Ríkisstjórn Íslands tilkynnti í dag aðgerðapakka til að stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í tengslum við Lífskjarasamninginn. Koma þessa tillögur til eftir samtöl við aðila vinnumarkaðarins á síðustu dögum.
Tillögurnar sem eru í átta liðum má finna á vef Stjórnarráðs Íslands.
Samtök ferðaþjónustunnar vilja vekja athygli á tillögu um fjárstuðning við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna COVID-19. Í tillögunni er horft til þess að hægt sé að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og með því eru viðskiptasambönd varðveitt og viðbúnaður tryggður.
Tillagan er ekki útfærð, en gert er ráð fyrir að styrkir geti numið um 6 milljörðum króna og áætlanir þar að lútandi verði undirbúnar á næstu vikum og lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en við framlagningu frumvarps til fjáraukalaga. Tillöguna í heild sinni má lesa hér að neðan.
Fjárstuðningur við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins
Þegar hafa verið lögfest margháttuð úrræði til stuðnings atvinnustarfsemi. Má þar nefna hlutastarfaleið, greiðslu launa í uppsagnarfresti, lokunarstyrki, viðbótar- og stuðningslán, greiðsluskjól og ríkisábyrgðir. Fjármálafyrirtæki hafa jafnframt fengið stóraukið svigrúm til að standa við bakið á rekstraraðilum. Mikilvægt er að þessi úrræði komist að fullu til framkvæmda.
Stjórnvöld hafa að undanförnu og í kjölfar hertra sóttvarnaráðstafana hugað sérstaklega að stöðu þeirra rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins með það fyrir augum að tryggja eins og nokkur er kostur að fyrir hendi sé sú geta sem nauðsynleg er til að stuðla að kröftugri viðspyrnu þegar úr rætist. Verður horft til þess að veita beina styrki til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir tekjuhruni vegna COVID-19 faraldursins. Með slíkum styrkjum er horft til þess að hægt sé að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og með því eru viðskiptasambönd varðveitt og viðbúnaður tryggður. Gert er ráð fyrir að styrkir geti numið um 6 milljörðum króna. Miðað er við að áætlanir þar að lútandi verði undirbúnar á næstu vikum og lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en við framlagningu frumvarps til fjáraukalaga.