Verkefnið Vopn gegn vændi og kynlífsmansali er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Samtaka ferðaþjónustunnar.
Verkefnið byggir á fræðsluefni fyrir hótel og gististaði um vændi og kynlífsmansal. Markmiðið með gerð efnisins er að starfsfólk hótela, gististaða og veitingastaða þekki einkenni vændis og kynlífsmansals og tilkynni það til lögreglu ef grunur leikur á að slíkt fari fram á staðnum. Fræðsluefnið var unnið af nemum í MPM náminu við Háskólann í Reykjavík í samvinnu við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg og Samtök ferðaþjónustunnar.
Að verkefninu unnu þær Stella Sif Jónsdóttir, Ísól Fanney Ómarsdóttir, Þórgunnur Jóhannsdóttir, Ágústa Ýr Sveinsdóttir, Ingunn Þorvarðardóttir, Bryndís Ósk Björnsdóttir sem eru nemendur við Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er hluti af áfanga sem kallast „Raunhæft verkefni“ og átti verkefnið að snúa að samfélaginu á einhvern hátt.
Fræðsluefnið inniheldur fyrirlestur ásamt myndböndum og efni til að stilla fram á hótelum og gististöðum. Í fræðsluefninu er að finna myndbönd sem framleidd voru af sænsku lögreglunni og evrópsku samtökunum Real Stars. Í myndböndunum má sjá ólíkar aðstæður sem geta komið upp og eiga að kenna starfsfólki að bera kennsl á það hvort um sé að ræða kaupendur eða seljendur vændis.
Fyrirtæki í ferðaþjónustu geta nýtt efnið til að fræða sitt starfsfólk. Þá er einnig hægt að fá fyrirlesara á vegum SAF sem fer yfir kynningu á efninu. Hægt er að hafa samband í gegnum netfangið saf@saf.is fyrir nánari upplýsingar.
Fræðsluefnið:
Samtök ferðaþjónustunnar hvetja alla sem starfa í ferðaþjónustu til að láta sig málefnið varða og taka þannig þátt í að útrýma þeirri vá sem mansal og vændi er.
—
Ljósmynd: Fréttablaðið/Sigtryggur Ari[:]