Það hafa sannanlegar leikið alþjóðlegir straumar um Ísland undanfarin misseri. Litríkar tónlistar- og menningarhátíðir laða að og leiða saman innlenda og erlenda gesti; um allt land. Það gerir líka alþjóðleg samvinna en fyrir skömmu tók forsætisráðherra á móti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands á Þingvöllum sem sat árlegan sumarfund forsætisráðherra norðurlandanna ásamt hópi af norrænum forstjórum. Þá kom varaforseti Bandaríkjanna til landsins í vikunni.
Í tilgangi ferðalaga felast tækifærin
Allt hefur þetta góð áhrif á ferðaþjónustu landsins en viðburða- og viðskiptatengd ferðamennska (M.I.C.E.) er talin arðbærari en mörg annarskonar ferðamennska. Það gildir líka um menningar- og sögutengda ferðamennsku, bað- og matarmenningu en þar hefur átt sér stað góð og árangursrík vöruþróun á undanförnum árum. Í Evrópu eru það t.a.m. Þýskaland, Frakkland og Svíþjóð sem eru ráðandi í „heilsuferðamennsku“. Vöruúrval og fjölbreytileiki á útflutningsmörkuðum er eftirsóknarverður; það dregur úr áhættu af eftirspurnarskelli. Velgengni í ferðaþjónustu undanfarin ár felst ekki síst í því að hún hefur einmitt gert það; aukið fjölbreytni í útflutningi þjóðarinnar og stutt við aðrar atvinnugreinar sem hafa gefið af sér nýjar útflutningsafurðir.
Fjölbreytileiki í „tilgangi ferðar“ meðal erlendra ferðamanna er eftirsóknarverður. Í nýjum tölum frá Ferðamálastofu kemur fram að 88% erlendra ferðamanna segja að megintilgangur Íslandsferðar (ágúst 2018 – júlí 2019) hafi verið frí og um 3% verið viðskiptatengdur.
Fjölbreytni í útflutningi er eftirsóknarverður
Á heimsvísu er „frí“ jafnframt algengasti tilgangur ferðar meðal erlendra ferðalanga um heiminn eða í 53% tilfella, 13% eru á ferðalagi vegna viðskipta en í 27% tilvika eru þeir að heimsækja vini og ættingja, vegna trúarbragða, af heilsufarsástæðum o.s.frv. Eðli málsins samkvæmt hefur framboðin þjónusta og virði hennar á áfangastað mikið með samsetningu í tilgangi ferðar að gera.
Atvinnugreinin hefur víddir og vigt
Það kemur ekki á óvart að umræðan um stöðu ferðaþjónustunnar hefur verið nokkuð fyrirferðamikil undanfarin misseri. Ofan í hræringar í flugsamgöngum heyrast nú fréttir af meiri óvissu í alþjóðamálum og hægari hagvexti í heiminum, þar með talið í mikilvægum viðskiptalöndum ferðaþjónustunnar.
Umræða er gagnleg, hún dregur fram mikilvægi ferðaþjónustu sem atvinnugreinar hér á landi. Í nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 0,2% í ár og er það í fyrsta skipti frá árinu 2010 sem framleiðslan dregst saman milli ára. Samdrátturinn stafar einkum að samdrætti í ferðaþjónustu og þá aðallega í tekjum af flugrekstri en þær drógust saman um 28% fyrstu 6 mánuði ársins á föstu gengi. Á móti kemur að samdráttur í neyslu/útgjöldum erlendra ferðamanna á áfangastað er minni en menn gerðu ráð fyrir eða um 8% (á föstu gengi). Gert er ráð fyrir að áhrifin af samdrætti í ferðaþjónustu verði langvinnari, en í maí spá bankans er gert ráð fyrir að hagvöxtur nái sér á strik aftur á árinu 2021 en gert er ráð fyrir 2,7% hagvexti á því ári.
