Eflum hæfni okkar til framtíðar
Samtök ferðaþjónustunnar hafa látið sig mennta- og fræðslumál miklu varða á undanförnum árum. Mikið hefur verið lagt í hvatningu, samstarf og nýsköpun á þessu sviði.
Ef litið er um farinn veg á undanförnum fimmtán árum hefur ýmislegt áunnist á þessu sviði. Ferðaþjónustan er orðin heilsárs atvinnugrein þar sem góð þjálfun og menntun starfsfólks hefur sífellt hlotið aukið vægi. Fjöldi fyrirtækja hefur fjárfest í aukinni fræðslu og menntun starfsfólks enda mikilvægt að hæfni starfsmanna uppfylli kröfur og væntingar viðskiptavina.
Mikilvægt er að nú þegar áföll dynja yfir greinina nýti þessi hópur tímann til að styrkja sig á vinnumarkaði enda hefur sí- og endurmenntun sjaldan verið mikilvægari. Þegar fram líða stundir og viðspyrna hefst í greininni er mikilvægt að við höfum á öflugu og vel þjálfuðu starfsfólki að skipa því mikill þekkingarleki í greininni gæti reynst þessari mikilvægu atvinnugrein dýrkeyptur.
Ég vil því hvetja fyrirtæki og einstaklinga til þess að kynna sér hin ýmsu vinnumarkaðsúrræði, námskeið og menntun sem í boði eru og minna á að eftir áramót geta atvinnuleitendur að eigin frumkvæði sótt um heimild til að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta í eina önn.
SAF gáfu á dögunum út Fræðslufréttir, en í þeim er að finna hagnýtar lausnir hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, samantekt á því hvað er í boði fyrir atvinnuleitendur hjá Vinnumálastofnun, hvernig starfmenntasjóðirnir styrkja þig og þitt fyrirtæki, ýmis sérkjör fyrir félagsmenn SAF ásamt því að vakin er athygli á nýrri útgáfu af vefnum Næsta skref. Skoðaðu Fræðslufréttir SAF með því að smella á hlekkinn hér að neðan.
Tökumst á við krefjandi tíma með því að efla hæfni okkar til framtíðar!
María Guðmundsdóttir
Fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar