[:IS]Ræða Gríms Sæmundsen, formanns Samtaka ferðaþjónustunnar 2014 – 2018, sem flutt var á Ferðaþjónustudeginum, 21. mars 2018 í Silfurbergi í Hörpu.
—
Ráðherrar, aðrir góðir gestir.
Ég býð ykkur öll velkomin á þennan glæsilega ársfund ferðaþjónustunnar – ferðaþjónustudaginn.
Íslensk ferðaþjónusta stendur nú á tímamótum.
Vísbendingar um, að það sé að hægja á vexti greinarinnar, eru skýrar.
Ég tel, að við séum flest sammála um, að það sé jákvæð þróun en ekki neikvæð.
Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 24% á síðasta ári miðað við árið á undan og voru þeir um 2,2 milljónir talsins skv. tölum frá Ferðamálastofu.
Búist er við að fjöldi erlendra ferðamanna verði um 2,4 til 2,5 milljónir á þessu ári, sem þýðir að þótt ferðamönnum fjölgi um 2-300 þúsund, sem er mikill fjöldi einstaklinga, er þetta samt einungis 10-12% vöxtur í prósentum talið.
Þetta er áfram mikill vöxtur í alþjóðlegu samhengi en miklu minni en sá gríðarlegi vöxtur í fjölda ferðamanna, sem ákvörðunarstaðurinn Ísland hefur notið undanfarin ár.
Þegar tölur Ferðamálastofu eru rýndar nánar, sést, að Norður-Ameríkumarkaður er meginuppspretta vaxtarins í fjölda ferðamanna með 42% af fjölguninni á meðan fjölgun frá hefðbundnum kjarnamörkuðum á Norðurlöndum og í Mið-Evrópu er að jafnaði miklu minni.
Að vísu fjölgaði komum Pólverja um 67% frá árinu á undan og dálkurinn „ferðamenn frá öðrum löndum“ tekur til 25 prósenta af fjölgun ferðamanna á árinu 2017.
Auðvitað vitum við að fjölgun ferðamanna frá Póllandi er fyrst og fremst vegna vaxandi fjölda harðduglegra Pólverja sem vinna hér á landi og eina Asíulandið sem talið er sérstaklega í gögnum Ferðamálastofu eru Kínverjar en þeim fjölgaði um tæp 30% á milli ára. Annað vitum við ekki um Asíumarkað.
Tölur um Pólverja og ferðamenn frá öðrum löndum undirstrika hversu talnagögn Ferðamálastofu eru takmörkuð hvað varðar þessar mikilvægu lykilupplýsingar um íslenska ferðaþjónustu, sem stjórnvöld, fjármálafyrirtæki og greinin sjálf eru að notast við í margvíslegum tilgangi.
Þetta er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Gæði þessara talnagagna verður að stórbæta og það strax.
En þrátt fyrir að þessi talnagögn séu ófullkomin felast í þeim ákveðnar vísbendingar.
Hinir hefðbundnu markaðir íslenskrar ferðaþjónustu í Skandinavíu og Mið-Evrópu, sem hafa verið kjarninn í markaðsstarfi greinarinnar undanfarna áratugi uxu lítið og nýir markaðir frá Norður Ameríku og Asíu voru uppistaða vaxtarins á síðasta ári.
Allt bendir til að sú þróun sem hér er lýst haldi áfram á þessu ári.
Ferðaþjónustan er fyrir löngu orðin burðarstoð í íslensku efnahagslífi og hún hefur verið undirstaða þess að nú eru erfiðu árin að baki.
Hún er hefur gegnt lykilhlutverki í sókn til bættra lífskjara og gjörbylt öllum möguleikum þess að búa í okkar harðbýla landi
Loks nú virðist sem menn séu að átta sig á þessum staðreyndum.
En þrátt fyrir það snýst opinber umræða um íslenska ferðaþjónustu ennþá ekki um hvernig við viljum sjá greinina þróast með sjálfbærum hætti í sátt við náttúru og samfélag heldur er öll orka ennþá nýtt í að staglast á því hvernig hægt sé að ná meiri tekjum af greininni með einhvers konar gjaldtöku, þrátt fyrir að hún hafi verið að skila hátt í eitt hundrað milljörðum króna í opinbera sjóði á síðasta ári með beinum hætti og þrátt fyrir að ýmsir hagaðilar, sem hafa til þess möguleika, hafi verið og séu nú þessa dagana að auka enn frekar álögur á greinina með ýmis konar gjaldtöku og nægir þar að nefna þreföldun gistináttagjalds, bílastæðagjöld á Þingvöllum, við Reynisfjöru, gjaldtökuhugmyndir Vatnajökulsþjóðgarðs og svo mætti áfram telja.
Það er mál að linni.
Það er kominn tími til að ljúka þessari eilífu gjaldtökuumræðu og snúa okkur að því sem skiptir öllu máli, en það er framtíð íslenskrar ferðaþjónustu og hvernig við hlúum best að þessari lykilgrein í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, sem skilaði vel á sjötta hundrað milljarða í gjaldeyri í þjóðarbúið á síðasta ári.
Við þurfum nú þegar að hefjast handa við að svara mörgum lykilspurningum.
