Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða – Reykjavik Excursions
Kæru félagar í SAF,
Ég heiti Björn Ragnarsson og er viðskiptafræðingur að mennt. Ég hef víðtæka reynslu af rekstri ma. úr ferðaþjónustu en frá 1999-2007 var ég fjármálastjóri Bláa Lónsins og frá 2007-2010 framkvæmdastjóri Avis/Budget bílaleigunnar.
Ferðaþjónustan er undirstöðuatvinnugrein og aflar stærsta hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar. Upp á síðkastið hefur rekstrarumhverfi, samkeppnisstaða og afkoma fyrirtækja í greininni versnað til muna. Þessa dagana beina stéttarfélög verkfallsaðgerðum sínum að fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem fylgja lögum og reglum á íslenskum vinnumarkaði með ófyrirséðum skaða. Þá er kaldhæðnislegt að aðgerðirnar eru vatn á myllu starfsemi þeirra aðila sem ekki fylgja lögum og kjarasamningum. SAF hefur unnið hörðum höndum í að reyna að koma böndum á þessa ólöglegu starfsemi en ljóst er að stjórnvöld og þar til bærar stofnanir hafa ekki sinnt sínu hlutverki í þessum efnum. Það er því ekki vanþörf á að halda áfram að vekja athygli stjórnvalda á stöðu greinarinnar og vinna stefnumótun til framtíðar.
Ísland á að vera áfram eftirsóknarverður áfangastaður sem býður upp á einstaka náttúrufegurð og eftirminnilega upplifun fyrir okkar gesti. Öll erum hluti af þessari upplifun og kappkostum að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu með áherslu á gæði og fagmennsku. Umgjörð greinarinnar þarf að styðja við þessar áherslur og SAF sinnir lykilhlutverki í þessari vegferð.
Ég vil leggja mitt af mörkum til að vinna að hagsmunum ferðaþjónustunnar og býð mig því fram til stjórnar SAF.