Unnur Svavarsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri GoNorth
Ég hef starfað í ferðaþjónustu alla mína starfsævi, hjá nokkrum mismunandi fyrirtækjum frá því ég byrjaði sem sumarstarfsmaður á eldhúsbíl sumarið 1984. Eftir háskólanám í jarðfræði hef ég verið í ýmsum stjórnunarstörfum, hjá ferðaskrifstofum, bílaleigu, dagsferðarfyrirtæki og flugfélagi.
Að loknu meistaranámi í verkefnastjórnun var komið að því að stofna eigin ferðaskrifstofu með áherslu á að þjónusta erlenda gesti sem koma til Íslands. Grunnur var lagður að GoNorth við upphaf eldgossins í Eyjafjallajökli vorið 2010 og hófst starfsemi þá um haustið. Á þeim tíu árum sem eru liðin frá því að GoNorth var stofnað höfum við vaxið upp í að vera í dag 9 stöðugildi.
Ég hef setið í Ferðaskrifstofunefnd SAF nokkrum sinnum og stundum verið formaður þeirrar nefndar. Ég ákvað að bjóða mig fram til stjórnar SAF áður en Covid-19 réðist að okkur, mig langar að leggja mitt af mörkum til framþróunar ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og ég ætla mér að ferðaþjónustan verði áfram minn starfsvettvangur eftir Covid-19.
Ég vil leggja mig fram við að hlusta á raddir allra félagsmanna SAF, vinna að því að við komum heil út úr þessum hörmungum og eigum skemmtilega framtíð. Ferðaþjónustan er fólk, við þurfum öll að standa saman.