Ívar Ingimarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Óseyri
Góðan daginn.
Ívar Ingimarsson heiti ég og er eigandi og framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Óseyrar sem staðsett er á Egilsstöðum.
Ég er búinn að sitja í stjórn í þrjú ár og hef áhuga á að starfa þar áfram fái ég til þess kosningu.
Samtök eins og þessi hafa margsannað sig og þá ekki síst í ástandi eins og nú er. Það hefur mætt mikið á starfsfólki skrifstofunnar, formanni og framkvæmdastjóra sem mér finnst öll hafa staðið sig frábærlega vel í þeirri baráttu sem er í gangi.
Innan samtakanna starfar líka fullt af flottu fólki sem hefur látið heyra í sér, vinna þessa fólks er að skila sér eins og sjá má á síðustu aðgerðum stjórnvalda.
Ég ákvað á sínum tíma að bjóða mig fram í stjórn SAF af því að mér fannst vanta að raddir utan að landi myndu heyrast þar og það finnst mér ennþá mikilvægt.
Ég er sammála þeim sem segja að ferðaþjónustan verði ekki eins eftir Covid19 en ég er líka á því að við eigum alveg að geta haldið okkar hlut þegar búið verður á ná tökum á veirunni og fólk fer að ferðast aftur. Tvær milljónir ferðamanna er ekki neitt og alls ekki þegar horft er til alls þess fjölda sem ferðast um heiminn.
Til að nýta tækifæri okkar sem best er mikilvægt að nýta landið allt og stuðla þannig að því að greinin geti orðið heilsárs allt í kringum landið.
Fyrir Covid19 sáum við ungu kynslóðina rísa upp og krefjast umbóta í umhverifmálum og orð eins og flugsamviskubit poppuðu upp, sú umræða mun ekki hverfa heldur bara aukast.
Landið okkar Ísland er þekkt fyrir hreinleika og fegurð, það er ástæða fyrir því að fólk kemur hingað, nýtum okkur það og leitum leiða til að vera í fararbroddi í umhverfismálum í heiminum, ekki bara af því það er göfugt takmark heldur vegna þess að það er viðskiptalega góð ákvörðun til framtíðar.
Gangi ykkur vel í baráttunni framundan!
Bestu kveðjur,
Ívar Ingimarsson