum SAF og SVÞ.
Hér má nálgast efni frá fundinum:
- Hverju breyta nýjar persónuverndarreglur í raun?
Hörður Helgi Helgason, lögmaður hjá Landslögum - Undirbúningur vegna nýrrar Evrópureglugerðar um persónuvernd
Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SAF og SVÞ - Upptaka frá fundinum.
SAF á samfélagsmiðlum
SAF halda úti öflugri Facebook síðu og eru fylgjandur samtakanna á samfélagsmiðlinum nú um 2300 talsins.
- Á árinu náðu SAF til 23 þúsund einstaklinga með „Vissir þú“ staðreyndum um ferðaþjónustu í aðdraganda alþingiskosninga.
- Á árinu náðu SAF til 420 þúsund einstaklinga með myndböndum í VSK baráttunni.
Fylgdu SAF á Facebook með því að smella HÉR.
SAF í fjölmiðlum á árinu
Óhætt er að segja að Samtök ferðaþjónustunnar hafi verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum á árinu. Samkvæmt Fjölmiðlavakt Creditinfo voru samtökin tæplega 1,5 sinnum á dag í fjölmiðlum árið 2017.
Ár: | Fjöldi frétta: | Sæti á heildarlista: |
2017 | 540 | 122 |
2016 | 457 | 144 |
2015 | 469 | 141 |
2014 | 513 | 114 |
Samanburður við önnur hagsmunasamtök:
- Samtök atvinnulífsins (SA) 1553
- Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) 933
- Samtök iðnaðarins (SI) 907
- Bændasamtökin 770
- Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) 540
- Viðskiptaráð Ísland (VÍ) 472
- Félag atvinnurekenda (FA) 404
- Landsamband sauðfjárbænda 324
- Landsamband smábátaeigenda 266
- Félag íslenskra bókaútgefenda 236
Á árinu 2017 voru 29.828 tengingar á samfélagsmiðlum (comment, share og like) við fréttir tengdar SAF.
Þá var Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF áberandi í umræðunni, en hún var meðal 25 efstu viðmælenda í öllum ljósvakamiðlum á árinu.
Nýir félagsmenn
Samtök ferðaþjónustunnar efldust á árinu, en fjölmörg fyrirtæki um land allt gengu til liðs við samtökin.
- 100 Iceland ehf., Reykjavík
- ACE FBO Reykjavík ehf., Reykjanesbæ
- Austur Vestur ehf., Hafnarfirði
- Bjórböðin ehf., Dalvíkurbyggð
- CÁJ veitingar ehf. / Veislumiðstöðin, Reykjavík
- Crisscross ehf., Reykjavík
- Every Road Travel ehf., Kópavogi
- Friðheimar ehf., Selfossi
- Funaborg ehf. / Z bistro, Hornafirði
- Garún Akureyri ehf. / My Visit Iceland, Garðabæ
- Go Icelandic, Reykjavík
- Grand Travel, Garðabæ
- Gullfosskaffi ehf., Selfossi
- Hildibrand slf., Neskaupstað
- HRC Ísland ehf. / Hard Rock Cafe, Reykjavík
- Icebike Adventures ehf., Mosfellsbæ
- Kaffi Nóra, Reykjavík
- Kjarni Rekstrarfélag ehf. / Kerno Apartments, Reykjavík
- Lotus Car Rental Iceland, Keflavík
- Nordic Green Travel ehf., Þorlákshöfn
- Oddsson / JL Hostel, Reykjavík
- Perla norðursins hf., Reykjavík
- Roots Iceland, Kópavogi
- Skybus ehf., Reykjavík
- Sonata Hotel ehf. / Hótel Hvolsvöllur, Hvolsvelli
- Sólstaðir ehf. / The Cave People, Laugarvatn
- Travelade ehf., Reykjavík
- Your Day Tours, Reykjavík
[:]