Eru Norður Ameríka og Asía okkar framtíðar vaxtarmarkaðir? Hvernig viljum við hafa áhrif á samsetningu þeirra gesta sem sækja Ísland heim? Hvernig stýrum við álagi á fjölförnum ferðamannastöðum? Hvernig dreifum við ferðamönnum betur um landið? Hvernig verndum við náttúru landsins fyrir auknum ágangi ferðamanna og tryggjum sjálfbærni hennar? Hvernig náum við félagslegri sátt í ljósi þess að erlendir ferðamenn eru nú orðnir hluti af okkar daglega lífi? Hvernig viljum við skipa okkur sess í alþjóðlegri samkeppni um ferðamanninn og hvernig tryggjum við eins og kostur er samkeppnishæfni greinarinnar og verjum þann árangur sem náðst hefur? Hvaða ímynd viljum skapa Íslandi, sem ákvörðunarstað í huga erlendra ferðamanna?
Með þessum spurningum kem ég að kjarna máls í því sem ég vil ræða við ykkur um hér í dag en það er mikilvægi þess að stjórnvöld í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar hefji þegar á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála markvissa vinnu um stefnumótun íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030.
Þessi stefnumótun verður að vera samstarfsverkefni stjórnvalda og greinarinnar til að nauðsynleg sátt skapist um sameiginlega framtíðarsýn fyrir greinina. Þetta verkefni á að mínu mati að vinna á grunni Vegvísis í ferðaþjónustu, sem gefinn var út í október 2015 í samvinnu SAF og ferðamálaráðuneytis og er ennþá að mínu mati merkilegasta og mikilvægasta greining, sem unnin hefur verið um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu.
Við þurfum að hefjast handa við að svara áðurgreindum spurningum og mörgum öðrum í dag til að hafa áhrif á hvernig íslensk ferðaþjónusta verður á morgun og til framtíðar.
Það eru byltingarkenndar breytingar framundan á rekstrarumhverfi íslenskrar ferðaþjónustu.
Stafræn þróun og netvæðing gengur nú fram með ógnarhraða.
Bein samskipti viðskiptavina og þjónustuaðila í gegnum netið aukast stöðugt og samfélagsmiðlar eru farnir að leika stórt hlutverk í markaðssetningu á ferðaþjónustu.
Einstaklingar eru nú í auknum mæli að nýta þessa tækni til að skipuleggja sínar ferðir sjálfir í stað þess að ferðast með hópum.
Alþjóðlegar bókunarsíður svokallaðir on-line travel agents eins og t.d. AirBnB og Booking.com eru nú þegar orðnir stærstu söluaðilar á gistingu á Íslandi og því miður er á sama tíma ennþá ekki verið að taka á skekktri samkeppnisstöðu hótela gagnvart heimagistingu.
Expedia og Viator og fleiri slíkar bókunarsíður selja nú margvíslegar íslenskar ferðaafurðir og geta þeir sem þangað leita fest sér flug, bílaleigubíla, afþreyingu og hvað eina sem þörf krefur til að skipuleggja þá ferð sem viðskiptavinurinn sækist eftir.
Í þessum breytingum felast ógnanir fyrir suma og tækifæri fyrir aðra en það eitt er ljóst að þeir sem ekki munu stökkva um borð í þessa stafrænu lest hafi þeir ekki þegar gert það munu sitja eftir og verða undir í samkeppninni.
Í þessum efnum erum við þátttakendur í alþjóðlegri þróun sem er þegar að breyta því hvernig við ferðumst og mun gjörbreyta rekstrarumhverfi ferðþjónustufyrirtækja á næstu árum.
Í þessu samhengi er einnig rétt að nefna aðrar breytingar á rekstrarumhverfi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja.
Síðasta ár var þeim mörgum erfitt vegna aukins launakostnaðar og óhagstæðrar gengisþróunar.
En við bætist að sums staðar í greininni hefur myndast offramboð með tilheyrandi undirboðum t.d. eru fréttir um að áttatíu aðilar séu að bjóða dagsferðir á Gullfoss og Geysi og bílaleigur í landinu eru á annað hundraðið.
Það sjá það allir, þetta getur ekki haldið áfram svona en það eru sterkar vísbendingar um að gullgrafarastemmningin í ferðaþjónustu sé að fjara út og er það vel.
Vonandi leiða þær nýju krefjandi aðstæður, sem greinin stendur nú frammi fyrir, til þess, að grisjun með sterkari rekstrareiningum eigi sér stað á næstu misserum, sem geri fyrirtækin betur í stakk búin til að fjárfesta í mannauði, gæðum og stafrænni tækni.
Að lokum, kæru gestir.
Á undanförnum fjórum árum hefur íslensk ferðaþjónusta gengið í gegnum fordæmalaust vaxtarskeið. Þetta hefur verið áhugaverð vegferð og margt gott áunnist þrátt fyrir að vaxtarverkirnir hafi á stundum verið í meira lagi.
Nú eru vatnaskil. Það hægir á vexti og nú er tækifæri til að móta stefnu fyrir íslenska ferðaþjónustu til framtíðar. Það er verkefnið.
Með öðrum orðum: Hvert á fótspor ferðaþjónustunnar að verða í íslensku samfélagi, en það er einmitt yfirskrift þessa fundar.
Það skiptir öllu að stjórnvöldum og Samtökum ferðaþjónustunnar beri gæfa til að vinna áfram saman og enn betur en áður að þessu lykilverkefni.
Takist það þá er framtíð íslenskrar ferðaþjónustu björt.
[:]