
Formaður SAF
Nýliðin mánaðamót voru hin sjöundu frá því að kórónuveirukreppan skall á. Eins og allir vita, þá fékk ferðaþjónustan þungt högg strax í upphafi, örlítið súrefni og vonarglætu í fimm til sex vikur í sumar og síðan rothögg, þann 19. ágúst síðastliðinn. Á þessu tímabili hefur óvissan verið allsráðandi og fært eigendum, stjórnendum og starfsmönnum ferðaþjónustufyrirtækja áður óþekkt og nánast bara erfið verkefni.
Ferðaviljinn og ferðaþráin enn til staðar
Þessi mánaðamót marka tímamót hjá mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum. Starfsfólkið er búið að vinna af sér uppsagnarfrestinn og farið heim. Atvinnuleysið ekki bara yfirvofandi og ekki bara tölur á blaði heldur bláköld staðreynd. Eftir sitja eigendur fyrirtækjanna og/eða stjórnendur þeirra og í besta falli en alls ekki alls staðar, örfáir lykilstarfsmenn. Framundan ennþá óvissan, sem er orðin að nagandi og alltumlykjandi veruleika þessa fólks. Á meðan á þessu gengur er rætt um viðspyrnu, atvinnusköpun og hvaða aðferðir séu bestar til að auka hagvöxt á ný. Mönnum er tíðrætt um „fjórðu stoðina“, hugvit og nýsköpun, sem er frábært – en er ekki lausn á þeim bráðavanda sem við blasir.
Sú viðspyrna, atvinnu- og verðmætasköpun sem blasir við er fólgin í ferðaþjónustu. Það er nefnilega ekki þannig að ferðaþjónusta í heiminum sé dauð úr öllum æðum, þó að ferðalög séu þessa stundina í lágmarki. Alls staðar er nú verið að undirbúa ferðaárið 2021 og eftirspurnin er mikil. Það liggur fyrir að ferðaviljinn og ferðaþráin eru enn til staðar, svo um munar. Margir áætla meira að segja að það verði sprenging í ferðaþjónustu, þegar heimurinn er búinn að ná tökum á kórónuveirunni. Það er því grafalvarlegt mál að nú sé ferðaþjónustan okkar að stórum hluta lömuð.
Ónýtt þekking, reynsla og sambönd
Þó að margir haldi að erlendir ferðamenn birtist upp úr engu í Leifsstöð, þá er það fjarri lagi. Á bakvið tjöldin á sér stað mikil vinna í vöruþróun, sölu- og markaðsstarfi, skipulagningu, hönnun og viðhaldi á sölu- og bókunarkerfum, þróun rafrænna lausna, hönnun og viðhaldi á heimasíðum og markaðssetningu á samfélagsmiðlum, úrvinnslu, framleiðslu ferðagagna, upplýsingamiðlun og ekki síst mannlegum samskiptum við bæði endursöluaðila og erlenda ferðamenn beint. Þessi vinna þarf að vera viðvarandi og oftast á hin eiginlega sala sér stað mörgum mánuðum áður en ferðamaðurinn birtist loks í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða á bryggjunni á Seyðisfirði.
Þetta mikilvæga ferli liggur nú því miður meira og minna niðri. Anna sem er sérfræðingur í framleiðslu og sölu hópferða á þýska markaðnum, Gunnar sem sér um markaðssetningu á samfélagsmiðlum, Guðrún sem er helsti tengiliður stórrar ferðaskrifstofu á Bretlandsmarkaði og Sigurður, sem er yfirmaður í úrvinnslu einstaklingsferða frá Skandinavíu eru öll farin heim. Þau eru atvinnulaus. Þekking þeirra, reynsla og sambönd ónýtt. Verkefnin sem þau væru alla jafna að sinna eru undirstaða atvinnusköpunar hjá fjölmörgum ferðaþjónustufyrirtækjum og einnig fyrirtækjum í allt öðrum geirum. Þau eru undirstaða gjaldeyrisöflunar og tekna bæði ríkis og sveitarfélaga. Verkefnin sem ekki er verið að sinna núna eru einfaldlega glötuð tækifæri til viðspyrnu, verðmætasköpunar, aukins hagvaxtar og atvinnusköpunar. Það liggur í augum uppi að þeir örfáu starfsmenn sem enn eru að störfum hafa ekki bolmagn til að standa undir öllu þessu. Endurreisn ferðaþjónustunnar mun seinka alltof mikið ef enginn svarar í símann, enginn svarar tölvupóstum og markaðurinn fær ekki, það sem hann biður um.
Sem allra, allra fyrst!
Það er því einkar ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi í hyggju að styðja beint við ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi, eins og flestar þjóðir í kringum okkur hafa gert. Í yfirlýsingu þann 29. september síðastliðinn kom fram að hún hyggist verja að lágmarki sex milljörðum króna til að koma þeim fyrirtækjum til aðstoðar sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli af völdum kórónuveirufaraldursins.
Nú er það hins vegar lykilatriði að þessi stuðningur komist í framkvæmd sem allra, allra fyrst. Tækifærin bíða þarna úti og við einfaldlega verðum að grípa þau.
Bjarnheiður Hallsdóttir
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
—
Greinin birtist á Frettabladid.is, fimmtudaginn 8. október 2020.