Annar fasi sameiginlegs kynningarátaks stjórnvalda og atvinnulífs hefst í dag en í átakinu er áhersla lögð á að verja störf og auka verðmætasköpun á Íslandi. Fyrri fasi átaksins hófst síðastliðið vor. Markmiðið með átakinu er að efla vitund landsmanna um neysluhegðun og útskýra þau keðjuverkandi áhrif sem verða þegar við veljum innlenda þjónustu og skiptum við innlend fyrirtæki.
Á vefnum gjoridsvovel.is er hægt að nálgast upplýsingar um átakið. Þar kemur meðal annars fram að íslensk fyrirtæki hafi til mikils að vinna, sérstaklega um þessar mundir. Ef nógu margir kjósi að eiga viðskipti innanlands geti það haft þýðingarmikil áhrif á efnahagskerfið, tryggt lífskjör, varið störf og eflt atvinnustarfsemi. Þess vegna sé mikilvægt að við tökum okkur saman og að sem flest fyrirtæki taki þátt í átakinu. Þannig náum við mestum árangri.
Hér er hægt er að horfa á kynningu á átakinu með lykilorðinu: aframisland. Þar eru fyrirtæki hvött til að taka virkan þátt, vekja viðskiptavini sína til umhugsunar og hvetja sem flesta til að velja innlenda þjónustu. Þeim mun fleiri sem taki þátt, þeim mun sýnilegra, víðtækara og áhrifaríkara verði átakið.