Umræðan dregur jafnframt vel fram að atvinnugreinin hefur margar víddir. Í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála yfir ferðavenjur erlendra gesta í fyrra (2018) kemur fram að ferðavenjur og útgjöld erlendra gesta voru talsvert ólík eftir stöðum og landssvæðum. Munurinn lá í tilgangi eða ástæðum heimsóknar, dvalartíma og neyslumynstri gesta. Fjöldi ferðamanna segir ekki alla söguna. Framboðin þjónusta, varan/segullinn, dvalartíminn og kaupmáttur gjaldmiðla skiptir líka miklu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er það virðisaukinn sem verður til vegna neyslu ferðamanna, innlendra og erlendra sem skiptir höfuðmáli. Þá þarf rekstrarumhverfið að vera samkeppnishæft, innviðir traustir og góðir og þjónustan til fyrirmyndar
Rekstrarskilyrðin þurfa að vera í samræmi við okkar helstu samkeppnislönd
Ferðaþjónusta á mikið undir stöðu og horfum í viðskiptalöndum
Í nýjum upplýsingum frá Hagstofu Íslands kemur fram að þrátt fyrir 12,4% fækkun erlendra ferðamanna milli ára, á fyrstu 6 mánuðum ársins, standa tekjur af eftirspurn þeirra hér á landi nokkurn veginn í stað í íslenskum krónum. Þannig námu tekjur á fyrstu 6 mánuðum ársins 149,4 milljörðum kr. (án flugfargjalda) borið saman við 149,5 milljarða á sama verðlagi í fyrra. Til samanburðar námu tekjur af útfluttum sjávarafurðum 128 milljörðum kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins og á áli um 121 milljarði kr. Hallinn á vöruskiptajöfnuði nam um 40 milljörðum kr. á fystu 6 mánuðum ársins en afgangur á þjónustujöfnuði nam rúmum 82 milljörðum kr. Afgangur á vöru- og þjónustujöfnuði var um 42 milljarðar kr.
Þjónustujöfnuður heldur uppi afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum
Á fyrri helmingi ársins, hækka meðalútgjöld á erlendan ferðamann (um Keflavík) um rúm 14%. Hér að baki eru auðvitað alls konar skýringar en sennilega vegur þyngst að á fyrstu 6 mánuðum ársins veiktist íslenska krónan um 12% milli ára. Verð á krónu lækkaði um rúmlega 11% samkvæmt viðskiptavog. Á sama tíma lækkaði verð á gistingu um tæplega 6%; kaupmáttur erlendra ferðamanna, á gistingu hækkar þannig að meðaltali um 16%. Vegna lægra nafngengis hefur raungengið smám saman verið að lækka sem ætti að styrkja samkeppnistöðu landsins.
Svipaða þróun er hægt að sjá í gistitölum Hagstofunnar. Á fyrri helmingi ársins fækkar gistinóttum á hótelum og gistiheimilum um 1,8% milli ára og gistinóttum alls um 3,3%. Velta á hótelum og gistiheimilum fyrstu 4 mánuði ársins stóð nokkurn veginn í stað milli ára. Vert er að hafa í huga að breytt samsetning á gistinóttum, úr heimagistingu yfir í hótel og gistiheimili hefur líka haft áhrif á skil á upplýsingum um veltu til hins betra.
Eins og undanfarin ár eru það bandarískir ferðamenn sem hópur sem skilar mestum tekjum til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Á fyrstu 6 mánuðum ársins fækkar þeim um tæp 27% en gögn samkvæmt kortaveltu sýna að meðalútgjöld hækka um 41% – þrátt fyrir 17% styttri dvalarlengd, úr 9,5 í 7,9 nætur. Á móti kemur að fyrir Bandaríkjamenn lækkar verð á ISK um tæp 16%.
