
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veittu tvenn verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir um ferðamál á Íslandi. Elva Dögg Pálsdóttir og Sólveig Hulda Árnadóttir hlutu verðlaun fyrir BA-ritgerð sína í ferðamálafræði við Háskólann á Hólum og Íris Sigurðardóttir hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í stjórnun og stefnumótum, viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Tilkynnt var um verðlaunahafa á aðalfundi SAF sem fram fór með rafrænum hætti þann 6. maí en verðlaunin voru afhent í 15. sinn.
BA-ritgerð Elvu og Sólveigar nefnist Beint flug Super Break til Akureyrar. Væntingar farþega og upplifun. Ritgerðin fjallaði um áskoranir í uppbyggingu millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og viðhorf og væntingar ferðamanna í beinu flugi norður. Leiðbeinandi var Anna Vilborg Einarsdóttir lektor í ferðamálfræðideild Háskólans á Hólum.


MS-ritgerð Írisar nefnist Samfélagsábyrgð í ferðaþjónustu: Samþætting samfélagsábyrgðar við kjarnastarfsemi íslenskra fyrirtækja. Í ritgerðinni var kannað hvar íslensk ferðaþjónustufyrirtæki staðsetja samfélagsábyrgð í viðskiptalíkani sínu, hvernig fyrirtækin innleiða þætti samfélagsábyrgðar í kjarnastarfsemi sína og hvaða þættir hafa áhrif á þá framvindu. Leiðbeinandi Írisar var Margrét Sigrún Sigurðardóttir lektor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Báðar ritgerðirnar er að finna á skemman.is
María Guðmundsdóttir fræðslustjóri SAF, dr. Rannveig Ólafsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur RMF sátu í dómnefndinni.