Á dögunum sendu Samtök ferðaþjónustunnar og fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu bréf á öll landshlutasamtök sveitarfélaganna og borgarráð þar sem beðið var um niðurfellingu á fasteignagjöldum fyrir fyrirtæki sem starfa í ferðaþjónustu. Samband íslenskra sveitarfélaga fékk einnig afrit af bréfinu.
SAF benda á að heimsfaraldur Covid-19 og sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna. Stjórnvöld og sveitarfélög þurfa að styðja við bakið á atvinnurekendum og launþegum. Aðgerðirnar þurfa að tryggja að atvinnulífið sé í stakk búið til þess að taka kröftuglega við sér þegar heimsfaraldurinn fer að réna og viðspyrnan hefst.
Samtökin bentu á að fastkostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu þurfi að lækka. Því þarf að fella niður eða fresta greiðslum fasteignagjalda.
Í bréfinu segir m.a.:
Til þess að atvinnurekendur sem reka ferðaþjónustufyrirtæki nái vopnum sínum á ný til þess að leiða viðspyrnuna þegar kemur að verðmætasköpun í atvinnugreininni þá þurfa að vera til staðar ferðaþjónustufyrirtæki.
Í fjárlagafrumvarpinu segir m.a.:
„Efnahagsbatinn í spánni er einkum drifinn áfram af vexti í útfluttri ferðaþjónustu, einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu eftir áfall yfirstandandi árs. Á móti vegur aukinn innflutningur. Gert er ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi úr um 500.000 árið 2020 í rúm 900.000 árið 2021 og að það eigi stærstan þátt í að valda því að þjónustuútflutningur vaxi um þriðjung.“
Forsendur fjárlaga byggja því á að hér verði ferðaþjónusta til að taka á móti gestum.
Tekjulaus ferðaþjónustufyrirtæki til lengri tíma enda í bankakerfinu og fyrirtæki í bankakerfinu skapa engin verðmæti. Til þess að tekjulaus ferðaþjónustufyrirtæki geti staðið af sér núverandi ástand þá þarf núverandi fastkostnaður að minnka. Ein leið til þess að lækka fastkostnað fyrirtækja í ferðaþjónustu er að fella niður fasteignaskatt á þau.
Sveitarfélögin þurfa því að koma til móts við rekstaraðila í ferðaþjónustu og fella niður fasteignagjöld fyrir árið 2020. Sveitarfélögin þurfa að standa með atvinnugreininni í kreppu til að þau njóti góðs af þeirri starfsemi í uppgangi. Öll atvinnuhúsnæði sem bera atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu skulu undanþegin fasteignagjöldum fyrir árið 2020 og/eða 2021.
Sveitarfélögin þurfa því að krefjast lagasetningu til þess að þessi niðurfelling nái fram að ganga.