Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra sem kveður á um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti hefur verið birt á vef Alþingis, en frumvarpinu er ætlað að koma til móts við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegri fjárhagslegri röskun á atvinnurekstri vegna COVID-19. Markmið stuðningsins er að draga úr líkum á fjöldagjaldþrotum fyrirtækja og tryggja réttindi launafólks.
- Stuðningurinn nemur að hámarki 85% af launakostnaði starfsmanns á uppsagnarfresti.
- Að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa
- Að hámarki 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda
- Að hámarki 1.014.000 kr. vegna orlofslauna sem launamaður kann að eiga rétt á, fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir hlutastarf.
- Stuðningurinn er veittur á samningsbundnum uppsagnarfresti starfsmanns, þó aldrei lengur en í þrjá mánuði.
Lesa má frumvarpið í heild og fylgjast með ferli málsins á vef Alþingis.
Vakin er athygli á því að samkvæmt skilyrðum sem sett eru fram í frumvarpinu þarf meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda að hafa dregist saman um amk. 75% frá 1. mars 2020 miðað við eitt af fjórum viðmiðunartímabilum, sem skilgreind eru í 4. grein frumvarpsins:
4. gr.
Skilyrði.
Atvinnurekandi sem uppfyllir öll eftirtalin skilyrði getur óskað eftir stuðningi úr ríkissjóði vegna greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfresti, sbr. 5. gr.:1. Hann sagði viðkomandi launamönnum, sem ráðnir höfðu verið fyrir 1. maí 2020, upp störfum vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna faraldurs kórónuveiru.
2. Meðaltal mánaðartekna hans frá 1. mars 2020 og til uppsagnardags hefur dregist saman um a.m.k. 75% í samanburði við eitt af eftirtöldu:
a. meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið áður,
b. meðaltal mánaðartekna júní, júlí og ágúst árið áður,
c. meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020, eða
d. meðaltal mánaðartekna á tímabilinu 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020.3. Hann hefur eftir 15. mars 2020 ekki ákvarðað úthlutun arðs, lækkað hlutafé með greiðslu til hluthafa, keypt eigin hluti, innt af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna. Jafnframt skuldbindur hann sig til að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrr en fjárstuðningurinn hefur að fullu verið tekjufærður skv. 8. gr. eða endurgreiddur skv. 9. gr.
4. Hann er ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Hann hefur staðið skil á skattframtölum og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga,
nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.5. Hann hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.
https://www.althingi.is/altext/pdf/150/s/1424.pdf