Meðalútgjöld á hvern erlendan ferðamanna í ISK hækka um rúm 14%
Á fyrstu 6 mánuðum ársins fækkar breskum ferðamönnum um tæp 12% en kortaveltan eykst um 27% og dvalarlengd um rúmlega 8%; pundið styrktist gagnvart íslenskri krónu um rúmlega 10% sem er hvati til að dvelja lengur. Á myndinni hér að neðan má jafnframt sjá að þýskum ferðamönnum fækkar minnst frá þessum þrem mikilvægustu markaðssvæðum. Kaupmáttur evrunnar jókst um tæp 10% og dvölin á landinu um tæp 4%.

Bandarískir ferðmenn eru mikilvægur markaður
Erlendir ferðamenn eru alls konar
Það er því varasamt að tala um þróun í ferðaþjónustu sem atvinnugreinar með blindri trú á upplýsingar um fjölda erlendra ferðamanna til landsins. Ferðamenn eru allskonar og það er mikilvægt að þekkja breiðu línurnar, hvert er vöruframboðið, hvar vilja fyrirtækin vaxa og síðast en ekki síst; hvar er virðisaukinn mestur. Horft til framtíðar þurfa rannsóknir á því að vera undirstaða frekari vaxtar. Einn helsti ávinningur af vexti ferðaþjónustu undanfarin ár hefur sennilega runnið í vasa hins almenna launamanns. Mismunandi ferðamenn kalla á mismunandi innviði og þá er mikilvægt að þekkja til hlítar hvaða markaðir eru verðmætastir á breiðum grunni. Eftirspurn Íslendinga eftir erlendri og innlendri ferðaþjónustu skiptir líka máli þegar verið er að meta ávinning atvinnugreinarinnar. Ferðaþjónustureikningar hafa það hlutverk.
Árangurinn á að koma fram í tölfræðinni
Þrátt fyrir verðlækkun og veikingu krónunnar er ferðaþjónusta á áfangastaðnum Íslandi enn dýr í alþjóðlegum samanburði en laun hafa hækkað mikið undanfarin misseri sem er sérstaklega íþyngjandi fyrir vinnuaflsfrekar atvinnugreinar, vextir eru háir (þótt þeir séu lágir í sögulegu samhengi) í alþjóðlegum samanburði, fasteignagjöld líka. Það eru nefnilega alls konar skilyrði sem þurfa að raðast saman til að rekstur í alþjóðlegri starfsemi skili arði/góðum virðisauka og sjálfbærum vexti til langs tíma.
Ferðaþjónusta tengir saman fólk og alþjóðlega markaði
Stórar alþjóðlegar ráðstefnur og tónleikahátíðir eiga að draga fram hagræn áhrif „nýrra“ atvinnugreina eins og ferðaþjónustu og skapandi greina. Ferðaþjónusta tengir saman fólk og alþjóðlega markaði. Á fundi forsætisráðherra með okkar helstu vinaþjóðum var tilgangurinn að ræða mikilvægustu mál samtímans m.a. loftslagsmál og alþjóðleg viðskipti til að skapa leið til samstarfs í framtíðinni. Áhugi umheimsins á norðurslóðum leynir sér ekki, þar eru sannarlega tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu í samvinnu við nágrannaþjóðir okkar. Jökullinn Ok er horfinn, það vakti heimsathygli, enda sýna kannanir að það er íslensk náttúra sem er aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.
Ferðaþjónusta tengir saman fólk og alþjóðlega markaði
Ferðaþjónusta hefur alla burði til að vera sjálfbær atvinnugrein og styðja við sjálfbært atvinnulíf sem styrkir og styður við áframhaldandi hagsæld. Það gerir hún best í alþjóðlegri samvinnu þar sem hægt er að stilla saman hagræn, umhverfis-, og félagsleg markmið. Það getur verið flókið orsakasamhengi á velgengni atvinnugreina til langs tíma, ferðaþjónusta er þar engin undantekning. Atvinnugreinin á í harðri alþjóðlegri samkeppni og þarf að búa við viðlíka starfsskilyrði og þekkist annarstaðar. Ferðaþjónusta snýst um ramma og liðsheild. Þar hafa margir verk að vinna.
Vilborg Helga Júlíusdóttir, hagfræðingur SAF