[:IS]
Ferðalög – lýsandi hagvísar
Viðbragð Íslendinga vegna veikari krónu og lægri ráðstöfunartekna á árunum eftir hrun, kom skýrt fram í minni eftirspurn eftir ferðalögum til annarra landa. Verð á erlendum gjaldeyri hækkaði um 42% milli ára 2008 og aftur um 34% 2009. Fækkun í fjölda ferða var ekki eins snörp og lækkun útgjalda á erlendum áfangastöðum, ferðum fækkaði um 36% en útgjöldin lækkuðu um 84% á árunum 2008 og 2009.
Innflutningur á ferðaþjónustu
Hagvöxtur undanfarin ár hefur einkennst af miklum vexti ferðaþjónustu hér á landi, sem rekja má til mikillar eftirspurnar erlendra ferðamanna eftir innlendri ferðaþjónustu. Áhugi erlendra ferðamanna hefur skilað sér í háu atvinnustigi, miklum launahækkunum, afgangi á viðskiptum við útlönd, hækkandi eignatekjum og síðast en ekki síst erlendum gjaldeyri sem er til ráðstöfunar til að flytja inn vörur og þjónustu. Það var þó nokkuð ljóst að með tíð og tíma myndi þessi mikla erlenda eftirspurn hækka verð með tilheyrandi sterkari gengi, verri samkeppnisstöðu og minni vexti í eftirspurn á erlendum mörkuðum. Það var jafnframt nokkuð fyrirsjáanlegt að „metár í komum erlendra ferðamanna til landsins“ myndi leiða til „metára“ í ferðalögum Íslendinga til annarra landa. Samfara hækkandi ráðstöfunartekjum, lágum flugfargjöldum og sterkri krónu hefur hvert metárið rekið annað í fjölda ferða Íslendinga til annarra landa.
Mynd 2 rekur þetta vel. Fyrst eftir hrun vaxa útgjöld hægar en fjöldi ferða. Með batnandi lífskjörum, eftir samfellt níu ára hagvaxtartímabilið, kemur ekki á óvart að meðalútgjöld í ferð hafi í fyrra verið viðlíka og þau voru uppgangsárin 2005-2007 (311 þúsund kr.) eða um 300 þúsund kr. í ferð, án flugfarggjalda.
Aldrei fleiri farið til útlanda
Hærri útgjöld Íslendinga eiga sér sennilega margar skýringar, en meðaldvalarlengd skiptir þar mestu. Íslendingar dvelja að meðaltali um 19 nætur [1] í utanlandsferð en meðaldvalarlengd erlendra ferðamanna hér á landi voru 6,3 dagar í fyrra.[2] Kaup Íslendinga á flugmiðum með erlendum fyrirtækjum námu um 9 milljörðum kr. í fyrra, en sérstaða Íslands þegar kemur að farmiðakaupum til útlanda er að þeir velja að ferðast með innlendum flugfélögum. Þetta getur þó verið að breytast.
Samkeppnishæfni
Innlend fyrirtæki í ferðaþjónustu starfa í harðri alþjóðlegri samkeppni um erlenda ferðamenn, en hún er ekki síður til staðar þegar kemur að ferðalögum Íslendinga – þar er eftir nokkru að slægjast.
Samtök ferðaþjónustunnar óska öllum ferðalöngum góðrar ferðar um páskana!
_________________________
[1] Ferðamálastofa, könnun meðal Íslendinga um ferðalög þeirra á árinu 2017 og ferðaáform 2018.
[2] Ferðamálastofa, mælaborð.
[3] Hagstofa Íslands, ferðaþjónustureikningar.
[:]