Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020 kemur m.a. fram að í frumvarpinu er engin umfjöllun um þá óvissu sem nú ríkir í ferðaþjónustu hér á landi undir málaflokki hennar. Áherslan er á stór áform og langtímastefnumótun í ferðaþjónustu, sem Samtök ferðaþjónustunnar fagna, enda hafa samtökin tekið fullan þátt í vinnu við stefnumótunina. En ljóst er að eigi markmið svo metnaðarfullrar stefnumótunar að raungerast er þörf á að stjórnvöld láti þess merki sjást í forgangsröðun fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs með mun skýrari hætti en hingað til. Lykilverkefni í því sambandi er að styrkja stoðkerfi atvinnugreinarinnar – gagnaöflun, rannsóknir, markaðs- og kynningarmál, stjórnsýslu – í gegn um framlög til málefnasviðs ferðaþjónustu.
Þegar útgjöld til málefnasviðs ferðaþjónustunnar á tímabilinu 2016 -2019 eru borin saman við önnur mikilvæg atvinnutengd málefnasvið sést að framlög til ferðaþjónustu eru bæði áberandi lægst að krónutölu og að niðurskurður til málefnasviðs ferðaþjónustu er hlutfallslega mestur. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að útgjöld til verkefna og stofnana innan málaflokksins verði rúmlega 2 milljarðar kr. árið 2020. Lækkun milli ára skýrist af lækkun á framlagi til Flugþróunarsjóðs en SAF hafa ítrekað bent á að fjármagn sem ekki nýtist í sjóðnum ætti að nýta í önnur brýn verkefni innan málefnasviðsins frekar en að hverfa þaðan.
Áformuð útgjöld árið 2020 eru lítið hærri en árið 2016 og framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða hafa ekki verið lægri frá árinu 2015. Það vekur athygli að þrátt fyrir mikinn vöxt í ferðaþjónustu undanfarin ár bera útgjöld til málaflokksins þess ekki merki. Til samanburðar aukast útgjöld til annarra mikilvægra atvinnugreina á tímabilinu, en mynd 2 sýnir að hlutfallslega eru fjárveitingar til ferðamála minni en til annarra atvinnutengdra málaflokka. Nú þegar töluverð óvissa ríkir um innanlenda efnahagsþróun er einnig tækifæri að ráðast í fjárfestingar, t.d. á rafhleðslustöðvum og öðrum viðeigandi innviðum í þágu ferðaþjónustunnar sem fara vel saman við önnur mikilvæg markmið í umhverfismálum. Ljóst er að framlög til ýmissa annarra málefnasviða nýtast uppbyggingu í ferðaþjónustu, s.s. samgöngur og framlög til fjárfestinga í þjóðgörðum. Óumdeilanlegt er þó að eiginlegt stoðkerfi atvinnugreinarinnar afmarkast af málefnasviði ferðaþjónustu eins og áður segir. SAF benda á að tafla 9 í ferðaþjónustureikningum (e. Tourism Satellite Account) gefur betri mynd af útgjöldum ríkisins til ferðaþjónustu. Ferðaþjónustureikningar eru hins vegar ekki gerðir að fullu hjá Hagstofu Íslands eins og staðan er í dag, m.a. vegna takmarkaðra fjárveitinga.
Að mati SAF mætti draga þá ályktun af myndunum að annað hvort sé talin minni þörf eða minni áhugi á að styðja við verðmætasköpun í ferðaþjónustu en í öðrum mikilvægum atvinnugreinum. Þegar haft er í huga hversu há hlutdeild ferðaþjónusta er í vergri landsframleiðslu (8,6% árið 2017) í samanburði við aðrar atvinnugreinar sætir furðu sú áhersla stjórnvalda sem birtist í frumvarpinu.
Aukin framlög styðja við framtíðarsýn
Mikilvægi ferðaþjónustu, óvissa um horfur og markmið framtíðarsýnar og stefnumótunar stjórnvalda gefa tvímælalaust tilefni til þess að sá stuðningur sem greinin nýtur af hendi ríkisins verði breikkaður og hann færður framar í forgangsröð en endurspeglast í frumvarpinu. Í því samhengi er rétt að taka fram að SAF eru þeirrar skoðunar að ríkið gegni jafnan tvenns konar hlutverki í blönduðum hagkerfum, annars vegar hlutverki reglusetjara, sem einnig hlutast til um að einkageirinn fari eftir settum leikreglum, og hins vegar nokkurs konar stuðningshlutverki, þ.e. þegar það fæst við mótun stefnu og aðgerða sem stuðla að hagvexti og heilbrigðri auðlindanýtingu. Einkageirinn stendur aftur á móti undir meginhluta hagvaxtar. Ríkið gegnir afar mikilvægu hlutverki sem það verður að taka alvarlega. Þegar útgjöld til einstakra málaflokka eru skoðuð blasir hins vegar við sú mynd að útgjöld til málaflokksins ferðaþjónustu eru enn af skornum skammti í samanburði við útgjöld til annarra málaflokka einstakra atvinnugreina.
Bæði stjórnvöld og SAF hafa sett sér það markmið að virðisauki að baki hverjum ferðamanni verði sem mestur. Það verður því eitt brýnasta verkefni beggja aðila á næstunni að skilgreina aðgerðir og óvefengjanlega mælikvarða sem geta fært ferðaþjónustuna nær því markmiði. Þó að segja megi að ferðaþjónustan gangi um þessar mundir í gegnum aðlögun í ýmsum skilningi er afar mikilvægt fyrir rekstraraðila og stjórnvöld að koma auga á þau tækifæri sem kunna að vera til staðar. Ekki er tímabært að lýsa yfir varnarsigri. Nokkur stór fyrirtæki starfa á sviði ferðaþjónustu en mikill meiri hluti ferðaþjónustufyrirtækja eru þó lítil og meðalstór. Það gefur auga leið að lítil fyrirtæki eiga mun erfiðara með að leggja bæði vinnu og fé í greiningu tækifæra og veikleika, mótun framtíðarstefnu og markaðssetningu. Framlag þeirra við öflun gjaldeyristekna er hins vegar verulegt. Því ríður á að stjórnvöld og SAF stilli saman strengi sína og leggi verulega af mörkum bæði til að treysta núverandi stöðu og byggja upp til framtíðar.
Ný lög um opinber fjármál tóku gildi 1. janúar 2016. Lögin eiga að fela í sér festu í opinberum fjármálum, stuðla að bættri hagstjórn, hagkvæmari nýtingu mannafla, fjármagns og auðlinda. Nýju lögin leggja aukna ábyrgð á ráðherra hvers málefnasviðs að fjárheimildum fylgi skýr, einföld og markviss markmið um áherslur hverju sinni. Þau leggja áherslu á mikilvægi þess að greina frá breyttum aðstæðum, óvissu og áhættum í hverjum málaflokki fyrir sig, sérstaklega ef líkur eru á að þær geti haft áhrif á afkomu ríkissjóðs til skamms og langs tíma. Aðilar í ferðaþjónustu eiga að geta nýtt sér fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlög ekki eingöngu til að átta sig á pólitískum áherslum heldur líka hvort verið sé að bregðast við breytingum í ytra og innra umhverfi sem geta haft áhrif á málaflokkinn. Liður í því er að framsetning upplýsinga sé gagnsæ og skilmerkileg. Uppýsingar um útgjöld eru sett fram samkvæmt GFS staðli í rekstarframlög og tilfærslur, fjármagnstilfærslur og fjárfestingarframlög.