
Sjóböðin á Húsavík hljóta nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2019. Samtök ferðaþjónustunnar afhenda verðlaunin á afmælisdegi SAF, 11. nóvember ár hvert. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Sjóböðunum á Húsavík verðlaunin við hátíðlega athöfn á Center Hotels við Laugaveg í Reykjavík í dag.
SAF afhenda nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í sextánda skipti sem SAF veita nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar en þetta árið bárust 32 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin.
Hótel Ísafjörður og Icelandic Lava Show hlutu nýsköpunarviðurkenningu
Að þessu sinni ákvað dómnefnd nýsköpunarverðlaunanna að tilnefna þrjú fyrirtæki sem áttu kost á að hljóta verðlaunin, en auk Sjóbaðanna á Húsavík hlutu Hótel Ísafjörður og Icelandic Lava Show nýsköpunarviðurkenningu ferðaþjónustunnar árið 2019.


Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF og formaður dómnefndar nýsköpunarverðlaunanna, gerði grein fyrir niðurstöðu dómnefndar, en hana skipuðu auk hennar þau Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, og Helgi Þór Jónsson, eigandi Sponta og fulltrúi fyrirtækja innan SAF.
Sem fyrr endurspegla tilnefningarnar til nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru og var dómnefnd því ákveðinn vandi á höndum. Nefndarmenn voru þó einróma um að handhafi verðlaunanna í ár séu Sjóböðin á Húsavík.
Nýsköpun í formi upplifunar


Sjóböðin á Húsavík opnuðu síðla sumars árið 2018, en aðdragandinn er heldur lengri. Um miðja síðustu öld var borað eftir heitu vatni á Húsavíkurhöfða. Upp kom vatn, sem reyndist vera heitur sjór sem hentaði ekki til húshitunar. Í staðinn var komið fyrir gömlu ostakari, þar sem Húsvíkingar gátu baðað sig sér til heilsubótar við kjörhitastig. Á þessum grunni voru Sjóböðin á Húsavík sett á stofn. Nú geta gestir baðað sig á höfðanum við frábærar aðstæður. Vatnið er mjög heilsusamlegt, með mjög sérstöku efnisinnhaldi, sem sýnt hefur verið fram á að hefur góð áhrif á ýmis húðvandamál. Á meðan má svo njóta náttúru og ægifagurs útsýnis yfir Skjálfandaflóa og til fjalla.
Sjóböðin hafa fengið góðar viðtökur og fengið afar jákvæðar umsagnir bæði innlendra sem og erlendra gesta og hafa verið áberandi á samfélagsmiðlum. Eftir tilkomu Sjóbaðanna er það mál manna að ferðaþjónusta á Húsavík hafi tekið stórt stökk upp á við, þar sem þau hafa reynst sterkur segull allt árið um kring. Þau hafa án efa einnig mikla þýðingu fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í öllum landshlutanum.
Sjóböðin á Húsavík eru því verðskuldaðir handhafar nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar árið 2019.
Viljum styrkja áfangastaðinn Ísland til framtíðar
„Við erum ákafalega stolt að því að taka við þessum verðlaunum hér í dag,“ segir Jón Steindór Árnason, stjórnarformaður Sjóbaðanna á Húsavík. „Frá því við opnuðum dyrnar að Sjóböðunum í ágústlok árið 2018 hafa viðtökurnar verið frábærar. Við sjáum það strax á okkar fyrsta heila ári í rekstri hversu mikil og jákvæð áhrif verkefni eins og þetta hefur á ferðaþjónustuna. Þannig hafa innlendir og erlendir gestir verið duglegir að heimsækja okkur og er vöxturinn stöðugur og góður,“ segir Jón Steindór og bætir við að framtíðin í ferðaþjónustu er björt. „Við lítum á þessi verðlaun sem hvatningu til að halda áfram að byggja upp um allt land. Markmið okkar allra er að styrkja áfangastaðinn Ísland til framtíðar.“
Verðlaunin afhent í sextánda sinn
Er þetta í 16. skipti sem nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar voru afhent, en verðlaunahafar til þessa hafa verið:


- 2019 – Sjóböðin Húsavík
- 2018 – Bjórböðin
- 2017 – Friðheimar í Bláskógabyggð
- 2016 – Óbyggðasetur Íslands
- 2015 – Into The Glacier
- 2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
- 2013 – Saga Travel
- 2012 – Pink Iceland
- 2011 – KEX hostel
- 2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
- 2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
- 2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur, Hala í Suðursveit
- 2007 – Norðursigling – Húsavík
- 2006 – Landnámssetur Íslands
- 2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
- 2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan