Í gær var nýtt íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki kynnt á blaðamannafundi í Perlunni. Þetta boðaða flugfélag er eitt af fjölmörgum fyrirtækjum sem hafa trú á Íslandi sem áfangastað og vilja taka þátt í uppbyggingu ferðamannalandsins til framtíðar.
Á undanförnum tíu árum hefur ferðaþjónustan byggst upp í lykilatvinnugrein á undraverðum hraða. Það hefði ekki verið mögulegt nema fyrir elju, þor og þrautseigju ferðaþjónustufyrirtækja, jafnt þeirra eldri og staðfastari sem og frumkvöðla. Öll fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi hafa hins vegar staðið frammi fyrir sífellt flóknara rekstrarumhverfi á undanförnum árum.
Hækkun launakostnaðar, neysluvísitölu og byggingarvísitölu og íþyngjandi regluverk hafa þrengt að rekstrargrundvelli og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Þá hefur styrking krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum verið erfið fyrirtækjum í útflutningsgrein eins og ferðaþjónustu sem selja langt fram í tímann í erlendri mynt. Afleiðingin er sú að rekstrarforsendur fyrirtækja eru ákaflega erfiðar í mörgum greinum ferðaþjónustunnar í dag.
Á ferðaþjónustudeginum í byrjun október kom fram að of algengt sé að alþingismenn líti á fyrirtæki sem óþrjótandi hlaðborð fyrir tekjuöflun ríkissjóðs. Þar kom einnig fram hávært ákall frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu um að ríki og sveitarfélög taki þegar í stað skýr skref til að draga úr opinberum álögum á fyrirtæki og einfalda regluverk til að liðka fyrir uppbyggingu þeirra og auka samkeppnishæfni. Tvennt var sérstaklega nefnt í því sambandi; annars vegar lækkun tryggingagjalds umfram núverandi áform og hins vegar lækkun fasteignaskatta á atvinnurekstur.
Slíkar aðgerðir myndu skila sér í betri rekstri, hærra atvinnustigi, betri afkomu og aukinni samkeppnishæfni fyrirtækja, stórra og lítilla. Það er hins vegar sérstök ástæða til að benda á að rúmlega 80% íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja eru örfyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða, með aðeins 10 starfsmenn eða færri. Slík fyrirtæki bera sérstakan hag af lækkun opinberra gjalda og einföldun regluverks þar sem svo litlum fyrirtækjum getur reynst enn erfiðara en þeim stærri að byggja upp hæfni starfsfólks, gæði þjónustu, þekkingu og sérhæfingu innan fyrirtækisins, t.d. í markaðssetningu.
Samkvæmt nýútkominni skýrslu World Economic Forum um samkeppnishæfni ferðaþjónustulanda 2019 hefur Ísland fallið stöðugt niður listann undanfarin ár og þegar samkeppnishæfni í verði ferðaþjónustuvara er mæld sérstaklega situr Ísland nú í 138. sæti af 140 ríkjum. Það er morgunljóst að allar aðgerðir hins opinbera sem lagfært geta þessa stöðu upp á við eru afar mikilvægar. En það er jafn ljóst að Ísland þarf að keppa á grundvelli þar sem við eigum skýra möguleika. Það er erfitt fyrir okkur að keppa í verði en við eigum mikla möguleika á að auka samkeppnishæfni okkar í gæðum og fagmennsku. Staðreyndin er hins vegar sú að fyrirtæki – sérstaklega lítil fyrirtæki – sem neyðast til að eyða verðmætum tíma, mannafla og takmörkuðu rekstrarfé í eilífa baráttu við þéttspikaðan fjóspúka kostnaðar, reglufargans og opinberra gjalda hafa afar takmarkaða möguleika til að byggja upp þætti sem geta aukið samkeppnishæfni þeirra á þessum sviðum. Þess vegna er það lykilspurning til stjórnmálamanna hvernig þeir ætla að ýta undir nýsköpun og frumkvæði og aukin gæði og þar með verðmætasköpun í greininni.
Fyrirtækjarekstur gengur út á að skapa verðmæti. Þau verðmæti skila sér til starfsmanna fyrirtækisins, til eigenda þess og til samfélagsins í heild. Það er samfélagslega hagkvæmt fyrir hið opinbera að fjárfesta í nýsköpun og frumkvöðlastarfi og aukinni þekkingu og gæðum í ferðaþjónustu með því að auðvelda rekstrarumhverfi. Lítil og meðalstór fyrirtæki bera uppi verðmætasköpun í atvinnulífi hér á landi. Því er sérstaklega mikilvægt að teknar séu skýrar ákvarðanir um að einfalda regluverk og draga úr íþyngjandi álögum og skattheimtu á fyrirtækjarekstur. Slíkar ráðstafanir munu alltaf skila sér í heilbrigðara atvinnulífi, meiri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og þar með meiri ágóða samfélagsins í heild. Er það ekki verðugur málstaður að berjast fyrir?
Eftir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar
—
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum miðvikudaginn 6. nóvember 2019.