[:IS]Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair Group
Í kjölfar mikils vaxtarskeiðs íslenskrar ferðaþjónustu á undanförnum árum, hefur aldrei verið mikilvægara en nú að staldra við og vinna að heildstæðri stefnu fyrir greinina – um hvernig við ætlum að skapa virði í ferðaþjónustunni til framtíðar. Lykillinn að árangri er gott samstarf ferðaþjónustuaðila, stórra og smárra, og er SAF mikilvægur vettvangur þess samstarfs. Ég býð mig fram til stjórnar SAF fyrir hönd Icelandair Group til að taka þátt í þessu góða samstarfi og til að leggja okkar að mörkum í að gæta sameiginlegra hagsmuna okkar sem í greininni störfum. Ísland hefur mikið aðdráttarafl sem ferðamannastaður og okkur eru allir vegir færir ef við höldum rétt á spilunum, fylgjum sameiginlegri stefnu, og tölum einni röddu.
Ég er upplýsingafulltrúi Icelandair Group og stýri samskiptamálum og uppbyggingu samfélagsábyrgðar hjá félaginu. Ég hef brennandi áhuga á ferðaþjónustunni og tel að 15 ára reynsla mín af stjórnun almannatengsla, kynningarmála og samfélagsábyrgðar á Íslandi og á alþjóðavettvangi geti nýst samtökunum vel við að koma hagsmunamálum sínum markvisst á framfæri við stjórnvöld, fjölmiðla og almenning í landinu. Áður starfaði ég m.a. sem sviðsstjóri samskiptasviðs hjá Actavis (2013-2016), Bakkavör (2005-2011) og hjá Háskólanum í Reykjavík (2003-2005). Þá hef ég einnig starfað sjálfstætt sem ráðgjafi. Ég lærði þýsku og spænsku við háskólana í Heidelberg í Þýskalandi og Salamanca á Spáni og útskrifaðist með BA gráðu í almannatengslum frá Mount Saint Vincent University í Kanada árið 2001.[:]